*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Leiðari
9. mars 2017 13:51

Einföldu svörin

Jafnvel eftir kaup Almenna leigufélagsins á Kletti ehf. og þeim 450 íbúðum sem það félag átti, á Almenna leigufélagið aðeins um 1/50 hluta íbúðareininga í Reykjavík.

Haraldur Guðjónsson

Okkur mönnunum er það eðlislægt að vilja leita sökudólga þegar eitthvað bjátar á. Þegar svartidauði skall fyrst á Evrópu á sjöttu öld þótti ekkert sjálfsagðara en að gera ráð fyrir því að þar væri Guð að refsa mannkyninu fyrir einhverjar raunverulegar eða ímyndaðar syndir. Flókna útskýringin, sem líklega var sú að eldgos í Kyrrahafi leiddi til skammvinnrar hnattrænnar kólnunar gerði það að verkum að rottur – sýktar af svartadauðabakteríunni – fluttu sig frá efri hlutum Nílarfljóts niður í átt að hafnarborginni Alexandríu, þaðan sem þær báru dauðadóm um hinn siðmenntaða heim allan, er einhvern vegin ekki eins fullnægjandi.

Sama á við um fall bankanna. Það er einfaldast að kenna gírugum bankamönnum um það hvernig allt fór og ekki er verra ef hægt er að klína hluta sektarinnar á þá stjórnmálamenn, eða fyrrverandi stjórnmálamenn, sem manni er sérstaklega í nöp við. Það að Ísland sogaðist inn í alþjóðlega fjármálakreppu, sem átti sér ótalmargar ástæður og foreldri, og að líklega hefði lítið verið hægt að gera til að koma í veg fyrir fallið án þess að búa yfir guðlegri þekkingu á framtíðinni, er ekki eins fullnægjandi útskýring

Nú er það fasteignaverð sem fangar hug þjóðarinnar allan. Vissulega hefur íbúðaverð hækkað gríð­ arlega undanfarin misseri og ár og eins og fjallað er um í blaðinu í dag er útlit fyrir að í ár verði næstmesta raunhækkun á íbúðaverði frá árinu 1995. Fyrir þessu eru margar ástæður, en í grunninn er staðan sú að ekki er nægilegt framboð af húsnæði. Fyrir því geta verið fjöldamargar ástæður, hvort sem þær eru sinnuleysi sveitarstjórnarmanna í skipulagsmálum eða skortur á byggingarkrönum eða tregi lánastofnana til að lána til íbúðabygginga.

Einfalda útskýringin, sem meðal annars hefur verið ítrekað flaggað á síðum Stundarinnar, er hins vegar sú að gírugu fjármálamennirnir séu komnir á kreik aftur og er sjóðastýringarfyrirtækið Gamma Capital Management oftast nefnt í því sambandi. Almenna leigufélagið er í rekstri Gamma og var til skamms tíma með um 550 íbúðir í leigu. Til samanburðar má nefna að í Reykjavík einni saman eru ríflega fimmtíu þúsund íbúðareiningar. Jafnvel eftir kaup Almenna leigufélagsins á Kletti ehf. og þeim 450 íbúðum sem það félag átti, á Almenna leigufélagið aðeins um 1/50 hluta íbúðareininga í Reykjavík. Hlutfallið lækkar enn frekar þegar haft er í huga að á höfuðborgarsvæðinu eru íbúðir um 85.000 talsins.

Vissulega er Almenna leigufélagið stór aðili á markaðnum, en að halda því fram að félagið sé í einhverri ráðandi stöðu eða að það hafi ráðandi áhrif á þróun fasteignaverðs er fjarstæðukennt.

En sagan er einföld og það er mörgum nægilegt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.