Vöxtur ferðaþjónustu á Íslandi síðastliðinn áratug er á allra vörum. Eða ætti í það minnsta að vera það. Vægi atvinnugreinarinnar í vergri landsframleiðslu er á bilinu 8-9% og er hún langstærsta útflutningsatvinnugrein Íslendinga, en á síðasta ári námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu um 42% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Í einkennandi ferðaþjónustugreinum starfa nú um 26 þúsund manns.

Ísland er ríkt af auðlindum

Sterkt gengi krónunnar má meðal annars rekja til dæmalausrar eftirspurnar erlendra ferðamanna eftir margvíslegri vöru og þjónustu hér á landi. Hægt er að fullyrða að áhugi erlendra ferðamanna á landinu hafi verið mikill hvalreki fyrir íslenskt efnahagslíf eftir kollsteypuna árið 2008 og tryggt lífskjör í landinu eins og þau gerast best í heiminum.

Færa má sterk rök fyrir því að þessa þróun megi þakka framtaki einstaklinga sem með nýsköpun og þróun sköpuðu störf og tækifæri. Ísland er ríkt af auðlindum, það á við jafnt um fiskinn í sjónum sem og fossa, fjöll, og firði. Menningararfurinn er líka auðlind, hráefni í dýrmæta vöru. Það sama má segja um söguna og listina.

Frumkvöðlastarfsemi blómstrar

Á Íslandi eru nú starfrækt um 3.500 ferðaþjónustufyrirtæki af margvíslegum toga. Sum þeirra hafa verið starfrækt í áratugi, flest þeirra eru hins tiltölulega ung. Stór hluti þeirra er staðsettur á höfuðborgarsvæðinu en fjölgunin hefur líka verið á landsbyggðinni. Hafa ber þó í huga að heimilisfesti fyrirtækja segir þó ekki alla söguna um hvar starfsemi þeirra fer fram.

Til dæmis fara umsvif íslenskra ferðaskrifstofa sem taka á móti erlendum ferðamönnum að stórum hluta fram úti á landi. Fyrirtæki eru gjarnan flokkuð í stór, meðalstór og lítil fyrirtæki. Flest ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi eru lítil, gjarnan í eigu einyrkja eða fjölskyldna. Það er hluti af blómlegri starfsemi í ferðaþjónustu um allt land.

Ferðaþjónusta hefur gefið frumkvöðlum tækifæri til að láta til sín taka og stækkað markaði fyrir hefðbundnar atvinnugreinar eins og landbúnað. Gott dæmi um það er garðyrkjufyrirtækið Friðheimar í Bláskógabyggð sem framleiðir og reiðir fram vörur úr tómötum ræktuðum á staðnum.

Áhrifanna gætir víða

Ferðaþjónustan er fjölbreytt atvinnugrein og áhrifa hennar gætir í fjölmörgum öðrum atvinnugreinum og oft eru tengslin ekki augljós. Aukin fjárfesting í ferðaþjónustu hefur t.a.m. mikil áhrif á fyrirtæki í byggingariðnaði.

Eftirspurn erlendra ferðamanna hefur haft mikil áhrif á verslunina í landinu, á fjölbreytta framleiðslu á matvörum og ekki má gleyma þeirri lyftistöng sem erlendir ferðamenn hafa verið fyrir framleiðslu á útivistarfatnaði hér á landi. Ferðaþjónusta og skapandi greinar af ýmsum toga eru líka nátengdar hver annarri.

Ferðaþjónusta styður við byggðirnar

Það er líka áhugavert hvað ferðaþjónusta er farin að styðja við blómlega byggð um land allt. Öll þekkjum við margar misgóðar tilraunir sem gerðar hafa verið til að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Nú eru hins vegar jákvæð teikn á lofti um að ferðaþjónustuaðilar í samvinnu við markaðsstofur og sveitarfélög um allt land séu farin virka sem gríðarlega jákvætt afl í þessu tilliti og þegar má merkja viðsnúning í fólksfjölda og afkomu margra sveitarfélaga um land allt.

Nærtæk dæmi um þetta eru Vík í Mýrdal, þar sem dæmalaus fjárfesting hefur átt sér stað undanfarin ár og Reykjanesbær, þar sem beinum störfum bara á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað um 4.500 undanfarin fimm ár og í ár er búist við að þeim fjölgi um 1.300. Stóriðjan kom sem sagt í Reykjanesbæ, þrátt fyrir allt. Stóran hluta þessa má rekja beint til framtaks einstaklinga í ferðaþjónustu.

Hugsum vel um gullgæsina

Árið 2017 er reiknað með að beinar nettótekjur sveitarfélaga á landinu hafi verið um 14 milljarðar króna. Ferðaþjónustan hefur skapað það sem menn höfðu látið sig dreyma um, en gengið illa við að láta verða að veruleika – atvinnutækifæri vítt og breitt um landið. Fjölbreytt störf annaðhvort beint við ferðaþjónustu eða við starfsgreinar sem styðja við hana.

Fréttir berast af ungu, oft vel menntuðu fólki utan af landi, sem nú sér tækifæri í því að flytja aftur í heimahagana. En eins og fyrr segir, þá gerist ekkert af sjálfu sér. Við stöndum nú á á ýmsan hátt á krossgötum hvað ferðaþjónustuna varðar. Við þurfum að taka margar stefnumótandi ákvarðanir um það hvernig við viljum að greinin þróist í framtíðinni, með hagsmuni allrar þjóðarinnar í huga.

Við þurfum að gefa greininni meiri gaum, fjárfesta í innviðum, menntun, rannsóknum og markaðsmálum. Við verðum að fara varlega í öllum ákvörðunum um íþyngjandi aðgerðir á greinina sem síðan leiða af sér hækkun á verði fyrir ferðamenn og rýrir þar með samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannastaðar. Við verðum að hugsa vel um gullgæsina, sem þegar upp er staðið er einkaframtakið í sinni fegurstu mynd.

Höfundur er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Pistillinn birtist í Frjálsri verslun