*

fimmtudagur, 24. september 2020
Andrés Magnússon
3. september 2015 13:20

Einkamál

Það á enginn að þurfa að standa fjölmiðlum reikningsskil einkalífsins og á það jafnt við um ráðherra og aðra.

Haraldur Guðjónsson

Mitt í umróti Baugsmálsins, þar sem fjölmiðlum auðhringsins var skefjalaust beitt í vörn og hagsmunabaráttu eigendanna, komst Fréttablaðið yfir tölvupóst Jón­ínu Benediktsdóttur, sem varpa þóttu nokkru ljósi á upphaf málsins. Fyrir lá að póstarnir voru þýfi, en aldrei var upplýst hver hefði stolið þeim og komið til blaðsins, af hvaða hvötum eða beiðni hvers, né hvort þjófurinn hefði fengið endurgjald fyrir. Lögbann var sett á birtingu póstanna, sem síðar var hrundið, þar sem dómstólum þótti málið eiga erindi við almenning, þar sem mikið hefði verið um það fjallað.

Fjaðrafoksfréttir Fréttablaðsins úr póstunum breyttu svo sem litlu um málið þegar upp var staðið. Það sem sjálfsagt lifir þó lengst, er að DV – þá systurblað Fréttablaðsins, í sömu eigu og í sama húsnæði – birti forsíðufrétt upp úr póstunum um að Jónína hefði átt vingott við Styrmi Gunnarsson, þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins og kvæntan mann, en hann hafði með óbeinum hætti komið við sögu í umræddu upphafi Baugsmálsins. Sú ógeðfellda frétt hafði ekkert eiginlegt fréttagildi og var ljóslega aðeins skrifuð til þess að valda usla í einkalífi umfjöllunarefnanna, særa nákomna og svala hefndarfýsn eigenda blaðsins.

***

Um netheima kvisaðist nýlega út að á hinum hökkuðu notendalistum framhjáhaldssíðunnar Ashley Madison mætti finna nöfn ýmissa Íslendinga. Sumir fjölmiðlar skrifuðu um það fréttir að í þeim hópi mætti m.a. finna þekkt fólk á íslenskan mælikvarða. Enginn þeirra var þó afhjúpaður.

Í vikunni gerðist það svo að eiginkona fjármálaráðherra opinberaði að þau hjónin hefðu skráð sig á vefinn í einhverju bríaríi fyrir allnokkrum árum, en ekkert aðhafst frekar og ekki meira um það að segja.

Fáum duldist að þar var verið að segja af létta áður en einhver miðillinn birti sína útgáfu og ekki þurfti lengi að bíða þess að Stundin kæmi úr skápnum, sem miðillinn með ósögðu fréttina.

Þeir Jóhann Páll Jóhannsson og Hjálmar Friðriksson skrifuðu saman frétt, svona frekar skúbbsárir, um að frásögn eiginkonunnar væri ekki sannleikanum samkvæm, því gögnin sýndu að víst hefði verið átt við notandareikninginn nokkrum sinnum síðan hann var stofnaður. Flinkari tölvumenn sýndu hins vegar fram á að þetta væri rangt hjá Stundinni. Sem síðan leiðrétti fréttina enn afundnari en fyrr og gerði einhvernveginn aðalatriði úr að aðstoðarmenn ráðherrans hefðu brugðist starfskyldum sínum um að taka símann frá miðlinum um þessi einkamál hans!

Þessi vinnubrögð Stundarinnar eru með ólíkindum. Við blasir að miðillinn gekk mjög langt í að þrýsta á að ráðherrann eða einhverjir nákomnir honum svöruðu til um málið, sem flestir geta fallist á að sé strangt einkamál.

Það er óþarfi að rökstyðja það sérstaklega hvers vegna einkalífið er friðhelgt og spurningar um það eru ekki svara verðar, nema sérstakar ástæður eru til þess að málið varði almenning Það átti engan veginn við.

Það á enginn að þurfa að svara slíkum spurningum; hvorki af eða á, því einu gildir hvert svarið er: það kemur engum við. Það á jafnt við um ráðherra og aðra í þessu þjóðfélagi, að það á enginn að þurfa að standa fjölmiðlum reikningsskil einkalífsins.

Það er ömurlegt, nei skammarlegt, að fjölmiðill skuli leggja sig niður við slíkt, að stilla fólki upp á opinberum vettvangi til þess að játa eða afneita meintum syndum. Eitt er þó gott við það, en það er að slík framganga afhjúpar fjölmiðilinn, erindi hans og starfshætti.

***

Í gær sagði Ríkisútvarpið þá frétt að fréttastofan hefði undir höndum úrskurð frá Persónuvernd, um að DV hefði brotið lög í fyrra með óvarkárni og skeytingarleysi í meðferð tölvupósta Jóns Trausta Reynissonar útgefanda, Heiðu B. Heiðarsdóttur auglýsingastjóra og Reynis Traustasonar ritstjóra, sem þá voru nýhætt á blaðinu eftir mikil átök um eignarhald, ritstjórn og rekstur. Póstur þeirra var áframsendur annað eftir að þau hættu störfum, hann lesinn og hluta hans jafnvel dreift til aðila utan blaðsins.

Nú liggur í sjálfu sér ekkert fyrir um að þarna hafi verið brotið sérstaklega á friðhelgi einkalífs þeirra, heldur er aðeins vísað til hins almenna um að tölvupóstur sé einkamál, jafnvel þó um sé að ræða netfang á vegum vinnustað­ar eða fyrrverandi vinnustaðar.

Það er hins vegar spurning hvort afstaðan væri sú sama ef uppi hefði verið rökstuddur grunur um eitthvað misjafnt, eins og komið hefur upp í hlið­stæðu máli, nú eða ef inn í hefðu blandast raunveruleg einkamál, sem DV hefði síðan gert sér mat úr líkt og með Jónínupóstana fyrir 10 árum. Hefði Persónuvernd þá úrskurðað þvert á dóm Hæstaréttar?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.