*

föstudagur, 3. júlí 2020
Óðinn
24. desember 2019 10:02

Einkareknir fjölmiðlar og Ríkisútvarp

Allt frá fyrsta útvarpsstjóranum var gefinn tónninn um þá óraðssíu og lögbrot sem einkennt hefur stofnunina æ síðan.

Haraldur Guðjónsson

Enn ein skýrslan um Ríkisútvarpið var birt á dögunum. Að venju fékk opinbera hlutafélagið, sem Óðinn mun aldrei kalla annað en stofnun, falleinkunn á mörgum sviðum.

                                                             ***

Stofnunin brýtur lög með því að aðskilja ekki samkeppnisrekstur frá öðrum rekstri. Reksturinn er að mati Ríkisendurskoðunar ósjálfbær. Umfang Ríkisútvarpsins er því langt umfram það sem tekjur gefa tilefni til. Það er þrátt fyrir að þær hafi aldrei verið hærri.

                                                             ***

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um stöðu einkarekinna fjölmiðla. Sama fólkið og heldur nú ræður langt fram á nótt um skelfilega stöðu einkarekinna fjölmiðla samþykkti fjárlagafrumvarp á dögunum þar sem 4,8 milljarðar króna í bein framlög renna til RÚV frá skattgreiðendum. En stjórn og stjórnendum Ríkisútvarpsins nægir það ekki.

                                                             ***

Auglýsingadeild stofnunarinnar er fjölmenn og þar eru allir á prósentum. Sú ágæta deild, sem er án vafa skilvirkasta deildin í öllum ríkisstofnunum á landinu, sækir á alla sem auglýsa. Alla. Með peninga skattgreiðenda að vopni eru allir auglýsingaakrar brenndir. Þar með er ekkert fyrir hina stóru fjölmiðlana að sækja og þeir, í sjálfbjargarviðleitninni, byrja að kroppa af minni fjölmiðlunum, til dæmis héraðsblöðunum og staðarblöðunum.

                                                             ***

Það þarf að minnsta kosti að setja Ríkisútvarpinu verulegar skorður í birtingu auglýsinga. Óðinn sér ekki nokkra glóru í að banna auglýsingar í miðlum stofunarinnar, enda yrði „tekjutapið" einfaldlega sótt í vasa skattgreiðenda. En það væri hægt að breyta auglýsingadeildinni í pöntunardeild.

                                                             ***

Í umræðum um frumvarpið um styrki til einkarekinna fjölmiðla á mánudagskvöld kom fram sú hugmynd að taka hluta af auglýsingatekjunum af Ríkisútvarpinu og nota það fé til að styrkja einkareknu fjölmiðlanna. Óðinn hefur heyrt margt vitlausara en hallast nú frekar að því að lækka einfaldlega meðlagið frá skattgreiðendum. Sem er milljarði hærra í dag en það var að meðtaltali frá 2000 - 2015.

                                                             ***

Óðinn sagði í mars í pistlinum Ríkisvæðing fjölmiðla og plástur á krabbamein að frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra væri góðra gjalda vert en það myndi litlu breyta um stöðu einkarekinna fjölmiðla nema Ríkisútvarpinu væru settar skorður. Síðan þá er búið að lækka fyrirhugaða endurgreiðslu þannig að hafi einkareknir fjölmiðlar almennt verið dauðir fyrir, eins og margir telja, eru þeir líklega steindauðir eftir lækkunina. Það er að segja ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt.

                                                             ***

Það virðist vera breið sátt um það að vernda íslenska tungu, menninguna og menningararfinn. Besta leiðin og sú hagkvæmasta er að breyta Ríkisútvarpinu í sjóð. Sjóðurinn gæti virkað með svipuðum hætti og kvikmyndasjóður, þar sem einstaklingar, framleiðslufyrirtæki og fjölmiðlar gætu sótt um að gera það efni sem stjórn sjóðsins teldi best til þess fallið að ná markmiðum hans. Óðinn er viss um að þannig gæti náðst fram mikil hagræðing.

                                                             ***

Þessu til stuðnings vill Óðinn rifja enn og aftur upp bréf yfirverkfræðings Ríkisútvarpsins til útvarpsstjóra frá árinu 1957 sem birtist í bókinni „Þjóð í hafti" eftir Jakob. F. Ásgeirsson. Í bréfinu segir:

„ Ennfremur er reynslan sú, bæði á Akureyri og Reykjavík, að þótt viðgerðarstofur einstaklinga séu reknar með ágóða, þá hefur rekstur Viðgerðarstofu útvarpsins verið rekinn með halla síðastliðin 10 ár, enda þótt greiðslur fyrir viðgerðir séu hinar sömu hjá báðum aðilum og hefur þó Viðgerðarstofa Ríkisútvarpsins sérstök hlunnindi í viðskiptum sínum við Viðtækjaverslun ríkisins." En yfirverkfræðingurinn heldur áfram. „Önnur hlið þessara mála er innflutningur viðtækja og viðgerðarefnis hjá viðtækjaversluninni. Öll slík innkaup virðast vera af mesta handahófi og þess alls ekki gætt að hafa rétta varahluti á boðstólum, auk þess sem afgreiðsla hjá versluninni er í mesta ólestri. Þetta atriði stendur öllu viðhaldi á tækjabúnaði landsmanna mjög fyrir þrifum og nú í augnablikinu eru nær allar viðgerðir stöðvaðar fyrir efnisskort. Almennur gjaldeyrisskortur á þar nokkra og mikla sök, en val á varahlutum og skökk innkaup valda þar þó mestu."

Þessi gagnrýni yfirverkfræðingsins á rekstur Ríkisútvarpsins og viðtækjaverslunarinnar sýnir hversu meingallaður ríkisrekstur er. Ef hann gengur ekki, og hann gengur ekki, þá er sótt í vasa skattgreiðenda. Rekstrarsaga Ríkisútvarpsins er ein löng sorgarsaga. Þrátt fyrir að fá vinning í lóðahappdrætti Reykjavíkurborgar vegna lóðaskortsins og fengið, að sögn Ríkisendurskoðunar, 1,5 milljarða króna í lóðasölu undanfarin misseri þá telur Ríkisendurskoðunin reksturinn ósjálfbæran.

                                                             ***

Í skýrslu ríkisendurskoðunar frá því í nóvember er sagt að Ríkisútvarpið brjóti lög. Það eru engin nýmæli. Ríkisendurskoðun hefur komist ítrekað að þeirri niðurstöðu. Samkvæmt stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar frá febrúar 1988 gaf fjöldi fastráðinna starfsmanna ranga mynd af raunverulegum fjölda starfsmanna á þessum árum. Í skýrslunni segir:

„Hjá Ríkisútvarpinu starfa u.þ.b. 370 manns. Heimiluð stöðugildi eru 265, en fastráðnir starfsmenn eru 210. Hins vegar hefur stofnunin 120 lausráðna starfsmenn. Auk þess starfar tímavinnufólk sem nemur 44 stöðugildum á ári, þannig að um 65 stöðugildi hjá Ríkisútvarpinu eru án stöðuheimilda."

Svo skulum við að endingu minnast fyrsta útvarpsstjórans. Má segja að hann hafi gefið tóninn sem ennþá hljómar í Efstaleiti. Rekstrarkostnaður fyrsta starfsár útvarpsins fór langt fram úr fjárlögum. Yfirskoðunarmenn landsreiknings gagnrýndu meðferð fjármuna hjá stofnuninni fyrir árið 1931 og töldu ýmis útgjöld án heimilda.

Má þar nefna risnukostnað á Hótel Borg, ferðakostnað útvarpsstjóra, brúðargjöf og jólaglaðning til starfsmanna. Að auk gaf útvarpið fjórum stofnunum útvarpstæki án heimildar í fjárlögum. Í kjölfar þessa athugasemda var útvarpsstjóra gert að endurgreiða kostnaðinn og stofnanirnar fjórar voru krafðar um andvirði útvarpstækjanna.

Árið 1952 féll dómur í Hæstarétti þar sem sami útvarpsstjóri var dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð fyrir að hafa tekið 2% þóknun af lánum sem veitt voru úr Framkvæmdasjóði Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið hafði ekki not fyrir fjármunina í sjóðnum í nokkur ár og því lánaði það byggingarfélögum út í bæ skammtímalán til að ávaxta sjóðinn. Útvarpsstjórinn tók sér þóknun af lánsupphæðum án þess að hafa heimild til þess.

                                                             ***

Óðinn vonast til þess að alþingismenn, og þá nægir meirihluti þess, átti sig á að afskipti af fjármálum einkarekinna fjölmiðla yrðu mikið óheillaspor. Og mun engu skipta.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.