*

mánudagur, 25. október 2021
Leiðari
3. mars 2016 12:30

Einkarekstur til fyrirmyndar

Það að opna örfáar einkareknar heilsugæslustöðvar er lítið skref, en það er skref í rétta átt.

Haraldur Guðjónsson

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti á dögunum breytingar á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem gert er ráð fyrir því að þrjár nýjar heilsugæslustöðvar verði opnaðar og að rekstur þeirra verði boðinn út. Þær verði með öðrum orðum einkareknar.

Ekki þurfti að bíða lengi eftir viðbrögðum opinberra starfsmanna og stjórnmálamanna á vinstri kantinum og voru þau öll í sömu áttina. Ráðherrann var fordæmdur fyrir að voga sér að leggja til einhverjar breytingar aðrar en að auka framlög til óbreytts heilbrigðiskerfis.

Nú þegar eru fimmtán heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu sem reknar eru af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þannig að þrátt fyrir þessar „róttæku“ breytingar ráðherrans verður mikill meirihluti heilsugæslustöðva á svæðinu ennþá í opinberum rekstri.

Reyndar vill svo til að í Salahverfi í Kópavogi er einkarekin heilsugæslustöð, sem stofnuð var árið 2004, fyrst sinnar tegundar. Haustið 2008 framkvæmdi nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins úttekt á rekstri heilsugæslustöðva á landinu og meðal niðurstaðna hennar var sú að stöðin í Salahverfi væri ein sú best rekna á landinu.

Skýrsluhöfundum fannst reksturinn á heilsugæslustöðinni í Salahverfi vera framúrskarandi á meðan aðrar heilsugæslustöðvar í landinu keyrðu oftar en ekki fram úr fjárlögum. Í úttektinni á starfseminni kemur meðal annars fram að „stöðin er mjög afkastamikil […] aðgengi er hvað best á heilsugæslunni í Salahverfi af öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu“ og að „… allt er varðar starfsemi, starfsmenn og þjónustu við notendur er til fyrirmyndar“.

Nú er að sjálfsögðu ekki hægt að fullyrða um að hinar nýju einkareknu heilsugæslustöðvar verði jafn vel reknar og sú í Kópavoginum. En það er ómögulegt að skilja þann mikla mótþróa sem alltaf er sýndur hugmyndum um breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisþjónusta er afar stór hluti opinberra útgjalda og mun hlutur hennar aðeins aukast með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar. Það er ábyrgðarhluti hjá stjórnmálamönnum, hvar í flokki sem þeir eru staddir, að reyna að verja þessu fé með eins skynsamlegum hætti og mögulegt er. Það að opna örfáar einkareknar heilsugæslustöðvar er lítið skref, en það er skref í rétta átt. Vonandi er að þessi tilraun verði ekki kæfð í fæðingu.

Stikkorð: Þór Kristján Júlíusson Þór
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.