*

laugardagur, 15. maí 2021
Óðinn
13. júní 2012 14:45

Eins og í sögu?

Miðstýringaráætlun ríkisstjórnarinnar og grínflokksins gengur einungis út á það að endurúthluta því sem aðrir hafa skapað.

Haraldur Guðjónsson

„Hver er John Galt?“ var viðkvæði fólks í dökkri heimsmynd Ayn Rand í skáldsögunni Atlas Shrugged. Í sögunni hafa Bandaríkin alfarið gengið heildarhyggju á hönd og einstaklingshyggja er talin löstur.

Bandaríkin eru enn lýðræði en hefðbundnar dyggðir eins og framtakssemi og dugnaður eru taldar lestir. Viðskipti og hugvit eru tortryggð og reynt að beygja alla undir vilja ríkisvaldsins. Hagnaður eins eða afrek eru talin vera á kostnað heildarinnar og taprekstur og auðnuleysi eru sögð óheppni, afsakanir eru lagðar að jöfnu við árangur.

* * *

John Galt var maðurinn sem lét ekki bjóða sér þetta lengur og neitaði að vera fórnardýr stjórnmálamannanna sem sögðust tala í nafni almennings. John Galt uppgötvaði að kúgun gæti ekki átt sér stað nema með samþykki fórnarlambsins og ákvað að segja nei. Í bókinni neitaði John Galt, sem átti að vera eðlisfræðingur, að láta hugvit sitt af hendi og sneri baki við samfélaginu. Eftir það tók hann sér fyrir hendur að sannfæra viðskiptajöfra og vísindamenn að slást í lið með sér og fara í verkfall. Í Atlas Shrugged stöðvast þjóðfélagið þegar kapítalistarnir fara í verkfall.

* * *

Bækur Ayn Rand verða seint taldar raunverulegar þótt þær séu umhugsunarverðar dæmisögur um afleiðingar öfgafullrar heildarhyggju. Þó eru sífellt að verða fleiri hliðstæður á Íslandi samtímans og í dæmisögum Ayn Rands. Í fyrsta lagi má nefna að Ísland hefur færst mörg ár aftur í tímann í viðhorfi bæði stjórnmálamanna og fjölmiðla til atvinnulífsins. Fyrirtæki eru tortryggð og sögð óheiðarleg ef þeim gengur vel og þau græða, en þau eru úthrópuð sem glæpagreni ef þau tapa.

* * *

Núverandi ríkisstjórn er sú vinstrisinnaðasta sem verið hefur við völd frá dögum vinstristjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971-1974. Ýmsar breytingar sem hún hefur hrint í framkvæmd, s.s. hundruð breytinga á skattkerfinu, skattahækkanir, fjölgun hvers kyns reglna og eftirlits og áframhald gjaldeyrishafta eru sagðar vera vegna „hrunsins“ án þess að nokkurt sérstakt samhengi sé þar í raun og veru á milli. En þessar breytingar koma vel heim og saman við þær skoðanir sem stjórnarliðar boðuðu á árunum áður en þeir ærðust af hrifningu á nýja hagkerfinu.

* * *

Tvær öfgafullar birtingarmyndir þessa hugarfars eru að það átti að láta þjóðina gangast undir Icesaveánauðina undir því yfirskini að það væri verið að „borga reikninginn fyrir ný-frjálshyggjuna“ og þegar saksóknara var skipaður erlendur pólitískur ráðgjafi. Slíkt hefði ekki verið látið viðgangast í neinu norrænu velferðarríki, enda standa þau vörð um velferð sína með því að vera réttarríki.

* * *

Annað atriði sem minnir á martröð Ayn Rand eru deilurnar um sjávarútveginn. Þegar kvótakerfi var komið á var sjávarútvegur óhagkvæm atvinnugrein. Arði greinarinnar var að töluverðu leyti sólundað í óhagkvæman rekstur. Aðgangur að greininni var frjáls þeim sem höfðu skip til að veiða og því var kapphlaup á meðal útgerðarmanna að fjárfesta í skipum.

Opinberir fjárfestingar- og styrkjasjóðir ýttu síðan undir þetta kapphlaup. En þótt fiskurinn sé endurnýjanleg auðlind þá er hann takmörkuð auðlind og fjárfesting eins útgerðarfyrirtækis í aukinni sóknargetu var á kostnað þess sem aðrir gátu veitt. Rentunni af auðlindinni var því sóað í fjárfestingu.

* * *

Með kvótakerfinu var útgerðum úthlutaður kvóti og fjárfestingu hverrar og einnar útgerðar var því stýrt eftir takmörkun auðlindarinnar en ekki í kappi við aðra útgerðarmenn. Það hafði tvær afleiðingar; í fyrsta lagi hagkvæmari fjárfestingu í greininni og í öðru lagi fór það að verða hagkvæmara fyrir útgerðarmenn að auka verðmæti aflans með markaðsstarfi. Það er þessi hagræðing sem er grunnurinn að því sem er í dag kallað auðlindarentan. Auðlindarentan er ekki til ein og sér og hún er ekki sjálfstæður eiginleiki auðlindarinnar sem slíkrar. En eiga útgerðarmennirnir sem högnuðust á hagræðingu í greininni tilkall til rentunnar? Það má spyrja á móti: Ef þeir eiga það ekki, hver á það þá frekar? Og það má jafnframt spyrja: Ef þeir hefðu ekki talið sig eiga tilkall til rentunnar, hefði hún orðið til og þá hvernig? Og ef hún verður af þeim tekin verður hún þá áfram til staðar?

* * *

Skattur á rentu er skattur á dugnað og ef menn telja að skattar á lesti eins og áfengi, sykur eða tóbak dragi úr „óæskilegri“ hegðun, hvað þá með skatta á rentu?

* * *

Nú þegar LÍÚ er farið í vinnustöðvun er freistandi að draga þá ályktun að Friðrik J. Arngrímsson sé John Galt Íslands. Það er þó ólíklegt að Ayn Rand hefði litið þannig á málið. Útgerðarmenn sitja enn uppi með að þeir sem „fórnarlamb“ hafa samþykkt óréttlætið. Það gerðist með þátttöku þeirra í auðlindanefndinni árið 1999 þegar þeir samþykktu auðlindagjald. Í þingsályktun um auðlindanefndina sagði: „Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta. Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð í landinu.“

* * *

Þeir sem stóðu að þessari nefnd og sátt ímynduðu sér að þar með mundi nást sátt um málið. Sú sátt stóð vitanlega stutt og þegar við Alþingiskosningar 2003 ætlaði Samfylkingin að leggja til að útgerðir yrðu sviptar aflaheimildum með svokallaðri fyrningaleið, þótt hún hafi þurft að hverfa frá þeirri leið vegna mikillar andstöðu almennings. Um leið og útgerðarmenn voru búnir að fallast á að renta auðlindarinnar var annarra en þeirra sem sköpuðu hana urðu allar hugmyndir um „hóflega gjaldtöku“ að óskhyggju og einfeldningslegt að ætla að þeir sem ættu „raunverulegt tilkall“ til rentunnar sættu sig við að fá einungis brot hennar.

* * *

„Réttlát skipting afrakstursins“ felst því nú í því að ríkið ætlaði að skammta sér 70% rentunnar og hefur allra náðarsamlegast fallist á að lækka það niður í 50%. Rentan eins og hún er reiknuð samkvæmt frumvarpi um veiðileyfagjald tekur einungis mið af ávöxtun fjármagns, skilgreinir hann að vísu rangt, en reiknar ekki með neinum afrakstri af hugviti (e. entrepreneurial profit) sem þó er grunnurinn að rentunni eins og bent var á hér að ofan. Þar að auki gengur frumvarp um stjórnun fiskveiða langt í því að grafa undan arðsemi greinarinnar í nafni þess sem útgerðarmenn samþykktu „að styrkja byggð í landinu“ með því að smærri útgerðir greiða lægra gjald og með því að úthluta aflaheimildum í svo kallaða byggðapotta.

* * *

Í stað þess að aflaheimildirnar safnist á hendur þeirra útgerða sem hagkvæmastar eru verður þeim úthlutað af stjórnmálamönnum. Reynslan sýnir að það þýðir að þær leiti á hendur þeirra sem bestan aðgang hafa að stjórnmálamönnum. Með öðrum orðum mun gerræði taka við af markaðsöflunum. Á það hefur líka verið opnað að ef útgerðir geti ekki staðið undir sér með veiðileyfagjaldið sé stjórnin tilbúin að skoða sértækar aðgerðir til handa þeim. Og hvernig skyldi þá þeim útgerðum vegna sem hafa opinberlega lýst skoðun sinni á valdhöfunum?

* * *

Þeir sem eru fremstir í röðinni á skömmtunarkontórum stjórnmálamannanna eru auðvitað stjórnmálamennirnir sjálfir og þeir eru nú þegar farnir að eyða væntri rentu af auðlindinni til atkvæðakaupa. Dæmi um það er þegar sjávarútvegsráðherrann SteingrímurJ. Sigfússon gefur undir fótinn með það í ræðu á Sjómannadaginn að taka aftur upp skattaafslátt sjómanna sem fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon hafði skömmu áður lagt af. Mest sláandi dæmið er þó hvernig ríkisstjórnin kaupir til liðs við sig Guðmund Steingrímsson með svokallaðri fjárfestingaráætlun sem fjármagna á með veiðileyfagjaldi og afrakstri af sölu eða arðgreiðslum bankanna. Þessi áætlun ríkisstjórnarinnar kemur þó ekki í stað þeirrar fjárfestingar sem upp á hefur vantað á Íslandi vegna óvissu um skattamál, gjaldeyrishaftanna og fjandsamlegs viðhorfs stjórnarinnar í garð fjárfestinga.

* * *

Það er í raun rangnefni að kalla þessa áætlun „fjárfestingaráætlun“ og miklu nær að kalla hana miðstýringaráætlun, því framlag hennar til nýrrar fjárfestingar og sjálfbærs hagvaxtar er minna en ekkert. Fjármunir sem fást úr eignarhlutum ríkisins úr bönkunum og er varið í þessa miðstýringaráætlun er ígildi nýrrar skuldsetningar, þar sem ríkið gaf út skuldabréf til að endurfjármagna bankana sem átti að endurgreiðast við sölu þeirra. Það má deila um hversu skynsamlegt það hafi verið af ríkinu að endurfjármagna bankana, en hefði það virkilega verið samþykkt að ríkið skuldsetti sig til að fjármagna þessi gæluverkefni?

* * *

„Auðlindagjaldið sem Guðmundur og félagar ætla að ráðstafa er heldur ekki nýir fjármunir, heldur fjármunir sem verða teknir af arðbærum fyrirtækjum og verður endurúthlutað af stjórnmálamönnum í stað þess láta fyrirtækjunum sjálfum eftir að fjárfesta. Það er því engin nettó fjárfesting eða sjálfbær hagvöxtur í þessari miðstýringaráætlun jafnvel þó við gefum okkur að stjórnmálamenn fjárfesti jafnvel og viðskiptalífið, heldur einungis tilfærsla fjárfestingar frá atvinnulífinu til ríkisins. Að auki verður að horfa til þess sem þarf til að kosta til að afla ríkinu þessa fjár, en það eru breytingar fiskveiðistjórnun sem munu grafa undan hagkvæmni í sjávarútvegi. Breytingarnar færa því fé frá þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt að þau kunni með það að fara með arðbærum rekstri og í atkvæðakaup.

* * *

Miðstýringaráætlun ríkisstjórnarinnar og grínflokksins gengur einungis út á það að endurúthluta því sem aðrir hafa skapað og skapar engin ný verðmæti hún er ígildi þess ætla að kynda stjórnarheimilið með því að höggva stofustássið niður í arininn.“

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.