Eitt einkenndi íslensku bankanna þrjá sem virðist hafa verið alþjóðlegt einkenni þeirra. Það var fjármögnun bankanna á eigin hlutafé. Allir bankarnir þrír brutu óumdeilanlega gegn 10% hámarkinu, samkvæmt gögnum frá þeim sjálfum.

Merkilegasta staðhæfing rannsóknarnefndar Alþingis um íslensku bankanna snýr að mínu mati að Kaupþingi. Í skýrslunni er það rökstutt með frumgögnum að bankinn hafi a.m.k. fjármagnað 42% af eigin hlutafé. Við nánari skoðun virðist hlutfallið vera jafnvel enn hærra, eða um 60 til 70%.

Það merkilega er að í fjölmörgum greinum fyrrverandi starfsmanna bankans - og reyndar bókum líka - hefur ekkert komið fram sem segir að þetta sé ekki rétt. Hvað þýðir þetta, ef þetta er rétt? Það þýðir að bankinn var fordæmalaus svikamylla þegar kemur að markaðsvirði hlutafjár bankans. Endurskoðendur hafa til þessa neitað því - a.m.k. flestir - að þeir hafi gert mistök þegar kemur að endurskoðun á reikningum bankanna. Fjármögnun bankanna á eigin hlutafé þarfnast þó frekari skýringa að hálfu endurskoðenda. Þar er lykilspurningin þessi; Hvers virði er lán banka til kaupa á hlutafé í sjálfum sér, með bréfin ein að veði?

Í þessu felst að fé er fært innan bankans í það að vera hlutafé. Virði lánsins getur aldrei verið neitt, þar sem hlutaféð í bankanum er að veði. Lánin skila aldrei neinu, nema tímabundið ef menn svindla með því að eignfæra lánin og falsa þar með markaðsvirði bankans. Endurskoðendur verða að svara því, efnislega, hvers vegna yfir þúsund milljarða króna umbreyting á lausu fé í hlutafé fékk að viðgangast í íslensku bankakerfi, án athugasemda frá þeim. Þeir hafa engar afsakanir. Þó ábyrgðin á ársreikningum fyrirtækja hvíli á stjórnendum fyrirtækja, þá leysir það endurskoðendur ekki undan lögum sem um þá gilda þar á meðal um vanrækslu af þeirra hálfu.

Fjármögnun bankanna á eigin hlutafé, og það að hún hafi verið eignfærð í ársreikningum árum saman með þeim hætti sem gert var, er hneyksli og hlýtur að koma til greina sem vanræksla. Vegna þess að lán banka til kaupa á eigin hlutafé, með það að veði, eru einskis virði og geta aldrei verið annað.