*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Leiðari
30. mars 2017 13:40

Einu sinni enn

Við erum því enn á ný að horfa fram á tímabil kjaraviðræðna og hugsanlegra átaka á vinnumarkaði.

Það verður vafalaust erfitt, eins og alltaf, að hemja kröfugerð lækna, sem virðast alltaf njóta samúðar fjölmiðlafólks og stórs hluta almennings.

Í ár losna tæplega 40 kjarasamningar og á því næsta losna um 80 samningar til viðbótar. Við erum því enn á ný að horfa fram á tímabil kjaraviðræðna og hugsanlegra átaka á vinnumarkaði.

Í Viðskiptablaðinu í dag er ítarleg úttekt á stöðu mála á vinnumarkaði og þá vinnu sem fram undan er. Þar er rifjað upp að árið 2014 var gerð tilraun til að ná almennri sátt á vinnumarkaði og sömdu forsvarsmenn ASÍ og SA um 2,8% launahækkun, en markmiðið var að varðveita stöðugleika í efnahagslífinu.

Nokkrum mánuðum síðar samdi hið opinbera við lækna og kennara og voru þeir samningar gerðir á allt öðrum forsendum en stöðugleikasamkomulagið á almenna markaðnum. Rætt var um launaleiðréttingu og niðurstaðan var sú að samið var um mun hærri launahækkanir en gert hafði verið á milli ASÍ og SA.

Þar sló hið opinbera tóninn og afleiðingin var sú að hér logaði allt í verkföllum árið 2015.

Nú er boltinn á ný hjá hinu opinbera. Semja þarf við lækna og kennara auk fjölda annarra stéttarfélaga opinberra starfsmanna innan BHM. Ljóst er að kröfugerð­ ir margra stéttarfélaga munu taka mið af úrskurði kjararáðs, sem ákvað í október í fyrra að hækka laun ráðamanna í landinu – þar á meðal þingmanna – um 44%.

Íslendingar sluppu fyrir horn eftir síðustu kjarasamningahrinu. Þrátt fyrir að samið hafi verið um gríðarlegar launahækkanir í sögulegu samhengi fylgdi hefðbundið verðbólguskot ekki í kjölfarið. Mikið innstreymi gjaldeyris í gegnum ferðaþjónustuna olli styrkingu krónunnar og hélt það mjög aftur af hækkun verðlags.

Ekki er hægt að treysta á slíka kraftaverkabjörgun í þetta sinn.

Ábyrgð stjórnvalda er mikil og það er undir þeim komið hvort stöðugleikanum verður viðhaldið, eða hvort honum verður fórnað á altari stundarhagsmuna stjórnmálamanna. Það verður vafalaust erfitt, eins og alltaf, að hemja kröfugerð lækna, sem virðast alltaf njóta samúðar fjölmiðlafólks og stórs hluta almennings. Það breytir því þó ekki að það mun miklu ráða um niðurstöðu allra þeirra samninga sem gerðir verða í kjölfarið.

Því miður virðist andrúmsloftið innan verkalýðshreyfingarinnar vera allt annað og þykkara en það var fyrir nokkrum árum. Nýr formaður VR hefur gefið út dánarvottorð á SALEK-samkomulagið og vill ekki taka sæti í miðstjórn ASÍ. Sú sundrung sem nú er meðal stéttarfélaga mun síst auðvelda vinnuna sem fram undan er. Þeim mun mikilvægara er að stjórnvöld taki fyrstu skrefin í þessari lotu kjarasamningsvið­ ræðna af varkárni og yfirvegun.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is