*

föstudagur, 16. apríl 2021
Týr
7. febrúar 2021 13:05

Eitraður ráðningarstyrkur

Ef fyrirtæki þiggur ráðningastyrk en skilar hagnaði eru stjórnendur smánaðir. Þá er ef til vill betra að bíða með að ráða starfsfólk.

Haraldur Guðjónsson

Það er því vissulega þörf á því að fjölga störfum hér á landi sem fyrst. Ríkisstjórnin hefur, í þeim tilgangi að fjölga störfum, hvatt fyrirtæki til að nýta sér „ráðningastyrki“ Vinnumálastofnunar. Atvinnurekendur geta þannig fengið 100% grunnatvinnuleysisbætur auk framlags í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði greiddar með nýjum starfskrafti, eða um 340 þús.kr. í styrk á mánuði.

***

Týr myndi þó ráðleggja atvinnurekendum frá því að nýta sér þetta huggulega boð ríkisins.

*** 

Aðgerðir ríkisvaldsins við upphaf Covid-19 faraldursins lamaði íslenskt efnahagslíf. Í kjölfar þeirra aðgerða hvöttu ráðherrar ríkisstjórnarinnar fyrirtæki til að segja ekki upp starfsfólki heldur nýta það sem kallað var hlutabótaleið, sem fólst í því að ríkið borgaði hluta launa starfsfólksins.

Það hljómaði vel þá því allir töldu að um skammtímaástand væri að ræða og það væri þess virði að vernda störf í landinu. Önnur leið hefði falið í sér gífurlegar fjöldauppsagnir þar sem atvinnulífið hefði þurft að greiða uppsagnarfrest starfsmanna, sem væru að missa vinnu sína vegna hertra aðgerða ríkisins.

***

Eftir að fyrirtækin féllu í gildruna ákváðu sömu ráðherrar að birta lista yfir þau fyrirtæki sem nýtt höfðu hlutabótaleiðina og hvað þau höfðu fengið greitt. Samhliða var rætt um það opinberlega hvernig hægt væri að endurheimta það fjármagn sem veitt hafði verið í hlutabótaleiðina. Í ofanálag voru ákveðin fyrirtæki smánuð, því eftir-á-skýringin var sú að þau fyrirtæki sem þóttu stöndug fyrir faraldurinn máttu ekki að nýta sér leiðina.

***

Ætli atvinnurekendur sér að nýta ráðningastyrki ríkisins þurfa þeir að undirbúa sig undir það að ríkið birti síðar nákvæmar upplýsingar um það hverjir nýttu styrkina og hversu lengi.

Ef viðkomandi fyrirtæki drýgir þá synd að hagnast á næstu 2-3 árum verða stjórnendur þess smánaðir af stjórnmálamönnum og fjölmiðlum og sjálfsagt þorir enginn að greiða út arð í bráð. Þá er ef til vill betra að bíða með að ráða starfsfólk og meta stöðuna upp á nýtt síðar. Kannski verður hægt að ráða fólk án þess að hljóta skammir fyrir.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.