Áður en heimsfaraldur kórónuveiru umturnaði heiminum var vaxandi umræða um að hnattvæðingin væri að hægja á sér. Það vakti ugg í brjóstum margra en öðrum var hlátur í hug. Tollastríðin milli stórveldanna, Bandaríkjanna og Kína og Bandaríkjanna og Evrópu, ollu versnandi horfum í þróun heimsviðskiptanna. Og jafnvel áður en Trump komst til valda í Bandaríkjunum, meðal annars með æsingi gegn alþjóðlegri verkaskiptingu, var haft á orði að þegar hefði verið farið að hægja á hnattvæðingunni. Nægir þar að vísa til umræðu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Áratugir eru liðnir frá síðustu stóru samningagerðinni á vettvangi WTO og núverandi lota virðist aldrei ætla að klárast. Hún hefur að minnsta kosti staðið frá því áður en ég tók að fylgjast með stjórnmálum. Alþjóðlega fjármálahrunið 2008-2009 dró einnig mjög skarpt úr heimsviðskiptum og vöxtur í þeim hefur ekki náð fyrri hæðum eftir það.

Ekki fleiri WTO-samningar í bráð

Í dag er það ráðandi í umræðu um landbúnaðarmál að þjóðir heims einblína á það verkefni að einfalda virðiskeðjur til þess að tryggja betur fæðuöryggi. Heimsfaraldurinn kippti mannkyninu heiftarlega til baka inn í söguna og lærdóma hennar. Í áratugi höfum við vanist því að ekkert vandamál sé svo stórt að ekki sé hægt að sigrast á því. Nú stöndum við frammi fyrir heimsfaraldri og loftslagsvá sem skekja grundvöll heimsviðskiptanna. Rúmlega þrjátíu lönd settu útflutningstakmarkanir á matvæli í fyrra og í sumum þessara landa eru þær enn í gildi. Fyrir þessu fann rík þjóð á borð við Ísland ekki  - en fátækari þjóðir urðu sumar hverjar fyrir skakkaföllum. Því hygg ég að færa megi rök fyrir því að ekki verði um fleiri viðskiptasamninga að ræða á vettvangi WTO um fyrirsjáanlega framtíð. Ágreiningsefnið í núverandi lotu snerist um landbúnaðarvörur og á því sviði er óvissan of mikil til þess að ætla megi að af heildarsamningum verði. Miklu fremur má ætla að tvíhliða samningar verði gerðir milli ríkja eða ríkjabandalaga.

Sóknarfæri Íslands í stafrænni þróun

En vöruviðskipti og versnandi horfur á því sviði eru bara önnur hliðin á peningnum. Enn er til staðar kröftugur vöxtur í alþjóðaviðskiptum, bara ekki í vörum. Í stafrænni þjónustu er til dæmis gríðarmikill vöxtur. Þess sér stað í íslenskum hagreikningum, þar sem „eitthvað annað" er að vaxa hraðar en margan grunaði. Í dag stendur þessi liður undir fjórðungi gjaldeyristekna og mun vonandi fara vaxandi á næstu árum. Hér kunna að felast sóknartækifæri fyrir Íslendinga til lengri tíma litið. Við erum fámenn þjóð sem býr á frekar stórri eyju sem er langt frá meginmörkuðum. Allir þeir sem hafa tekið þátt í uppbyggingu atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum þekkja hvílíkir ofjarlar fjarlægðirnar og flutningskostnaðurinn eru. Það er erfitt að vera samkeppnishæfur í framleiðslu á vörum á Íslandi þegar það kostar jafn mikið að flytja vöru innanlands til Sundahafnar eins og það kostar að flytja hana þaðan til Rotterdam.

Engar fjarlægðir í einhverju öðru

Á internetinu og í „einhverju öðru" eru engar fjarlægðir. Það kann því að vera að við eigum samkeppnissyllu þarna vegna hás menntastigs og góðra innviða á sviði fjarskipta (með fáeinum undantekningum). En ekki er eingöngu um tækifæri að ræða fyrir Íslendinga sem heild. Hinar dreifðu byggðir eiga einnig möguleika á að fá sinn skerf af stækkandi köku „einhvers annars".   Með því að stuðla að kröftugri uppbyggingu fjarvinnslusetra geta hinar dreifðu byggðir snúið áratugalangri vörn í sókn. Þar getur stafrænt starfsfólk af ýmsum ólíkum sviðum ornað sér við suðupott hugmynda og nýsköpunar. Séu til staðar góðar nettengingar og samgöngur til höfuðborgar og út í heim er ekkert sem stöðvar íslensk fyrirtæki í því að ráða sérfræðinga í stafræn störf úti um allt land. Stafrænt starfsfólk getur alveg eins setið á Stöðvarfirði og forritað eins og í Borgartúni, og húsnæðiskostnaður er þar á ofan mun lægri á Austfjörðum en í borginni.

Með því að hafa augun á alþjóðaviðskiptum má greina að hverju þarf að einbeita sér á næstu árum: Eitthvað annað og stafræn þróun eru þar í forgrunni. Um allt land.

Höfundur skipar 4. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi.