*

miðvikudagur, 27. október 2021
Týr
10. apríl 2017 11:35

Eiturpenni Kára

Ástandið á glerhúsi Kára sjálfs hlýtur að vera orðið fremur lélegt, því margir muna enn eftir því að fjöldi Íslendinga tapaði stórum hluta sparnaðar síns með kaupum á hlutabréfum í deCode á „gráa markaðnum“ fyrir tæpum tuttugu árum.

Haraldur Guðjónsson

Penni Kára Stefánssonar virðist vera endalaus uppspretta rógs og illmælgi, en síðasta langlokugrein hans í Fréttablaðinu er lítið annað en löng upptalning á illkvittnum orðrómi um forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson. Kári reynir að sigla framhjá meiðyrðalöggjöfinni með því að taka ítrekað fram að um gróusögur sé að ræða og að hann standi „í þeirri trú að þetta sé líklega allt rangt eða í það minnsta orðum aukið“.

***

Hann segir að sú saga gangi að fjölskylda Bjarna „hafi verið á bólakafi í bankaskítnum“ og því vilji ráðherrann ekki láta rannsaka einkavæðingu bankanna í átjánda skipti. Að ástæða þess að Bjarni vilji ekki skipta sér af kaupum einkaaðila á hlut í einkabankanum Arion sé sú að fjölskylda hans sé „að undirbúa að kaupa sig inn í bankakerfið öðru sinni, til dæmis með því að láta Borgun kaupa Íslandsbanka með aðkomu lífeyrissjóða“. Að fjölskyldutengsl hans við Einar Sveinsson hafi ráðið því að Landsbankinn seldi Borgun á undirverði.

***

Fáránlegast er þó þegar Kári segir að rútufyrirtæki í eigu föður Bjarna sé með einkaleyfi á því að flytja farþega milli flugstöðvarinnar í Keflavík og Reykjavíkur og að enginn einn aðili hafi notið meiri undanþágu frá fullum virðisaukaskatti.

***

Hið sanna er að það er ekkert einkaleyfi á rútuferðum milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur og keyra tvö rútufyrirtæki þá leið núna. Hann horfir líka framhjá því að Bjarni stóð fyrir því að rútufyrirtæki voru látin greiða virðisaukaskatt, sem þau höfðu verið undanþegin fram að því.

***

Ástandið á glerhúsi Kára sjálfs hlýtur að vera orðið fremur lélegt, því margir muna enn eftir því að fjöldi Íslendinga tapaði stórum hluta sparnaðar síns með kaupum á hlutabréfum í deCode á „gráa markaðnum“ fyrir tæpum tuttugu árum. Týr man ekki eftir því að Kári hafi nokkru sinni beðist afsökunar á því, en þykist hins vegar vita að Kári hafi komist ágætlega sjálfur frá því ævintýri öllu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.