*

mánudagur, 27. september 2021
Örn Arnarson
13. september 2021 07:05

Ekkert lát á hundahaldi til sveita

Það væri skrýtið ef forsíður dagblaða væru á hverjum degi fullar af fréttum um að hundahald í dreifbýli gengi enn með afbrigðum vel.

Flestir kannast við kjarnyrði um menn sem bíta hunda. Það hefur löngum þótt fréttnæmara en þegar hundar glefsa í menn. Hvort það er rétt má liggja milli hluta. En það sem skiptir máli í þessu samhengi er að þetta dæmi er gjarnan notað til þess að útskýra að það er hið óvenjulega og fátíða sem ratar oftast á forsíður dagblaða í stað fyrirsjáanlegra atburða hversdagsins. Það væri skrýtið ef forsíður dagblaða væru á hverjum degi fullar af fréttum um að hundahald í dreifbýli gengi enn með afbrigðum vel og að hundarnir væru hið mesta þarfaþing. Að sama skapi kæmi á óvart ef dagblöð flyttu ekki fréttir af því ef eitthvað rof hefði orðið á hundahaldi meðal bænda vegna einhverra ástæðna sem undirritaður hefur ekki hugmyndaflug til að skálda upp.

                                                                         ***

Það var sérstakt að virða fyrir sér forsíðufrétt Fréttablaðsins á þriðjudaginn í síðustu viku. Þar var að finna viðtal við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, þar sem hann er að býsnast yfir því að sameiginlegur rekstrarkostnaður íslenska lífeyrissjóðskerfisins hafi numið um 25 milljörðum króna í fyrra. Í fréttinni segist blaðamaður hafa undir höndum „samantekt um útgjöld þeirra" og hafa leitað eftir viðbrögðum Ragnars við þessum tíðindum.

Nú er það ekki svo að það kalli á merkilega rannsóknarvinnu til að komast að því hver rekstrarútgjöld lífeyrissjóðanna voru í fyrra. Þær upplýsingar eru meira og minna aðgengilegar á heimasíðum þeirra. Og þegar horft er á rekstrarkostnað ársins 2020 má sjá jafn mikil tíðindi og felast í þeirri fregn að hundahald í sveitum á Suðurlandi standi í miklum blóma. Það eru engin teljanleg tíðindi í rekstrarkostnaði lífeyrissjóðanna í fyrra samanborið við árin sem á undan komu þegar búið er að taka tillit til þróunar launakostnaðar og verðlags.

En það sem er undarlegast við fréttina er að blaðamaður gerir enga tilraun til þess að setja þennan kostnað í neitt samhengi við umsvif og umsýslu sjóðanna. Hafi tilgangur fréttarinnar verið að ala á tortryggni í garð lífeyrissjóðanna í stað þess að setja rekstrarkostnaðinn í samhengi við hvaða umsvif þeir hafa náðist það markmið. Fjöldi „virkra í athugasemdum" lýsti vanþóknun sinni á þessum rekstrarkostnaði á samfélagsmiðlum.

Sem betur fer var enginn skortur á yfirveguðum viðbrögðum við þessum fréttaflutningi Fréttablaðsins. Gylfi Magnússon, fyrrverandi ráðherra, benti á Facebook-síðu sinni á að rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna næmi 0,4% af heildareignum þeirra. Og í framhaldinu að heildarrekstrarkostnaður sjóðanna væri lægri en rekstrarkostnaður Landsbankans en stærð þeirra fjórföld stærð „banka allra landsmanna". Samtök atvinnulífsins bættu um betur og tæmdu málið. Á pistli samtakanna sem birtist sama dag segir:

„Samanburður OECD sýnir að kostnaður við rekstur og ávöxtun fjármuna starfstengdra lífeyrissjóða á Íslandi er með því lægsta sem gerist. Þegar tímabilið 2015-2019 er lagt til grundvallar kemur í ljós að rekstrarkostnaður á Íslandi nam 0,17% af heildareignum og fjárfestingarkostnaður 0,06%, eða samtals 0,23%. Til samanburðar var þessi samanlagði kostnaður 0,21% í Danmörku, 0,28% í Noregi og 0,50% í Finnlandi.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum var 0,16% árið 2019 og var lægri en á tímabilinu 2016-2018 þegar hann nam 0,18-0,19% af eignum. Fjárfestingarkostnaður sem hlutfall af eignum hefur verið 0,04- 0,05% árin 2016-2019 og lækkaði mikið frá tímabilinu 2010-2015 þegar hann nam 0,10-0,13%.

Staðreyndirnar eru því þær að íslenskir lífeyrissjóðir eru í fremstu röð hvað lágan kostnað við rekstur og fjárfestingar varðar og þróun undanfarinna ára hefur verið í átt til lækkunar kostnaðar í hlutfalli við eignir.

Við eigum að vera stolt af því sem vel er gert og hrósa þeim sem það eiga skilið. Stjórnir og forystumenn starfstengdu lífeyrissjóðanna hafa staðið frábærlega að ávöxtun eigna lífeyrissjóðanna, aðhaldi að kostnaði og þjónustu við sjóðfélaga undanfarin ár. Þeir eiga betra skilið en síendurteknar árásir, ekki síst frá aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar."

Þannig að í stuttu máli má segja að það hafi ekki verið nein ástæða til að slá þessum orðum Ragnars upp á forsíðu. En fleira kemur til að varpa frekari sýn á það hversu fráleitt fréttamat lá þarna að baki.

Bara við að fletta upp Ragnari og málflutningi hans um rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna á helstu leitarvélum á borð við Google og timarit.is (Google okkar framsóknarmanna) kemur í ljós að Ragnar hefur undanfarin tíu ár verið að segja það nákvæmlega sama og sama réttmæta gagnrýni hefur einatt komið fram við þeim málflutningi.

Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, skrifaði í Morgunblaðið sumarið 2012:

„Nauðsynlegt er að koma þessu á framfæri í ljósi endurtekinna rangra fullyrðinga stjórnarmanns í VR, Ragnars Þórs Ingólfssonar, um „glórulausan rekstrarkostnað lífeyrissjóða á Íslandi. Hann er fastagestur í Silfri Egils og spjallþáttum Bylgjunnar og hefur jafnan uppi stór orð um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra og umgengst staðreyndir býsna frjálslega í málflutningi sínum. Það er afar undarleg ráðstöfun af hálfu þáttastjórnenda fjölmiðlanna að kalla Ragnar Þór aftur að hljóðnemum í ljósi þess að margoft hefur verið sýnt á að sjaldnast stendur steinn yfir steini í málflutningi hans. En þá fyrst kastaði tólfunum þegar sjónvarpsfréttamaður RÚV tók viðtal við Ragnar Þór, þar sem hann fékk gagnrýnilaust að fara með rangfærslur sínar. Fréttamaður taldi hvorki ástæðu til að kanna sjálfur hvort fullyrðingar Ragnars Þórs stæðust né gefa Landssamtökum lífeyrissjóða tækifæri til andsvara eins og vönduð fréttamennska hefði gefið fullt tilefni til. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ragnar Þór gagnrýnir rekstrarkostnað lífeyrissjóða og birtir undarlega útreikninga sem standast enga skoðun."

                                                                         ***

Þegar allt kemur til alls var þessi forsíðufrétt skrifuð til þess eins að vekja athygli á sjónvarpsþætti sem sama fjölmiðlasamsteypa varpar út á kvöldin. Þar þurfti Þórey Þórisdóttir, núverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, að svara spurningum þáttastjórnanda sem vissi ekkert um málið.

Það sem vakti þó athygli við þennan fréttaþátt Hringbrautar var afar vönduð auglýsing milli atriða: Í henni birtust Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sigmar Guðmundsson sem frelsandi englar inni á heimili hjóna á Flötunum í Garðabæ sem höfðu loks losnað við gengisóvissuna úr lífi sínu þar sem boðað kosningaloforð Viðreisnar um fastgengi hafði ræst.

Það væri gott efni í forsíðu á morgun ef blaðamaður Fréttablaðsins fengi skoðun þeirra tveggja á því hvaða gengi þau vilja festa krónuna á.

                                                                         ***

Að lokum: Það að ríkisstyrkja fjölmiðla til að fjölga störfum og skapa „talsamband" við opinberar stofnanir sem hafa eðli málsins samkvæmt og að kröfu samtímans ferlavætt samskiptasviðin er að skapa ákveðna eilífðarvél - samanber; DV hafði samband við Þjóðleikhúsið við vinnslu fréttarinnar en var tjáð að það virkaði ekki að áframsenda símtöl innanhúss. Blaðamanni var þá sagt að hafa samband við Jón Þ. Kristjánsson, forstöðumann samskipta, markaðsmála og upplifunar hjá Þjóðleikhúsinu, vegna málsins en ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.