*

mánudagur, 6. apríl 2020
Óðinn
17. október 2017 10:34

Ekki frétt ársins

Þó að Guardian sé vinstri sinnað mjög er merkilegt að það láti nota sig, en spurningin er hvernig stjórnmálamenn viljum við?

Haraldur Guðjónsson

Stærsta ekki frétt þessa árs er flutningur Bjarna Benediktssonar á fjármunum sínum úr Sjóði 9 í Sjóð 5 og 7. Misskilningur „blaðamanna“ Stundarinnar, Guardian og Reykjavik Media opinberast í upphafi „fréttarinnar“.

                                                  ***

Orðrétt segir í „fréttinni“: „Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra og þáverandi alþingismaður, seldi fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni banka dagana 2. til 6. október árið 2008 og bjargaði þannig sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu dagana á eftir. Bjarni hafði á þessum tíma, vegna stöðu sinnar sem þingmaður, aðgang að upplýsingum um raunverulega stöðu Glitnis vegna þátttöku sinnar á fundum um slæma stöðu bankans og fjármálakerfisins í heild.“

                                                  ***

Glitnir og Sjóður 9 alls ekki sami aðilinn

Staða bankans Glitnis réði ekki afkomu Sjóðs 9. Það sem réði afkomu sjóðsins voru eignir hans sem voru að stærstum hluta skuldabréf á fjölda skráðra og óskráðra félaga. Slæm staða eða yfirvofandi gjaldþrot bankans Glitnis þýddi ekki að Sjóður 9 myndi einnig fara í þrotameðferð.

                                                  ***

Hins vegar hefði staða Glitnis getað haft áhrif á Sjóð 9. FL Group var stærsti hluthafi Glitnis og átti Sjóður 9 um 18 milljarða króna skuldabréf á FL Group í lok ágúst. Stjórn Glitnis ákvað hins vegar 29. september að kaupa þessi skuldabréf út úr sjóðnum. Þetta var þremur dögum áður en Bjarni Benediktsson seldi. Fjallað var um þetta í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Því hafði yfirvofandi gjaldþrot Glitnis engin eða óveruleg áhrif á afkomu Sjóðs 9 eftir opnun 1. október.

                                                  ***

Sjóður 9 lækkaði um 21%

Raunveruleg staða Glitnis hafði engin úrslitaáhrif eins og „blaðamennirnir“ láta liggja að í „fréttinni“. Þetta sést best á því að Sjóður 9 lækkaði um tæp 21% frá 26. september en hlutabréfin í Glitni urðu verðlaus, lækkuðu um 100%.

                                                  ***

Það kemur ekki á óvart að Stundin skuli búa til svona ekki frétt. Tugir frétta sem þessi hafa verið sagðir á þeim ágæta miðli án mikilla viðbragða. Það er hins vegar merkilegt að blað eins og Guardian skuli nota sig á þennan hátt, jafnvel þó að blaðið sé vinstri sinnað mjög.

                                                  ***

Þetta virkaði og allir fjölmiðlar löptu ekki fréttina upp. Á Ríkisstjórnarútvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur unnu þrír fréttamenn endursögn upp úr „fréttinni“.

                                                  ***

Það er látið í veðri vaka í „fréttinni“ að Bjarni Benediktsson hafi haft innherjaupplýsingar. En það stenst ekki. Til að upplýsingar teljist innherjaupplýsingar þurfa þær að varða fjármálagerninga skráða í kauphöll. Hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 voru það ekki. Sá sem á eign í sjóðnum ræður engu um hvað sé keypt eða selt af eignum hans. Hann getur hins vegar keypt og selt í sjóðnum að vild. Það gátu allir nema þegar lokað var fyrir viðskipti í honum í nokkra daga í september og október.

                                                  ***

Margir töpuðu á Sjóði 9. Tapið var lítið miðað við áföllin sem gengu yfir íslenskt efnahagslíf. Með öðrum orðum þá töpuðu fjárfestar muna meira á mörgu öðru. Flestir sem fylgdust með fréttum á þessum tíma reyndu að minnka áhættu sína eins og hægt var. En oft var það ekki hægt.

                                                  ***

Ótrúleg staða á Íslandi

Á alla mælikvarða er staða efnahagsmála góð á Íslandi. Atvinnuleysi er lágt, vextir fara lækkandi, skuldir ríkissjóðs eru of miklar en fara lækkandi og eru lægri en í mörgum samanburðarlöndum, skuldir heimila eru lágar, ráðstöfunartekjur með þeim hæstu í heiminum og svo mætti lengi telja.

                                                  ***

Þrátt fyrir þessa góðu stöðu tala fulltrúar vinstri flokkanna eins og hér sé allt í rúst. Nánar tiltekið öll kerfin. Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, félagslega íbúðakerfið svo einhver kerfi séu nefnd. Sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu þjóða eru útgjöld til heilbrigðismála einna hæst hér á landi. Getur þá ekki verið að vandinn sé einmitt kerfið?

                                                  ***

Hvernig fólk viljum við í stjórnmál?

Þeir sem geta framkvæma en þeir sem geta ekki kenna sagði Bernhard Shaw í einu verka sinna árið 1903. Svo hafa seinnitíma spekingar bætt við að þeir sem ekki geti kennt, kenni íþróttir. Í þessu er í það minnsta sannleikskorn.

                                                  ***

Það er staðreynd að þeir sem fást við viðskipti eru í mun meiri hættu að fá kusk á hvítflibba heldur en margar aðrar starfsstéttir. Einkafyrirtæki geta lent í fjárhagslegum vandræðum, markaðir hrynja, verð hrynur og teknar eru rangar ákvarðanir svo eitthvað sé nefnt.

                                                  ***

Hjá hinu opinbera er annað upp á teningnum. Þar eru teknar rangar ákvarðanir rétt eins og í einkageiranum en kostnaðurinn af þeim lendir á skattgreiðendum. Hvað hafa margir misst vinnuna vegna þess að stór hluti Orkuveituhússins er ónýtur? Vegagerðin skuldar ríkissjóði tæplega 20 milljarða króna vegna gjalda umfram heimildir samkvæmt fjárlögum. Vegagerðin fer ekki á hausinn og enginn tekur ábyrgð. Hvað ætli ríkissjóður hafi oft þurft að rétta af halla Ríkisútvarpsins frá árinu 1930?

                                                  ***

Getur verið að það vanti fólk í stjórnmál sem hefur reynslu og þekkingu á stjórnun fyrirtækja, sem hefur þurft að hafa fyrir því að afla tekna, átt hættu að lenda í erfiðleikum – og jafnvel farið á hausinn?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.