*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Leiðari
5. janúar 2017 13:46

Ekki-frétt um ÁTVR

Við eðlilegar ástæður væru Janúarútsölur á jólabjór jafn algengar og jafnlítið fréttnæmar og janúarútsölur á skóm og fatnaði.

Aðsend mynd

Það er margt skrýtið í þeim kýrhaus sem Áfengisog tóbaksverslun ríkisins er. Þetta er fyrirtæki sem á að berjast gegn ofneyslu og misnotkun á áfengi, en leggur sig á sama tíma fram um að auglýsa áfengi á vefsíðu sinni og með útgáfu bæklinga, sem og að auka aðgengi fólks að áfengi með fjölgun verslana og lengingu opnunartíma.

Það var því afar áhugavert að sjá frétt um það á vef Ríkisútvarpsins að stjórnendur ÁTVR hafi ákveðið að leyfa sölu á jólabjór lengur en venjulega, eða út janúar. Það sé gert til að birgjar þyrftu ekki að farga óseldum jólabjór. Í sömu frétt kemur fram að tveir birgjar hafi þegar lækkað verð á nokkrum tegundum jólabjórs, en það hafi ekki sést áður.

Það sem gerir fréttina sérstaka er í raun það að þetta er fréttnæmt. Það væri ekki þess virði að drepa niður penna til að greina frá því að venjulegt fyrirtæki ætlaði að lækka verð á jólavöru í janúar, enda gera þær það flestar. Eins væri ekki fréttnæmt að í stað þess að farga vöru, sem enn er neysluhæf, ætlaði fyrirtæki að reyna að koma henni í verð.

Að sjálfsögðu eru þetta réttar ákvarðanir hjá stjórnendum ÁTVR. Það er út í hött að kippa úr sölu vinsælli vöru einfaldlega af því að búið hefur verið að ákveða að gera það á ákveðnum tímapunkti. Í fyrra fóru tugir þúsunda lítra af jólabjór í súginn af því að birgjum var gert að taka hann úr sölu. Þetta féll ekki kramið hjá birgjum eða neytendum og því hefur ÁTVR brugðist við í ár. En þetta undirstrikar það hversu afbrigðileg áfengisverslun á Íslandi er.

Athuga ber að jólabjór og annar árstíðabundinn bjór er ekki síst til kominn vegna undarlegra reglna ÁTVR. Framleiðendum öls er gert illmögulegt að bjóða upp á vinsæla, árstíðabundna bjóra allan ársins hring. Sumaröl Víkings og jólasveinabjórar Borgar brugghúss fást aðeins á árstímum sem stjórnendum ÁTVR eru þóknanlegir.

Forsjárhyggja á sér mörg birtingarform og vissulega má færa fyrir því rök að þessar árstíðareglur ÁTVR hafi leitt til aukinnar fjölbreytni í bjórframleiðslu á Íslandi, enda hafa bjórframleiðendur hag af því að stilla framleiðslu sína eftir dagatali ÁTVR. Þetta er gott fyrir bjóráhugamenn, en á ekki að skipta máli í þessari umræðu. Hlutverk ÁTVR er ekki, og á ekki að vera, að stuðla að fjölbreyttari áfengisframleiðslu á Íslandi.

Við eðlilegar aðstæður hefði ÁTVR ekkert hlutverk. Við eðlilegar aðstæður væri áfengissala ekki á hendur einum opinberum aðila, heldur væri farið með áfengi eins og aðra neysluvöru. Hún væri til sölu hjá þeim verslunum sem vildu selja og framboð myndi ráðast af eftirspurn. Janúarútsölur á jólabjór væru þá jafn algengar og jafnlítið fréttnæmar og janúarútsölur á skóm og fatnaði.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.