*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Týr
10. desember 2018 18:06

Ekki sel um sel

Síðastliðin vika hefur verið sárhlægilegt hlaðborð af hneykslan og skinhelgi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Haraldur Guðjónsson

Sagt er um fólk að það setjist í helgan stein þegar árin færast yfir, en uppruni þess orðatiltækis er ævaforn, frá því fyrir siðbót og daga öldrunarheimila, þegar sæmilega stæðir öldungar gáfu fé sitt til kirkjunnar og fengu inni í klaustri við kör og bænakvak, í veikri von um fyrirgefningu í handanheimum þegar þar að kæmi. Ólíklegt er að héðan af tengi menn brandið Klaustur við svo háleit markmið, hvað sem líður allri iðrun og yfirbót.

                                                           ***

Síðastliðin vika hefur verið sárhlægilegt hlaðborð af hneykslan og skinhelgi, þar sem hálf þjóðin hefur tekið þátt í innanhúskeppni um hver getur valið riddurum hringborðsins á Klaustri verstu lýsingarorðin. Sumpart af réttmætri reiði, að einhverju leyti til þess að taka þátt í hópeflinu gegn strigakjöftunum, einhverjir af pólitískri óbeit og margir til þess að auglýsa eigin siðprýði og dyggð.

                                                           ***

Helstu orðhákarnir gegn sexmenningunum hafa raunar gefið þeim lítið eftir í orðavali, en er kannski vorkunn, því þar ræður raunveruleg heift, ekki karlagrobb og dónaskapur. Fæstir þeirra hafa reyndar haft Sigmund Davíð og félaga í miklum metum fyrir, svo Týr er eilítið hissa á því hvað þeir eru óskaplega hissa á því hvað mannvalið á Klaustri var lítilmótlegt eftir allt saman.

                                                           ***

Eftir ritúalska og einlæga iðrun og afsökunarbeiðnir stjórnmálamannanna hefur þó verið fyndnast, nei hlægilegast, að fylgjast með burtskýringunum á því hryllilegasta úr Klausturræðunum. Þar rís hæst óhljóðið þegar Freyja Haraldsdóttir barst í tal við borðið, sem sumir segja að hafi átt að vera eftirherma af sel, en aðrir nefna sæljón. Sigmundur Davíð tekur því fjarri að fötlun Freyju hafi þar verið höfð í flimtingum af honum eða öðrum á staðnum. Hljóðið hafi allt eins getað verið reiðhjól að bremsa úti í hinu vel nefnda Templarasundi!

                                                           ***

Þessi skýring er frábært dæmi um næmni forsætisráðherrans fyrrverandi á afstöðu almennings og hæfileika hans til þess að snúa við gertöpuðu máli í heilan hring. Með þessu gulltryggði Sigmundur Davíð að meðal þjóðar hans mun enginn geta heyrt á hann minnst héðan í far án þess að hugsa „bremsufar!“ — Kannski það sé kominn tími á helgan stein.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.