*

mánudagur, 25. október 2021
Huginn og muninn
10. október 2021 10:12

Ekki verður bæði sleppt og haldið

Þó stýrivextir hafði hækkað og séu nú 1,5% þá gleymist gjarnan að fyrir rétt rúmlega tveimur árum voru þeir 4,5%.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Launþegahreyfingarnar eru að komast í gírinn fyrir næstu kjarasamninga en um ár er þar til Lífskjarasamningarnir renna út. Í vikunni sendu Drífa Snædal og félagar hennar í miðstjórn Alþýðusambands Íslands frá sér ályktun þar sem lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni á húsnæðismarkaði og hækkun stýrivaxta upp í 1,5%. Bendir miðstjórnin á að vaxtahækkanir muni hafa veruleg áhrif á fjárhag heimilanna því mánaðarleg greiðslubyrði lána geti hækkað um tugi þúsunda króna hjá fjölda fólks.

Hrafnarnir geta alveg tekið undir að húsnæðisverð hafi hækkað óhóflega. Vissulega ber Seðlabankinn vissa ábyrgð því skörp lækkun stýrivaxta í upphafi kórónukreppunnar hafði mikil áhrif á markaðinn. Sveitarfélögin, og þá sérstaklega Reykjavíkurborg, bera raunar líka mikla ábyrgð á stöðunni því of lítið hefur verið byggt. Lítið framboð á húsnæði og ódýrt lánsfé er ekkert sérstaklega góð blanda enda hefur húsnæðisverð rokið upp.

Hrafnarnir hafa hins vegar ekkert sérstaklega mikla samúð með þeim sem kvarta undan hækkun á greiðslubyrði lána. Í því sambandi er nefnilega nauðsynlegt að hafa í huga að ekki eru nema rúmlega tvö ár síðan stýrivextir, sem ráða mestu um vexti íbúðalána, voru 4,5%. Á vormánuðum 2019 hófst lækkunarferli og í nóvember á síðasta ári voru vextirnir komnir í 0,75% og höfðu aldrei í sögunni verið lægri. Vextirnir stóðu síðan í 0,75% allt þar til í maí þegar þeir tóku að hækka á nýjan leik. Það gleymist að mánaðarleg greiðslubyrði heimilanna lækkaði um tugi þúsunda á þessu tímabili.

Hafi einhver gert ráð fyrir því að vaxtalækkanir, sem voru tilkomnar vegna heimskreppu, yrðu varanlegar þá var það því miður skammsýni. Þeir sem eru berskjaldaðastir fyrir vaxtahækkunum eru þeir sem eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum en það er líka sá hópur sem hagnast mest þegar vextir lækka – ekki verður bæði sleppt og haldið.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.