*

laugardagur, 25. janúar 2020
Týr
27. júlí 2019 13:09

Ekkifréttir um Bjarna

Það er erfitt að rekja orðróm og fyrir fjölmiðla er alltaf rétt að spyrja beint þann sem gasprað er um.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra.

Síðastliðnar vikur hafa gengið miklar kviksögur um að Bjarni Benediktsson kynni að láta af stjórnmálastörfum. Svo rammt kvað að þessu að Bjarni ræskti sig um liðna helgi og sagði þetta bull og vitleysu, hann væri alls ekki á förum eitt eða neitt.

 Það er merkilegt hve ginnkeyptir sumir fjölmiðlar voru fyrir þessum sögum, sem ljóslega voru ekki settar fram af neinum velunnurum Bjarna. Enda seint sagt að „fréttaflutningurinn“ hafi verið byggður á traustum heimildum eða þekkingu á innviðum Sjálfstæðisflokksins. Sumum þótti enginn hafa meira innsæi í þann flokk en sá góðkunni íhaldsskarfur Össur Skarphéðinsson. Eins var vísað til þess sem sérstakrar nauðvarnar í orkupakkamálinu að boða til flokksráðsfundar í haust (löngu boðaður viðhafnarfundur í tilefni 90 ára afmælis flokksins). Fréttablaðið þurfti að fara alla leið upp á Kjalarnes til þess að ræða við grasrótina ógurlegu og fékk fyrir vikið orm í eyrað, en Moggi fann einn stjórnarmann í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem taldi að einhverjir gætu verið óánægðir með ríkisstjórnina.

 Nú er það auðvitað svo að menn þurfa ekki að vera neitt sérstaklega læsir á stjórnmál til þess að sjá að þó að Bjarni gæti hugsað sér að yfirgefa samkvæmið einhverntíman, þá væri þetta sérstaklega ólíkleg tímaseting. Ekki síður er þó skrýtið að í öllum þessum bollaleggingum virðist engum hafa dottið í hug að spyrja bara Bjarna sjálfan. Eða óttuðust menn að það dræpi annars fína sögu?

 Þegar svona sögur fara á kreik er alltaf rétt fyrir fjölmiðla að spyrja beint, en einnig að spyrja sjálfa sig í hvers þágu þær helst eru. Það er erfitt að rekja orðróma en Tý sýnist að Hringbraut hafi farið fyrst af stað en eftir fylgdu Fréttablaðið, DV og Moggi. Þess vegna var athyglisvert að lesa ráð Illuga Jökulssonar til Viðreisnar um liðna helgi: „Strax og þið hættið að hugsa allan daginn um hvað er að gerast í Sjálfstæðisflokknum, hvernig honum gengur, hvernig honum líður, hvað er á döfinni hjá honum, hvaða bömmer er í gangi hjá honum, hverjir eru bestir hjá honum, eða verstir, þá verðiði orðin alvöru flokkur, og bara fín sem slík. Þið eruð sum soldið eins og þið hafið verið að skilja og getið samt ekki hætt að hugsa um hvað sá fyrrverandi er að gera núna.“

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.