*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Ólafur Stephensen
17. janúar 2019 14:22

Ekkipakkinn

Miklu moldviðri hefur verið þyrlað upp vegna hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Haraldur Guðjónsson

Miklu moldviðri hefur verið þyrlað upp vegna hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Því hefur verið haldið fram að þessi löggjöf, sem Ísland hefur þegar samþykkt að taka upp í EES-samninginn, muni þýða að Ísland missi forræði á orkuauðlindunum, stjórnarskráin verði brotin, sæstrengur óhjákvæmilega lagður til landsins, orkuverð muni hækka og íslenzk garðyrkja verði lögð í rúst. Þetta er býsna svört mynd. Forsvarsmönnum Félags atvinnurekenda og Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins fannst vanta á að þriðji orkupakkinn væri ræddur út frá sjónarhóli íslenzks atvinnulífs og bættu úr því með morgunverðarfundi með sérfræðingum sem hafa djúpa þekkingu á málinu.

Út úr þeim fundi kom önnur og réttari mynd. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, benti á að hinar stóru breytingar á íslenzkum orkumarkaði hefðu átt sér stað með raforkulögum 2003, á grundvelli fyrsta orkupakka ESB. Sú löggjöf hefði þýtt miklar umbætur á íslenskum orkumarkaði og þjónað íslenzkum hagsmunum vel. Þriðji orkupakkinn væri aðeins viðbót við þessar miklu breytingar. Ragna orðaði það þannig að einfaldara væri að útskýra hvað pakkinn fæli ekki í sér; honum fylgdi ekki skylda til að leggja sæstreng milli Íslands og annarra landa, hann breytti engu um eignarhald eða forræði á orkuauðlindum og kallaði ekki á breytingar í starfsemi eða eignarhaldi Landsvirkjunar.

Birgir Tjörvi Pétursson lögmaður útskýrði að pakkinn fæli heldur ekki í sér valdaframsal sem bryti gegn stjórnarskrá. Það væri hins vegar meiriháttar breyting frá 25 ára þverpólitískri sátt um að fylgja skuldbindingum EES-samningsins, ef ekki ætti að innleiða reglur, sem Ísland hefur þegar samið um að taka upp í samninginn. EES-samningurinn er langmikilvægasti viðskiptasamningur Íslands og grundvöllur meirihluta utanríkisviðskipta okkar. Óhætt er að segja að það væri tilræði við hagsmuni íslenzks atvinnulífs ef setja ætti samninginn í uppnám vegna rangtúlkana þröngs hóps manna á þessum ekki-pakka.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.