*

laugardagur, 26. september 2020
Týr
31. ágúst 2019 16:02

Eldmóður

Það er kannski engin ástæða til þess að leggja mestan trúnað við álit loftslagssérfræðinga á borð við Ronaldo og Madonnu.

epa

Miklar fréttir hafa verið sagðar af skógareldum í Amazon, sem hafa jafnframt tengst ákalli víða um heim um að lýst verði yfir neyðarástandi og neyðarráðstöfunum vegna hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum. Í fréttum hafa komið fram magnþrungnar lýsingar á umfangi eldanna og afleiðingum þeirra. Macron Frakklandsforseti gerði þá að sérstöku umtalsefni á G7 leiðtogafundinum í sólarparadísinni Biarritz, minnti á að Amazon-skógurinn væri „lungu heimsins“ en þar yrði fimmtungur súrefnis heimsins til. Á þessu hnykkti svo ýmist frægðarfólk á samfélagsmiðlum með hamfaramyndum af svæðinu (margt augljóslega blandið óbeit á Bolsonaro Brasilíuforseta þótt eldarnir geisi í ýmsum löndum öðrum).  

                                               ***

Það er ástæðulaust að gera lítið úr eldunum þar syðra, en vandinn er sá að margar af þessum yfirlýsingum og myndbirtingum voru rangar. Jú, það er mikil súrefnisframleiðsla í regnskógum Amazon (raunar nær ⅙ en ⅕), en þess ekki getið að súrefnisupptaka þar er nánast hin sama. Fæstar myndanna, sem mest var dreift á samfélagsmiðlum, voru frá Amazon og nær engin af eldunum nú, sumar áratugagamlar eða jafnvel úr hamfarabíómyndum.  

                                               ***

Það er kannski heldur engin ástæða til þess að leggja mestan trúnað við samdóma álit loftslagssérfræðinga á borð við Ronaldo, Leonardo diCaprio, Madonnu, Jaden Smith, Novak Djokovic og Ricky Martin. Það fór ekki heldur mikið fyrir frétt um að skógareldar í Amazon í ár eru ekki óvenjumiklir, en samkvæmt tölfræði fjarkönnunardeildar NASA eru þeir alveg við meðaltalið undanfarin 15 ár, meiri á sumum svæðum, minni á öðrum.  

                                               ***

Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þessi bjagaða umfjöllun og áhugi litist af skoðunum á loftslagsmálum almennt, af því þau eru komin meira á dagskrá, nú eða af því að margir vilja með öllum ráðum þoka þeim ofar á dagskrána. En það mun ekki auka skilning manna á vandanum eða mögulegri lausn hans að fjalla um málið á svo yfirborðskenndan, að ekki sé sagt rangan og villandi hátt (flestir gerðu það sjálfsagt af ókunnugleika og eldmóði). Það þýðir ekki að fjasa um hvað eitthvert frægðarfólk eða Frakklandsforsetar eru á miklum villigötum, en má ekki ætlast til þess að fjölmiðlarnir standi sig betur, grafist fyrir um áreiðanleika og staðreyndir frétta af þessu tagi, óháð tíðaranda eða hugsjónabaráttu?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.