*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Óðinn
2. maí 2017 10:30

Embættisafglöp í Svörtuloftum

Fimm árum eftir að Samherjamálið hófst hefur ekki ein einasta ákæra verið gefin út, engin sekt verið greidd og er ekkert sem bendir til lögbrots.

Haraldur Guðjónsson

Fyrir rétt rúmum fimm árum, nánar til tekið í lok mars 2012, lét Seðlabanki Íslands framkvæma húsleit á skrifstofum útgerðarfélagsins Samherja í Reykjavík og á Akureyri. Starfsmenn Seðlabankans ásamt lögreglufulltrúum frá Embætti sérstaks saksóknara höfðu flogið norður daginn áður og fóru leynt áður en þeir gerð atlögu að fyrirtækinu daginn eftir. Þó ekki það leynt að fjölmiðlar voru ræstir út á sama tíma og voru mættir á staðinn rétt áður en húsleitin hófst. Reyndar voru það ekki fjölmiðlar í fleirtölu, heldur aðeins fréttastofa RÚV – en húsleitin var gerð í nánu samstarfi við RÚV, svo eðlilegt sem það er.

                                                       ***

Þannig hófst hið svokallaða Samherjamál. Fyrirtækið og forsvarsmenn voru sakaðir um brot á gjaldeyrislögum. Nú – fimm árum síðar – hefur ekki ein einasta ákæra verið gefin út, engin sekt verið greidd og ekkert bendir til þess að nokkur starfsmaður hafi gerst brotlegur við gjaldeyrislög, skattalög eða nokkuð annað sem Seðlabankanum hefur dottið í hug á þessum tíma.

                                                       ***

Leitað í pólskri skipasmíðastöð

Seðlabankamálið er að mörgu leyti snúið, en Óðinn getur þó sett það fram hér með nokkuð einföldum hætti.

                                                       ***

Þegar húsleitin var gerð í mars 2012 fór hún nokkurn veginn fram í beinni útsendingu sem fyrr segir. Síðar um daginn sendi Seðlabankinn frá sér fréttatilkynningu og bætti um betur með því að senda einnig frá sér tilkynningu á ensku, sem þó var (og er enn) mjög óvenjulegt. Í þeirri tilkynningu voru forsvarsmenn og stjórnendur Samherja bornir þungum sökum (á alþjóðagrundvelli).

                                                       ***

Þegar húsleitin var gerð fór Seðlabankinn fram á það við dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur að fá að haldleggja gögn dótturfélaga Samherja og annarra tengdra félaga. Þar á meðal voru listuð upp fyrirtæki sem ekki tengjast Samherja með nokkrum hætti, t.d. gömul skipasmíðastöð í Póllandi og lítið breskt félag (þar sem eigandinn er eini starfsmaðurinn) og tengist ekki sjávarútvegi eða Samherja. Dómarinn sem veitti úrskurðinn sá enga ástæðu til að leggja sjálfstætt mat á stórgallaða beiðni Seðlabankans.

                                                       ***

Enginn ákærður

Sem betur fer hefur Seðlabankinn ekki ákæruvald og því voru gögn málsins síðar send til sérstaks saksóknara. Þar var rannsókn málsins felld niður, þar sem embættið mat það sem sem svo að engar líkur væri á sakfellingu og því ekkert tilefni til að gefa út ákæru. Þessu mótmælti Seðlabankinn en ríkissaksóknari staðfesti síðar ákvörðun sérstaks saksóknara um að fella rannsókn málsins niður. Engin ákæra var gefin út.

                                                       ***

Hluti rannsóknargagna var sendur til skattrannsóknarstjóra, þrátt fyrir að húsleitin hafi ekki verið framkvæmd á grundvelli þess að skattalög hefðu verið brotin. Eftir að hafa farið í gegnum gögnin sem haldlögð voru mat Seðlabankinn það bara þannig að mögulega hefðu verið framin skattalagabrot. Skattrannsóknarstjóri felldi síðar niður þann hluta rannsóknarinnar. Engin ákæra var gefin út, enda ekkert tilefni til þess.

                                                       ***

Þegar ljóst var að enginn starfsmaður Samherja yrði ákærður fyrir nokkurn skapaðan hlut neyddist Seðlabankinn til að leggja málið niður. Eftir að hafa fellt málið niður bauð Seðlabankinn fyrirtækinu einhvers konar sátt í málinu. Hún fólst í því að fyrirtækið myndi greiða 8,5 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Seðlabankinn leit greinilega svo á að það væru smáaurar í bókhaldi Samherja og með því að gangast við sektinni væri Samherji að viðurkenna að hafa gerst brotlegur við lög. Samherji hafnaði „sáttinni“ og í framhaldinu lagði Seðlabankinn 15 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið, enn og aftur fyrir meint brot á gjaldeyrislögum. Á mánudag felldi Héraðsdómur Reykjavíkur sektina úr gildi, m.a. með þeim rökum að Seðlabankanum hefði ekki verið heimilt að leggja sektina á eftir að hafa áður fellt niður málið.

                                                       ***

Þetta var stutta útgáfan en fyrir áhugasama er þessu máli gerð ágætis skil í bók Björns Jóns Bragasonar, Gjaldeyriseftirlitið, sem kom út í fyrra. Þar er rakið nánar hvernig málatilbúnaður Seðlabankans var frá upphafi reistur á veikum grunni, svo vægt sé til orða tekið.

Umboðsmaður snuprar

Umboðsmaður Alþingis ritaði haustið 2015 ítarlegt bréf til fjármálaráðherra, formanns bankaráðs Seðlabankans, Seðlabankastjóra og stjórnskipunarog eftirlitsnefndar Alþingis. Þar sagði m.a.: „Ég tek það líka fram að ég tel það miður þegar forstöðumenn ríkisstofnana sem fara með rannsóknarvald af því tagi sem hér er fjallað um vísa til þess að ástæðu þess að fella hefur þurft niður rannsóknir mála, t.d. með ákvörðun ákæruvaldsins, megi rekja til vanbúnaðar í lögum eða mistaka við lagasetningu. Það er einmitt verkefni stjórnvalda að gæta að því að þau hafi nægar heimildir í lögum til þeirra athafna og ákvarðana gagnvart borgurunum sem þau grípa til. […] Eins og sjá má af tilurð og breytingum á lagaákvæðum og reglum um gjaldeyrismál er ljóst að Seðlabanki Íslands hefur haft verulega aðkomu að undirbúningi þeirra. Þar þurfti að gæta þess að þeir sem höfðu vald til að taka ákvörðun um hvaða háttsemi ætti að varða refsingum hefðu tekið afstöðu til þess og það væri í réttu formi.“

                                                       ***

Athyglisvert er einnig að sjá að í bréfi umboðsmanns kemur fram að þegar Seðlabankinn vísaði málum til ákæruvaldsins var á stundum miðað við útgefnar leiðbeiningar bankans við mat á því hvort brot hefði verið framið eða ekki. Ekki var miðað við orðalag laga og reglna. Eins og umboðsmaður bendir réttilega á eru leiðbeiningar af þessu tagi ekki refsiheimild. Ætla mætti að lögfræðiþekking innan Seðlabankans væri meiri og betri en þetta gefur til kynna að ætla.

                                                       ***

Það er varla hægt að skálda þessa sögu. Það eina sem eftir stendur af málinu er skaðað mannorð Samherjamanna, háir lögfræðireikningar og glataður tími sem ekki fæst bættur. Sama hvað einhverjum kann að finnast um æðstu stjórnendur Samherja, félagið sjálft nú eða kvótakerfið – það er ekkert sem réttlætir þá meðferð sem félagið og starfsmenn þess hafa fengið undanfarin fimm ár. Og jafnvel þó svo að stjórnendur Samherja kunni að vera einhvers konar hörkutól, þá á það endilega ekki við um þann fjölda starfsmanna félagsins sem hefur í fimm ár legið undir ásökunum um að hafa gert eitthvað sem þeir gerðu ekki, m.a. brotið lög.

                                                       ***

Það er orðið alveg ljóst að Samherjamálið er orðið eitt skýrasta dæmi um fantaskap og valdníðslu af hálfu hins opinbera, í þessu tilviki Seðlabankans. Það er því miður einnig orðið ljóst að enginn mun bera ábyrgð á þessu ofbeldi Seðlabankans. Már Guðmundsson hefur þó margoft tjáð sig um málið við fjölmiðla og gefið í skyn að Samherjamenn séu sekir um hin ýmsu brot, sem þeir hafa þó hvorki verið ákærðir né dæmdir fyrir. Már ber líka ábyrgð á ensku tilkynningunni sem áður var minnst á, sem æðsti yfirmaður bankans.

                                                       ***

Már hefur þó iðurlega tekið fram að hann hafi tekið málið nærri sér og talað á þeim nótum að hann beri í raun virðingu fyrir stjórnendum Samherja. Allt slíkt tal er innantómt og marklaust. Á sama tíma þykir sjálfsagt mál að einn æðsti emb- ættismaður landsins mæti í fjölmiðla og saki menn um að hafa brotið lög sem þeir hafa, enn og aftur, ekki verið ákærðir eða dæmdir fyrir að brjóta.

                                                       ***

Brotið var á fleirum

Stjórnendur Samherja eiga þakkir skildar fyrir að hafa tekið slaginn í þessu máli. Þeir hafa frá upphafi verið sannfærðir um eigið sakleysi og ekki látið Seðlabankann og stjórnendur hans komast upp með að rægja fyrirtækið og starfsmenn þess. Það hefði verið auðvelt fyrir Samherjamenn að taka tilboði Seðlabankans um að greiða átta milljónir króna í sekt og ganga frá málinu með þeim hætti. Með því móti hefðu þeir hins vegar verið að viðurkenna einhverja ábyrgð og réttlæta með þeim hætti hamaganginn í bankastarfsmönnunum. Þeir hafa nú tekið Seðlabankann á ipponi.

                                                       ***

Það má nefnilega ekki gleymast að það eru fleiri en Samherjamenn sem hafa lent í klóm gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Bankinn hefur kært á annað hundrað aðila, einstaklinga og lögaðila, með samtals 23 kærum, vegna meintra meiri háttar brota gegn lögum um gjaldeyrismál. Í ellefu málum hætti sérstakur saksóknari rannsókn og Seðlabankinn sjálfur afturkallaði fjögur kærð mál frá árunum 2012-2014. Þá endursendi sérstakur saksóknari sjö mál til Seðlabankans. Einu máli hefur lokið með útgáfu ákæru.

                                                       ***

Það var Aserta-málið, sem Óðinn hefur fjallað um áður. Þar voru fjórir menn ákærðir fyrir stórfelld brot á gjaldeyrislögum að undangengnum fordæmalausum blaðamannafundi þar sem fulltrúar ákæruvaldsins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans fullyrtu að þar færu skelfilegir glæpamenn. Þeir voru allir sýknaðir, en skað- inn sem þeir urðu fyrir var aldrei bættur.

                                                       ***

Mikill kostnaður

Þessar æfingar allar kostuðu sitt. Kostnaður við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans á árabilinu 2010 til 2016 nam að minnsta kosti 1.400 milljónum króna. Kom þetta fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, fyrr á þessu ári. Er hér aðeins um að ræða launakostnað, þ.e. laun og launatengd gjöld vegna starfsmanna við eftirlit Seðlabankans. „Ekki er reiknað með kostnaði við yfirstjórn og stoðþjónustu, enda ekki sundurgreint í kostnaðarbókhaldi bankans fyrir öll þessi ár með þeim hætti að hægt sé með góðu móti að telja með,“ eins og segir í svari ráðherrans. Raunkostnaður við eftirlit Seðlabankans hefur því óhjákvæmilega verið meiri en sem nemur þessum 1.400 milljónum króna.

                                                       ***

Nú veltir Óðinn því fyrir sér hvort nokkur muni bera ábyrgð á því sem undan er gengið. Líklega gildir það sama um Seðlabankann og RÚV, menn haga sér eins og þeim sýnist, segja og gera það sem þeim sýnist og það skiptir engu máli hvort einhver verði fyrir barðinu á þeim. Bankaráð Seðlabankans þegir þunnu hljóði og ekki þorir nokkur stjórnmálamaður að styggja við embættismönnunum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.