Sem kunnugt eru tugir af mikilvægustu embættismönnum landsins nú staddir við sólarströnd í Egyptalandi að leysa úr þeim vanda sem hlýnun loftlags veldur. Fram hefur komið að 50 Íslendingar sækja ráðstefnuna og er þorrinn af þeim hóp ríkisstarfsmenn sem eru eðli málsins samkvæmt kostaðir af skattgreiðendum.

Loftlagsfundurinn fer fram í Sharm El Sheikh í Egyptalandi. Hrafnarnir þekkja ágætlega til borgarinnar sem í daglegu tali er kölluð Sharm. Hún er þekkt fyrir lúxus, strandir, tæran sjó og kóralrif. Sem sagt afar heppilegur staður til fundarhalda – sérstaklega um loftslagsmál.

Hröfnunum hefur borist til eyrna að töluverður munur er á metnaði íslenskra embættismanna annars vegar og fulltrúa einkageirans á loftlagsráðstefnunni. Þannig gista fulltrúar hins opinbera á fimm stjörnu lúxushóteli sem heitir Domina Coral Bay og er það allt hið glæsilegasta. Hrafnarnir telja Domina Coral Bay vera sérlega ákjósanlegt hótel fyrir íslenska embættismenn sem þurfa að jafna sig á flugviskubiti og loftlagskvíða. Sem kunnugt er þá leggjast slíkar tilfinningar mun þyngra á ríkisstarfsmenn en aðra.

Fulltrúar einkageirans þurfa að gera sér að góðu ódýrari hótel sem bera að sögn kunnugra þess merki að höfða til rússnesku millistéttarinnar sem að enn getur ferðast til Egyptalands. Miðað við hvernig mál hafa þróast hér á landi kemur ekki hröfnunum á óvart að ríkisgeirinn sé leiðandi í þessum efnum og geri mun meiri kröfur um þægindi og aðbúnað en einkageirinn sættir sig við.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.