*

mánudagur, 1. júní 2020
Óðinn
24. september 2019 18:15

En með ólögum eyða

Óðinn fjallar um deiluna innan lögreglunnar.

Haraldur Guðjónsson

Menn verða víst seint um það sáttir í nákvæmlega hverju hlutverk hins opinbera á að felast, sumir aðhyllast lágmarksríki en aðrir vilja helst að ríkið láti sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Flestir sjálfsagt þar einhversstaðar á milli. En þegar rætt er um grunnhlutverk hins opinbera, þá eru vísast flestir á einu máli um að þar sé efst á blaði að tryggja innanlandsfriðinn með því að viðhalda lögum og reglu í landinu. Það er forsenda alls hins. 

                                          ***

Það var enda grunninntakið þegar menn stofnuðu íslenska ríkið um 930: „Með lögum skal land byggja“. Það er heldur engin tilviljun að það eru jafnframt einkunnarorð lögreglunnar, greipt í einkennistákn lögreglunnar og hverja einustu lögreglustjörnu, sem laganna verðir bera við skyldustörf. Stundum virðist þó botn setningarinnar gleymast: „en með ólögum eyða“. Þar er ekki aðeins átt við slæm lög, heldur lögleysu. 

                                          ***

Til þess að halda megi uppi lögum reglu í landinu þarf nokkru til að kosta. Lögreglan hefur þannig víðtækar valdheimildir til þess að ganga á frelsi manna í nafni almannavaldsins, en þó aðeins innan þess ramma, sem settur er með lögum og af dómstólum eftir atvikum. 

                                          ***

Kostnaðurinn er einnig fjárhagslegur. Rekstur lögreglunnar á Íslandi mun kosta 17,6 milljarða króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem var lagt fram í byrjun mánaðarins. 

                                          ***

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur starfað innan réttarvörslukerfisins í 40 ár. Hann hefur látið þá skoðun sína í ljós að yfirmannakerfið innan lögreglunnar sé of dýrt og rétt sé að einfalda það. Undir það hefur nýskipaður dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tekið en ráðherrann starfaði sem meðal annars sem sumarlögregluþjónn með laganámi og þekkir því innviði lögreglunnar betur en margur stjórnmálamaður annar. 

                                          ***

Óðinn ætlar ekki að segja fyrir um hvernig best sé að skipuleggja starf lögreglunnar á Íslandi. En það er afar ánægjulegt að að heyra forstöðumann hjá ríkinu benda á leiðir til sparnaðar og skilvirkari stjórnunar og að ráðherra taki undir þær. Þetta gerist sjaldan. Nánast aldrei. 

                                          ***

Viðbrögðin við þessu hafa helst verið þau að lögreglustjórar hringinn í kringum landið hafa setið á þrotlausum neyðarfundum. Því slíkar hugmyndir fela í sér, án nokkurs vafa, að þeir missi flestir starf sitt eða að minnsta kosti spón úr aski sínum. 

                                          ***

Í byrjun vikunnar sendi Lögreglustjórafélag Íslands, sem er selskapur um tíu manna, yfirlýsingu um ríkislögreglustjóra. Ekki þá fyrstu. Þar segir: „Nýlegar breytingar á skipan lögreglumála hafa gefist vel og hefur verið góð samvinna milli lögregluembætta. Ríkislögreglustjóri sætir gagnrýni. Þeirri gagnrýni verður ekki svarað meðđbollaleggingum ríkislögreglustjóra um breytta skipan löggæslu í landinu.“ 

                                          ***

Um hvað snýst gagnrýnin á ríkislögreglustjóra. Jú, um bíla og einkennisföt. Og hver leiðir gagnrýni á ríkislögreglustjóra? Formaður Lögreglufélags Reykjavíkur. Hver er formaður félagsins? Maður sem ríkislögreglustjóri þurfti að víkja tímabundið úr starfi meðan rannsakað var meint brot hans í opinberu starfi. 

                                          ***

Og hverjar voru sakirnar? Jú. Að hafa misnotað stöðu sína sem lögregluvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með því að láta lögregluþjóna á vakt aka sér til Keflavíkurflugvallar með forgangsljósablikki. Hraðast á 185 km hraða! 

                                          ***

Lá líf við? Nei. Voru líf manna í hættu? Nei, eða ekki nema mögulega þeirra saklausu vegfarenda sem urðu á vegi lögreglunnar meðan á þessum ofsaakstri stóð. Bar brýna nauðsyn til í þágu laga og réttar? Ónei. Lögregluvarðstjórinn var að missa af flugi. Til Litháen. Í einkaerindum! 

                                          ***

Skoðum atvikalýsinguna eins og hún birtist í álitsgerð sérstakar nefndar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í máli nr. 1/2007.

Þann 21. júní 2007 barst ríkislögreglustjóra tölvupóstur frá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins þar sem fram kom að hjá embætti hans væri til skoðunar tilvik sem komið hefði upp um nóttina og varðaði mikinn hraðakstur á lögreglubifreiðum á Reykjanesbraut. Þar sem hraði lögreglubifreiðar fór yfir tiltekið hámark hafði aðalvarðstjóra vaktarinnar verið gerð grein fyrir málinu. Í ljós kom þegar ökumaður lögreglubifreiðarinnar var kallaður fyrir aðalvarðstjóra, að hann hefði verið að aka A til móts við lögreglubifreið frá Suðurnesjum, [í] því skyni að koma honum sem fyrst í flug í einkaerindum. Nánari skoðun málsins leiddi í ljós að aðfaranótt 21. júní var lögreglubifreiðin 07-215 send að heimili A í Kópavogi að hans beiðni til að sækja hann og koma út á Keflavíkurflugvöll. Bar ökumaður bifreiðarinnar að A hafi sagt sér að aka með forgangi til móts við lögregluna á Suðurnesjum. Hafi ökumaðurinn ekki getað annað en farið að fyrirmælum um að aka forgang þar sem A væri yfirmaður í lögreglunni.

Af ferilvöktun frá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra má sjá að bifreiðinni 07-215 var ekið í forgangsakstri þann 21. júní frá kl. 00:29:30 til kl. 00:40:35. Á því tímabili var henni hraðast ekið á 185 km hraða á klst. Sama kvöld kl. 00:34 kom ósk frá lögreglubifreiðinni 07-215 á almennri uppkallsrás landsbyggðarinnar um að fá lögreglubifreið frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum til að taka á móti A á Reykjanesbraut og flytja hann í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lögreglubifreið 08- 239 var á Reykjanesbraut og sinntu lögreglumenn þeirrar bifreiðar þessu. Af ferilvöktun frá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra má sjá að bifreiðinni 08-239 var ekið í forgangsakstri þann 21. júní frá 00:41:21 til 00:50:14. Á tímabilinu var henni hraðast ekið á 168 km hraða á klst. Í hljóðupptökum fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar frá þessu kvöldi kom fram að ástæða fyrirmæla A um forgangsakstur lögreglubifreiðanna var að hann var að missa af flugi í einkaerindum frá Keflavíkurflugvelli og því hafi hann talið nauðsynlegt að fá akstur með forgangi frá heimili sínu.

Óðinn birtir þetta orðrétt því þessi nákvæma atvikalýsing sýnir – án minnsta vafa eða nokkurra tvímæla – hversu ótrúlegan og alvarlegan skort á dómgreind Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, auðsýndi þessa nótt. Reyndar er Óðinn þeirrar skoðunar að formaðurinn hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum átt að fá að snúa til starfa innan lögreglunnar. Með akstrinum olli hann almannahættu auk þess að sýna að honum er ekki treystandi fyrir því valdi sem lögregluþjónar hafa að lögum. 

                                          ***

Þessi akstur lýsir fullkomlega óþolandi afstöðu lögregluþjóns til laganna, misnotkun á aðstöðu og eignum og fjármunum ríkisins. Með forgangsljósunum var skákað í skjóli þeirra verulegu valda og réttinda sem við framseljum til lögreglu til þess að halda uppi lögum og reglu. En annars ekki. 

                                          ***

Við gerum þá sjálfsögðu kröfu til laganna varða að þeir fari í einu og öllu að lögum og reglum. Hvernig ættum við að treysta þeim annars? Þeir verða að vera hvítari en hvítt, eins og þar stendur. Það er enda ekkert verra en spillt lögga, því hún vegur að gervallri löggæslunni og heiðri hvers einasta lögregluþjóns. 

                                          ***

Sumir fjölmiðlar, þar á meðal sá sem þiggur 4.835 milljónir á næsta ári frá skattgreiðendum, hafa tekið viðtal við þennan mann, stillt honum upp fyrir framan lögreglustöðina við Hverfisgötu og látið eins og þar fari maður með öldungis óflekkað mannorð og óaðfinnanlega dómgreind um allt það er lýtur að störfum, skyldum og sæmd lögreglunnar! 

                                          ***

Það er nú eitt, en svo er hitt. Hvernig dettur lögregluþjónum í Reykjavík að kjósa sér slíkan mann sem formann í félagi þeirra. Varla finnst þeim öllum í himnalagi að lögregluþjónar verði uppvísir að því misnota embætti sitt og stöðu? Eða að nákvæmlega þessi maður verði fyrir valinu til þess að tala í þeirra nafni við almenning. Lögreglan á allt undir því að gagnkvæmt traust ríki milli hennar og almennings. Það er ekki traustvekjandi þegar brotamaður er formaður og helsti málsvari lögregluþjóna á Íslandi. Því áttu menn kannski að venjast í Rússlandi eða Sikiley, en því mega Íslendingar ekki venjast.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.