*

fimmtudagur, 24. september 2020
Andrés Magnússon
29. júní 2020 07:46

Endasleppingar

Fjölmiðlarýnir telur að svar vanti við augljósu spurningum, má þar nefna mál Þorvaldar Gylfasonar og uppsögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði nýverið af sér sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Haraldur Guðjónsson

Lesa mátti frétt í Morgunblaðinu í liðinni viku um að sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar yrði ekki haldin í ár, eins og undanfarin 31 ár, vegna áhugaleysis yfirstjórnar, sem af fréttinni mátti ráða að væri hjá Listasafni Íslands. Haft var eftir dóttur Sigurjóns heitins að það væri „ ekkert launungarmál að hér hafi verið í gangi hlutir sem okkur fjölskyldunni hefur ekki hugnast,“ en síðan sagði m.a. að hún væri bálreið yfir því hvernig komið hefði verið fram við móður hennar og staðnum sýnd óvirðing.

Það má allt rétt vera, en vandinn er sá að lesandinn var bara skilinn eftir þarna, án þess að vita hvaða hlutir það voru sem fjölskyldunni hugnaðist ekki, hvernig komið hefði verið fram við ekkju Sigurjóns eða staðnum sýnd óvirðing. Fyrir lesandann voru það allt launungarmál og fýsti þá þó vafalaust flesta að vita meira. 

* * *

Ríkisútvarpið var með frétt á dögunum um brúarlán og stuðningslán til fyrirtækja vegna heimsfaraldursins. Fréttin fólst í því að engin slík lán hefðu enn verið veitt. Ekkert fyrirtæki á Íslandi hefði enn fengið brúarlán, þrátt fyrir að þau hafi verið kynnt sem ein áhrifamesta aðgerð ríkisstjórnarinnar í fyrsta aðgerðapakkanum vegna plágunnar, en ekki hefði verið opnað fyrir umsóknir um stuðningslán, sem voru í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og ætluð smærri fyrirtækjum. Þetta var löng og ítarleg frétt og ekkert út á hana að setja, nema eitt: Það kom aldrei almennilega fram af hverju engin lán hefðu verið veitt. Sem þó er örugglega sú spurning sem vaknaði hjá öllum, sem á hlýddu.

* * *

Kjarninn opnaði í fyrri viku fréttamál um að Þorvaldi Gylfasyni hagfræðiprófessor hefði ekki hlotnast sá heiður í fyrra að ritstýra ársriti um hagfræðileg málefni, sem gefið er út af Norrænu ráðherranefndinni, sem er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna, en að tilstuðlan fjármálaráðuneyta Norðurlanda. Fréttin bar með sér að Þorvaldur eða lögmaður hans hefðu átt frumkvæði að henni, en hann hefur áskilið sér að sækja bætur til ráðherranefndarinnar. Þorvaldur telur að þar að baki hafi búið pólitísk óvild fjármálaráðherra, þó hann ítreki jafnframt að hann hafi lokið öllum pólitískum afskiptum fyrir mörgum árum. Fjármálaráðherra segir hins vegar að sér hafi aldrei komið til hugar að tilnefna Þorvald eða styðja af öðrum ástæðum, aðrir hagfræðingar hafi verið tilnefndir af Íslands hálfu.

Þetta er ljóslega flókið mál og margt sem þarfnast frekari skýringa. Þar á meðal hvernig á því stóð að fyrrverandi ritstjóri ársritsins, sem jafnframt er aldavinur Þorvaldar, stakk upp á honum til þess að taka við af sér, án þess þó að það virðist hafa verið nefnt í stýrihópnum, sem þó átti að ráða ritstjórann. Eða hitt að starfsmaður stýrihópsins og Norrænu ráðherranefndarinnar bauð Þorvaldi starfið án þess að hafa til þess heimild. Þrátt fyrir að Kjarninn og velflestir fréttamiðlar aðrir, sem tóku málið upp, hafi fjallað um ýmsar hliðar þess, þá hafa engin svör fengist við þeim lykilatriðum. Svona að því marki sem um var spurt, því það virtist vefjast fyrir flestum miðlum öðrum en Kjarnanum, sem þó hafði lítið upp úr krafsinu, því þegar hann spurði embættismanninn af hverju hann hafi boðið Þorvaldi starfið í heimildarleysi vildi hann ekkert segja og vísaði á fjármálaráðuneytin fimm. Sem aftur voru fremur treg á svör.

En þarna var fréttin að miklu leyti hætt að snúast um Þorvald og fjallaði ekki síður um stjórnsýsluhætti í Norrænu ráðherranefndinni, sem þarf að halda fullan og jafnan trúnað við öll aðildarríkin. Við bætist svo auðvitað spurningin hvort þar hafi verið um eitthvert baktjaldamakk að ræða, klíkuráðningu eða þess háttar, sem er mikilvægt að upplýsa, bæði gagnvart almenningi en auðvitað einnig gagnvart Þorvaldi, sem vill vitaskuld ekki hafa slíkar efasemdir flögrandi í kringum sig.

En þó að ráðuneytunum finnist þetta vandræðamál og vilji sem minnst við kannast og helst engu svara, og þó að hrædda möppudýrið sem réði Þorvald vilji alls engu svara, þá þarf ljóslega einhver að vera til svara um þetta, einhver sem ber ábyrgð gagnvart almenningi. Og þar hefðu fjölmiðlarnir nú vel mátt vera duglegri að spyrja, t.d. Samstarfsráðherra Norðurlanda hér heima, nú eða Paulu Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, sem áður var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Finnlands, hokin af reynslu í góðri og réttri stjórnsýslu.

* * *

Annað fréttamál kom upp í fyrri viku þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði af sér sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Um það lét hún stór og þung orð falla, talaði um valdníðslu og linnulausar árásir á sig, aðför gegn sér, að persóna sín hefði verið dregin niður í svaðið, og meiri hluti nefndarinnar hefði reynt að kúga sig og beita sig þöggun. Þarna var mikið sagt og raunar hafðar uppi grafalvarlegar ásakanir um athæfi, sem sumt kynni að varða við lög.

En það er svo merkilegt að ekki virðist nokkur fjölmiðill hafa kosið að ganga á eftir því við Þórhildi Sunnu hvað hæft væri í þessum miklu ásökunum. Um það veit almenningur ekkert, en hlýtur þó að hafa verið hið fyrsta sem hann vildi vita. Og varla getur það verið að fjölmiðlar hafi bara gengið út frá því að allt hafi það verið rétt hjá henni og því ástæðulaust að fjalla um frekar. Nú eða að þetta hafi verið innistæðulaus orð hjá henni og þess vegna ekkert gert með það.

Í því samhengi mætti nefna að fjölmiðlar hefðu a.m.k. átt að lyfta annarri augabrún varðandi ásakanir um þöggun. Samkvæmt Fjölmiðlavakt Creditinfo hefur Þórhildur Sunna komið við sögu í 198 fréttum á þeim 175 dögum, sem af eru liðnir ári.

* * *

Sjálfsagt hefur aldrei verið ljósara en einmitt nú um þessar mundir, að orð skipta máli. Orð tjá ekki aðeins hugsanir, heldur spretta hugsanir af orðum. Það gefur orðunum afl og gildi. Þess vegna er nauðsynlegt að fólk velji orð af kostgæfni og noti þau ekki í umhugsunarleysi eða af hirðuleysi um merkingu þeirra. Því það er vissulega til kúgun og þöggun, ofbeldi og árásir, sem þarf að segja frá og uppræta. En ef fólk notar það um hvað sem er, þá er verið að leggja allt að jöfnu. Og ef allt eru árásir, kúgun og þöggun, þá er ekkert árásir, kúgun og þöggun.

Stjórnmálamenn eiga að vanda orðaval sitt, en engum ætti að vera ljósara en fjölmiðlum að orð skipta máli og þeir eiga að ganga á eftir því hvað í þeim felst. Eða felst ekki.

* * *

Allar eiga ofangreindar fréttir það sameiginlegt að vera ekki að fullu sagðar, en það sem er kannski raunalegra er að þar er ekki einu sinni leitast við að svara augljósum spurningum, sem vöknuðu vafalaust hjá hverjum þeim sem las, heyrði eða sá viðkomandi fréttir.

Blaða- og fréttamenn verða að vera vakandi fyrir slíku, því það er þeirra að upplýsa almenning um hið fréttnæma og forvitnilega, það sem mestu skiptir í hverju máli og jafnframt að svara þeim spurningum, sem fréttirnar vekja. Ef það er ekki gert er fréttin ófullkomin og ekki að fullu sögð í huga lesandans. Jafn vel þannig að hann haldi að þar hafi einhverju verið vísvitandi sleppt, sem vitanlega er sjaldnast tilfellið.

Nú er það stundum þannig, einkum í útvarpi og stundum sjónvarpi, að fréttamenn reyna að drýgja fréttirnar, svo þær endist þeim í sem flesta fréttatíma. Það eru frekar ódýr vinnubrögð og ekki til þess fallin að auka skilning almennings, því ef það er hægt að klára fréttina í einu lagi á auðvitað að gera það. En það eru ekki óheiðarleg vinnubrögð fyrir það.

Svo eru önnur fréttamál, sem eru svo flókin og umfangsmikil að það verður að brjóta þau upp til þess að fjalla um einstaka þætti, jafnvel dögum saman, en þá auðvitað hins stóra samhengis einnig getið. Þar þurfa blaðamenn að huga vel að söguþræðinum, en eins að vera tilbúnir að bregða út af birtingaráætluninni, ef almenn umræða, viðbrögð við fréttaefninu eða slíkt tekur nýja stefnu.

En eftir situr meginreglan, að segja alla fréttina sem fyrst og svara hinum augljósu spurningum, sem þær vekja.

Fjölmiðlarýni birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.