Á miðvikudaginn var Ferðaþjónustudagurinn haldinn hátíðlegur í Hörpu þar sem fólk úr atvinnugreininni, stjórnmálum, stjórnkerfinu og annað áhugafólk um ferðaþjónustu kom saman og rýndi í stöðu greinarinnar í hagkerfinu, áhrif hennar á samfélagið og hvað þarf til að tryggja jákvæða uppbyggingu og verðmætasköpun til frambúðar.

Íslensk ferðaþjónusta hefur löngum verið byggð á gestrisni og leiðsögn heimamanna en er nú einnig orðin sú atvinnugrein sem skilaði þjóðarbúinu mestum útflutningstekjum og flestum nýjum störfum þegar hæst bar. Upp úr aldamótum komu fram þau stórtíðindi að fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll á ári hverju væri orðinn meiri en íbúar landsins. Um áratug síðar urðu ákveðin tímamót þegar erlendum ferðamönnum tók að fjölga enn hraðar en áður.

Sú aukna erlenda eftirspurn er sigldi í kjölfarið skapaði hagfelld skilyrði fyrir innlent efnahagslíf. Aukin erlend eftirspurn eftir innlendri framleiðslu hefur almennt í för með sér aukna landsframleiðslu sem verður til meðal atvinnugreina landsins, minna atvinnuleysi, fleiri unnar stundir og aukna atvinnuþátttöku. Jafnframt gefur þessi aukna eftirspurn möguleika á viðskiptaafgangi við útlönd, batnandi erlendri eignastöðu og gengisstyrkingu. Ör uppgangur ferðaþjónustunnar var þannig burðarstólpi bættra lífskjara landsmanna síðastliðinn áratug og gerði það jafnframt að verkum að efnahagslíf landsins varð fjölbreyttara en áður.

Skjótt skipast veður í lofti

Vergri landsframleiðslu (VLF) er ætlað að mæla heildarverðmætasköpun sem verður til í hinni ýmsu framleiðslustarfsemi landsins á tilteknu tímabili. Beint framlag atvinnugreina til VLF varpar því ljósi á í hvaða atvinnugreinum verðmætasköpunin verður til hverju sinni. Samkvæmt ferðaþjónustureikningum Hagstofu Íslands þróaðist hlutur ferðaþjónustu af verðmætasköpun landsins úr því að vera 3,4% árið 2010 yfir í að vera 8,1% árið 2018. Róður ferðaþjónustunnar hafði tekið að þyngjast árið 2019, áður en heimsfaraldur kórónuveiru gekk í garð, en árið 2020 lækkaði hlutur atvinnugreinarinnar af verðmætasköpuninni niður í 3,6%.

Samhljómur myndaðist á meðal helstu greiningaraðila í miðjum heimsfaraldri kórónuveiru um að hraði efnahagsbata hagkerfisins myndi velta að miklu leyti á viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Atvinnugreinin er nú hægt og bítandi farin að ná vopnum sínum á ný en ljóst er að vinda þarf ofan af þeirri skuldastöðu sem ýmis ferðaþjónustufyrirtæki standa enn frammi fyrir.

Horft til framtíðar

Ferðaþjónustan hefur stuðlað að lífskjarabót þjóðarinnar á síðastliðnum áratug en undirstaða bættra lífskjara til lengri tíma felst í aukinni framleiðni, það er að fá meira fyrir minna til dæmis með betri nýtingu framleiðsluþátta og tækniframförum. Þannig velta lífskjör þjóða ekki á þeim útflutningstekjum einum saman eða fjölda starfa sem atvinnugreinum tekst að skapa innan landamæra sinna, heldur einnig á afrakstri þeirra eða framleiðni.

Aðstæður nú eru ekki þær sömu og eftir síðasta samdráttarskeið í kjölfar fjármálahrunsins. Þá nutu útflutningsgreinarnar góðs af lágu raungengi krónunnar og bættri samkeppnisstöðu, framleiðsluþættir færðust á milli atvinnugreina og vægi ferðaþjónustunnar sem og annarra greina í verðmætasköpuninni breyttist. Hlutur ferðaþjónustu af verðmætasköpun var 4,2% árið 2021 en samkvæmt greiningaraðilum er útlit fyrir kröftugan bata atvinnugreinarinnar í ár þar sem erlend eftirspurn virðist vera að koma til baka af fullum þunga. Sú aukna erlenda eftirspurn skapar tækifæri fyrir ferðaþjónustuna til að stuðla að bættum lífskjörum landsmanna í meiri mæli á ný.

Eigi ferðaþjónustan að spila stórt hlutverk í framtíðarverðmætasköpun hér á landi liggur fyrir að feta þarf ótroðnar slóðir og efla greinina á grundvelli skýrra markmiða. Atvinnugreinin þarf að sníða sér stakk eftir vexti með áherslu á arðsemi fremur en fjölda þannig að verðmætasköpun ferðaþjónustu verði drifin áfram af auknum verðmætum á hvern ferðamann í stað aukins fjölda þeirra. Í þessu felst meðal annars að fjölga sérhæfðum störfum í ferðaþjónustu og að dreifa álagi yfir árið og landið og ná þannig fram betri nýtingu framleiðsluþátta.

Áhersla á gæði umfram magn mun koma til með að skipta sköpum fyrir framtíð íslenskrar ferðaþjónustu. Í janúar árið 2019 mótuðu Samtök ferðaþjónustunnar í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Stjórnstöð ferðamála stefnu um framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 þar sem arðsemi, ávinningur, einstök upplifun og umhverfisvernd leiða veginn. Þessari stefnu þarf nú að fylgja eftir með markvissri aðgerðaáætlun til þess að áfangastaðurinn Ísland geti tekið á móti þeim gestum er hingað koma með sjálfbærum og hagkvæmum hætti og tryggt sé að atvinnugreinin verði áfram einn af burðarstólpum verðmætasköpunar þjóðarinnar horft til framtíðar