*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Leiðari
11. apríl 2019 12:54

Endurreisn Wow

Viku eftir gjaldþrot sem leiddi til þess að ríflega þúsund manns misstu vinnuna og fólk tapaði háum fjárhæðum var tilkynnt um endurreisn Wow.

Haraldur Guðjónsson

Nú eru nákvæmlega tvær vikur síðan Wow air varð gjaldþrota en það gerðist fimmtudaginn 28. mars. Atburðarásin var hröð síðustu dagana fyrir gjaldþrotið. Fimmtudaginn 21. mars var viðræðum við Indigo Partners slitið og í kjölfarið, þennan sama dag, hófust viðræður við Icelandair. Þeim var slitið eftir fjóra daga, eða sunnudaginn 24. mars.

Skúli Mogensen var ekki af baki dottinn. Þriðjudaginn 26. mars bárust fréttir af því að hluti fjárfesta hefði samþykkt að breyta kröfum í eignarhlut. Enn vantaði samt 40 milljónir dollara til að klára endurskipulagninguna og halda starfseminni gangandi og því hélt leitin að nýjum fjárfestum áfram. Bárust fréttir af því að Indigo Partners væri komið aftur inn í myndina á þessum tímapunkti, en fimm dögum áður hafði viðræðum við félagið verið slitið.

Í viðtali á RÚV þriðjudaginn 26. mars sagði Skúli að verið væri að vinna með öllum aðilum til að tryggja langtímafjármögnun félagsins og „þeirri vinnu miðar vel áfram“ sagði hann. „Ég er alltaf brattur að eðlisfari og það er ekki síst þessi hvatning sem ég hef fengið frá okkar fólki, frá starfsfólkinu hérna og fólkinu í landinu sem gefur mér þann kraft að halda þessari baráttu áfram. Ég hef fulla trú á því að við klárum þetta verkefni.“ Þennan sama dag var Skúli í viðtali á Vísi, þar sem hann sagði að starfsmenn myndu fá útborgað um mánaðamótin og að óhætt væri fyrir fólk að kaupa sér flugmiða með Wow. Enn fremur sagði hann að sala farmiða fyrir apríl og annan ársfjórðung hefði gengið vel, sem sýndi það traust og þann stuðning sem félagið nyti.

Innan við tveimur sólarhringum eftir að þessi viðtöl birtust, fimmtudaginn 28. mars, stöðvuðu leigusalar vélar Wow air og félagið varð gjaldþrota og um 1.100 manns hjá Wow misstu vinnuna. Gjaldþrotið hafði einnig áhrif á önnur fyrirtæki, sem neyddust til þess að segja upp fólki. Fyrir mánaðamótin fengu samtals um 1.600 manns uppsagnarbréf.

Þessu til viðbótar er ljóst að fjöldi fjárfesta, viðskiptavina og þjónustuaðila Wow air mun tapa háum fjárhæðum vegna gjaldþrotsins. Wow air skuldaði ríkisfyrirtækinu Isavia tæpa 2 milljarða króna og samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er Arion banki með kröfu upp á 1,6 milljarða króna í þrotabúið. Skuldabréfaeigendurnir, sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu í september, þar sem átta milljarðar söfnuðust tapa stórfé. Fréttablaðið greindi reyndar frá því í síðustu viku að um helmingur fjárhæðarinnar sem safnaðist í útboðinu hefði verið í formi skuldbreytinga frá ýmsum kröfuhöfum. Þær fréttir hljóta að hafa komið þeim sem lögðu nýtt fjármagn í reksturinn á óvart. Framvegis hljóta fjárfestar, sem taka þátt í skuldabréfaútboðum, að vilja hafa þetta á hreinu.

Í þessari upptalningu má ekki má gleyma almenningi, fólkinu sem hafði keypt miða með Wow air og ekki notað greiðslukort eins og til dæmis unglingarnir tíu á Þorshöfn gerðu. Þeir höfðu safnað milljón krónum og staðgreitt ferð til Tenerife um páskana með einni millifærslu. Þetta gerðu þeir tveimur vikum fyrir gjaldþrotið.

Fimmtudaginn 4. apríl, viku eftir að Wow varð gjaldþrota, bárust fréttir þess efnis að Skúli Mogensen hygðist safna 40 milljónum dollara til að endurreisa félagið. Skúli og fyrrverandi lykilstarfsmenn Wow stefna að því að eiga 51% í nýja félaginu og nýir hluthafar munu eiga rest og hefur meira að segja verið talað um hópfjármögnun í þessu sambandi. Ný fjárfestakynning var útbúin í hvelli en í henni kemur fram að forsvarsmenn Wow hafi lært sína lexíu og að nýtt félag muni einblína á harða lággjaldastefnu líkt og Wow hafi gert í upphafi og skilað hafi félaginu mjög góðri afkomu árin 2015 og 2016.

Það er rétt að félagið skilaði góðum hagnaði þessi ár eða 4,3 milljörðum króna árið 2016 og 1,1 milljarði árið 2015 eða samtals 5,4 milljörðum. Þess ber að geta að rekstraraðstæður flugfélaga voru gríðarlega jákvæðar á þessum árum, meðal annars vegna lágs eldsneytisverðs. Þegar ársreikningarnir eru skoðaðir kemur í ljós að á þessum árum nam gengishagnaðurinn 2,9 milljörðum – blessuð krónan. Í lok árs 2016 námu skuldir Wow air 31,7 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Í skýringu 32 í ársreikningnum kemur síðan fram að skuldbindingar vegna leigusamninga á flugvélum námu 45,7 milljörðum. Á þessum tíma námu vaxtaberandi skuldir Wow air því um 77 milljörðum króna.

Kannski ættu Skúli og lykilstarfsmenn að safna 40 milljónum dollara og leggja fjárhæðina í þrotabúið svo kröfuhafar, jafnt fjárfestar sem almenningur, fái kannski eitthvað til baka af því sem þeir hafa tapað.

Stikkorð: Wow air Wow
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.