*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Týr
19. júlí 2020 12:03

Endurskoða tengsl við Kína

Varla má á milli sjá hvort er verra ef viðkomandi ráðamenn vita ekki betur eða tala svo gegn betri vitneskju.

Viðskiptablaðið birti í upphafi liðins mánaðar forystugrein undir fyrirsögninni Úr klóm drekans, þar sem meginefnið var það að Íslendingar þyrftu af ýmsum ástæðum að endurskoða samskiptin við kommúnistastjórnina í Kína. Þar á meðal var nefndur þáttur Huawei í uppbyggingu innviða 5G-kerfisins, sem samrýmdist hvorki þjóðaröryggi né netöryggi. Síðan hefur það gerst að bandarísk yfirvöld hafa tekið fyrir að nota megi bandaríska örgjörva í búnaði Huawei, svo fyrirsjáanlegt er að netöryggi hans muni enn minnka.

                                                                        ***

Morgunblaðið hefur grennslast fyrir um þessi mál undanfarna daga, en svör íslenskra ráðamanna hafa verið fremur loðin og bera þess merki að þeir vilji hvorki styggja Bandaríkjastjórn né tefla mikilvægum viðskiptahagsmunum við Kína í hættu. Þeir viðskiptahagsmunir eru hins vegar mjög einhliða eins og rakið var í fyrrnefndum leiðara Viðskiptablaðsins, því vöruskiptahalli Íslands við Kína er fimmfaldur. Varla má á milli sjá hvort er verra ef viðkomandi ráðamenn vita ekki betur eða tala svo gegn betri vitneskju. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var sá eini sem talaði sæmilega hreint út um þessi mál og tók undir að hér ræddi um þjóðaröryggismál, sem yrðu að njóta forgangs.

                                                                        ***

Þrátt fyrir að þau mál snúi að íslensku þjóðaröryggi með beinum hætti, þá hefur þróunin mála í Kína undanfarnar vikur verið þannig að almenn endurskoðun samskipta Íslands við Kína er orðin brýn. Fregnir af þjóðernishreinsunum gagnvart milljónum Úígúra í Xinjiang-héraði opinberar ógeðslega stjórnarhætti kommúnistastjórnarinnar í Peking, svo ekki má undan líta. Framferði hennar gagnvart Hong Kong búum og grímulaus brot þeirra á alþjóðlegum samningum og mannréttindum þar er einnig þannig að Ísland má ekki sitja hljótt hjá. Raunar þætti Tý það sjálfsagt mál að íslensk stjórnvöld fælu ræðismanni Íslands í Hong Kong að gefa út eins og 3.000 vegabréfsáritanir til Hong Kong búa með íslenskt dvalarleyfi og síðar ríkisborgararétt fyrir augum. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið vandalaust og margt mætti betur fara hafa Íslendingar sýnt aðdáunarverða getu á undanförnum árum til þess að taka á móti vinnufúsum höndum að utan. Þar væru dugmiklir og hugmyndaríkir Hong Kong búar velkomin viðbót.

Stikkorð: Kína Huawei Kína
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.