*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Leiðari
18. maí 2018 07:47

Engar breytingar

Sjálfstæðisflokksins í borginni á í erfiðleikum með að ná til kjósenda á meðan Samfylkingin siglir lygnan sjó.

Haraldur Guðjónsson

Í öllum könnunum sem Gallup hefur gert fyrir Viðskiptablaðið á afstöðu kjósenda til borgarstjórnarkosninganna hefur meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata og VG haldið velli. Niðurstaðan í könnuninni sem birtist í blaðinu í dag er engin undatekning. Samfylkingin bætir við sig fylgi og manni frá síðustu könnun meðan Sjálfstæðisflokkurinn missir fylgi, er kominn undir kjörfylgi síðustu kosninga, og missir mann.

Samningsstaða Sjálfstæðisflokksins í borginni virðist ekki beysin. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, ítrekar þau ummæli sín að Pírötum hugnist ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn fyrr en flokkurinn tekur til hjá sér eins og hún orðar það. Þar fara þrír borgarfulltrúar sem Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gæti biðlað til.

Næsta ómögulegt er að Eyþór finni stuðning innan raða VG. Samstarf við höfuðandstæðinginn í Samfylkingunni verður að teljast ólíklegt og líklegt að Viðreisn taki fálega í samstarf við flokka sem leggjast gegn Borgarlínu. Staðan er þá orðin 14-7 fyrir meirihlutanum og fylgihnöttum. Fyrr myndi frjósa í helvíti en að Sósíalistar bindi trúss sitt við Íhaldið. 15-7.

Af þeim sjö flokkum sem eru líklegir til að ná sæti hallast fimm þeirra, með 15 stóla af 23, í átt að meirihlutanum. Eyþór á því bara einn vin – Vigdísi Hauksdóttur. 15-8. Og reyndar víkingana líka. Vigdís og víkingarnir. Hann gæti reyndar líka vonað að Framsókn nái að slá hressilega í klárinn á lokametrunum og ná manni inn. Það er bara ekki nóg. Þá þarf að hringja í vin.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði því nokkuð sem hefur ekki gerst lengi. Hann beitti sér í borgarmálum. Heimildir Viðskiptablaðsins úr röðum borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins herma að formaðurinn, sem hafi svo til aldrei skipt sér af borgarmálum, stigi nú niður úr turninum, stilli sér upp við hlið Eyþórs og reyni að deila örlitlu af sínum kjörþokka og vigt með oddvitanum. Þetta útspil á lokametrunum lyktar af örvæntingu. Fram að þessu hefur verið sama hvað Eyþór hefur gert, meirihlutinn hefur ekki haggast. Það yrði gríðarlegt áfall fyrir Eyþór og Sjálfstæðiflokkinn ef fylgið verður á pari við kosningarnar 2014. Þá fékk flokkurinn 25,7% undir forystu Halldórs Halldórssonar.

Ef fram fer sem horfir er því ljóst að Reykvíkingar munu búa við sama meirihluta næstu fjögur árin. Það yrði ótrúlegur sigur fyrir Dag að halda borgarstjórastólnum þrátt fyrir að hafa hækkað skatta, sleppt því að þrífa borgina nema korteri fyrir kosningar og rekið lóðaskortsstefnu með þeim afleiðingum að unga fólkið hefur hrakist til nágrannasveitarfélaganna.

En það er líka óánægja innan meirihlutans. Líf Magneudóttir beindi spjótum sínum fyrir ekki löngu að Pírötum og þótti þeir ekki nógu harðir í yfirlýsingum um að styðja meirihlutann áfram. Hún talaði líka um að vilja fá Sósíalistaflokkinn inn í meirihlutann. Sósíalistaflokkurinn hefur reyndar gert það að verkum að VG þarf að verjast frá vinstri, eitthvað sem flokkurinn hefur aldrei þurft að gera og örugglega aldrei ímyndað sér að hann þyrfti að gera.

Hvort Líf láti í sér heyra til að skapa sér svigrúm og sérstöðu er ekki hægt að segja til um. Hins vegar er alveg ljóst að samstarfsflokkar líða fyrir það að borgarstjórinn einokar sviðsljósið og ekki víst að margir borgarbúar geti talið upp hvaða flokkar mynda núverandi meirihluta. Bara flokkur Dags. Í meirihluta margra flokka getur það verið banvænt. Jafnvel þótt sætin skili sér getur vond útreið í kosningum og vonbrigði gert flokka fráhverfa frekara samstarfi. Þá getur allt gerst. En gerist sennilega ekki því afar lengur vegur er milli stoðflokkanna í meirihlutanum og minnihlutans. Ef ekki verða risatíðindi í Reykjavík á næstu níu dögum er lítil von fyrir þá sem vilja breytingar í Reykjavík.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is