*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Leiðari
8. júní 2018 11:19

Engar tilviljanir hjá Costco

Stjórnendur Costco eru sniðugir því tveimur mánuðum áður en fyrstu meðlimakortin runnu út buðu þeir viðskiptavinum sínum að endurnýja þau við kassann.

Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið er Costco að festa sig í sessi á íslenskum smásölumarkaði. Könnunin, sem birt er í blaðinu í gær, sýnir að 85% þeirra sem eiga eða hafa átt meðlimakort ætla að endurnýja Costco-kortin sín. Þar að auki hyggjast 5% þeirra sem aldrei hafa átt kort að fá sér meðlimakort á næstu sex mánuðum. Staða Costco á íslenska markaðnum virðist því ætla að verða sterk áfram. Það að 85% hyggist endurnýja kortin sín rímar vel við sömu hlutfallstölur hjá Costco erlendis því þær sýna að árleg endurnýjun á kortum er á bilinu 80 til 85%.

Niðurstöður Gallup-könnunarinnar eru enn áhugaverðari þegar Costco-æðið sem greip þjóðina fyrir ári er haft í huga. Einhverjir hefðu haldið að áhuginn fyrir Costco myndi dvína hraðar en könnunin sýnir. Forsvarsmenn Costco hafa lítið þurft að hafa fyrir markaðssetningu verslunarinnar á Íslandi.

Raunar auglýsir fyrirtækið nánast ekkert. Það sendir einstaka tölvupósta á korthafa þar sem tilboð eru auglýst. Stjórnendur Costco eru líka sniðugir því tveimur mánuðum áður en fyrstu meðlimakortin runnu út buðu þeir viðskiptavinum sínum að endurnýja þau við kassann. Þegar búið var að skanna allar vörur var fólk spurt hvort það vildi ekki endurnýja. Þetta er þekkt trix í fræðunum því á nákvæmlega þessum tímapunkti þurfti fólk í raun að taka ákvörðun um það hvort það ætlaði ekki að endurnýja frekar en hvort það ætlaði að endurnýja.

Vafalaust hefur þetta skilað þeim góðum árangri. Ástæðan fyrir því að Costco auglýsir lítið sem ekkert er vafalaust vel ígrunduð. Ástæðan fyrir því að vefsíðan er eins og ódýr vefsíða hjá bílapartasölu er það líka. Skilaboðin til viðskiptavina eru þau að Costco eyðir ekki peningum í auglýsingar og dýrar vefsíður. Það lætur ekki kostnað vegna þessa smitast inn í vöruverðið. Það liggja pottþétt einhverjar rannsóknir á bak við þessa strategíu. Það er ekkert tilviljunum háð þegar kemur að ákvarðanatöku þessa alþjóðlega risa á smásölumarkaði.

Þau tíðindi að Costco sé að festa sig í sessi á Íslandi eru ekki endilega jákvæð fyrir önnur fyrirtæki á smásölumarkaði því Costco er næststærsta smásölufyrirtæki í heimi á eftir Walmart. Costco hefur reyndar ekki einungis áhrif á smásölumarkaðinn því fjölmörg fyrirtæki stunda viðskipti við Costcto í stað þess að versla við heildsölur.

Í Viðskiptablaðinu fyrir viku var áhugavert viðtal við Jóhann Þórarinsson, forstjóri FoodCo, en fyrirtækið rekur tuttugu veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu undir vörumerkjum Eldsmiðjunnar, Saffran, American Style, Roadhouse, Pítunnar, Aktu Taktu og Kaffivagnsins. Jóhann sagði að fyrirtækið þyrfti að bregðast við kostnaðarþenslu með nokkrum leiðum. „Við ætlum að halda áfram að lækka kostnaðarverð seldra vara með betri samningum við birgja hér innanlands og sjáum fyrir okkur að beina auknum viðskiptum til Costco,“ sagði hann. Fyrst FoodCo er að velta þessu fyrir sér þá er líklegt að aðrir séu einnig að gera það.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.