Í ljósi umræðunnar í aðdraganda kosninganna í haust og þeirrar áherslu sem lögð hefur verið á að styrkja heilbrigðiskerfið, líkt og snöfurmannlega er gert í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, eru fjárlögin veruleg vonbrigði. Ef til dæmis er horft til fyrirhugaðra útgjalda til lyfja í fjárlögunum virðist sem ekkert samhengi sé á milli raunverulegrar notkunar í heilbrigðiskerfinu og þess sem fjárlögin gera ráð fyrir. Að óbreyttu verða ekki samþykkt nein ný lyf til notkunar í ár.

Ný lyf eru ekki samþykkt til notkunar umhugsunarlaust og þegar notkun þeirra er heimiluð er það vegna þess að þau gera meira gagn en þau sem fyrir eru. Þau skila betri árangri og betri meðferð. Þriðja árið í röð hefur á vegum Frumtaka verið unnin greining á innleiðingu nýrra krabbameinslyfja á Íslandi og enn kemur því mið­ur skýrt í ljós að við erum verulegir eftirbátar Norð­urlandanna hvað varðar aðgengi að nýjum lyfjum. Þetta þýðir einfaldlega að íslenskir læknar hafa ekki aðgang að sömu úrræðum til handa sinna sjúklinga samanborið við kollega sína í nágrannalöndunum, hafa ekki sömu verkfærin í sinni verkfæratösku og kollegarnir í þeim löndum sem við svo gjarnan viljum bera okkur saman við.

Töluleg gögn sýna að hlutfall lyfjakostnaðar af útgjöldum hins opinbera til heilbrigðismála hefur gegnumsneitt verið hið sama undanfarinn áratug, eða um 10%. Lyfjakostnaðurinn, settur í þetta samhengi, jókst nokkuð við hrun krónunnar, en hefur undanfarin misseri farið hratt lækkandi í takt við styrkingu krónunnar og verður miðað við fjárlögin í ár um 7,4% af útgjöldum til heilbrigðismála. Styrking krónunnar hefur því skilað ríkissjóði verulegum sparnaði þegar kemur að útgjöldum til lyfjamála, því lyfjaverðið er beintengt við gengi krónunnar og hefur nú lækkað um tugi prósenta á tiltölulega stuttum tíma. Nú er lag að nota þann sparnað sem styrking krónunnar hefur skilað og standa við stóru orðin varðandi fjármögnum heilbrigðiskerfisins.

Höfundur er framkvæmdastjóri Frumtaka