*

mánudagur, 22. júlí 2019
Leiðari
18. ágúst 2012 11:15

Enginn afsláttur

Sé skattlagning ferðaþjónustu á "afslætti" eins og fjármálaráðherra hefur sagt þá má líta svo á að launþegar njóti 60% afsláttar.

Haraldur Guðjónsson

Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í skattamálum, að hækka virðisaukaskatt á hótel- og gistiþjónustu úr neðra þrepi (7%) yfir í það efra (25,5%) ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart. Ríkisstjórnin hefur þegar lagt í mikla atlögu gegn orkugeiranum og nú síðast sjávarútveginum. Það var því borðleggjandi að ferðaþjónusta yrði næst. Allt eru þetta stórar stoðir í atvinnulífi landsins.

Að sama skapi koma skattahækkanir sem slíkar ekki á óvart þegar núverandi ríkisstjórn á í hlut. Eins og áður hefur komið fram, m.a. hér í Viðskiptablaðinu, hafa verið gerðar yfir 100 breytingar á skattakerfinu frá því að ríkisstjórnin tók við völdum vorið 2009. Breytingarnar má í stuttu máli flokka í tvennt: Nýir skattar og hærri skattar.

Það sem kemur hins vegar á óvart er viðhorf fjármálaráðherra í garð ferðaþjónustunnar — og í raun skattgreiðenda allra. Oddný G. Harðardóttir hefur ítrekað sagt í fjölmiðlum í vikunni að nú sé tímabært að afnema þann „afslátt“ sem ferðaþjónustan hefur notið undanfarin ár. Þar vísar Oddný til þess að þeir sem selja gistirými á Íslandi hafa undanfarin ár greitt 7% virðisaukaskatt en ekki 25,5%. Þá hefur Oddný einnig lýst því yfir að ekki eigi að umbuna ferðaþjónustunni umfram aðrar stórar atvinnugreinar.

Það er rétt hjá Oddnýju, hótel- og gistiþjónusta var í mars 2007 færð úr efra þrepi, sem þá var einungis 14% en ekki 25,5%, niður í það neðra. Það er líka hægt að taka undir það sjónarmið að almennt eigi ekki að hygla einni atvinnugrein umfram aðra, t.d. með skattaívilnunum.

En það er undarlegt að líta þannig á að ef einhver vöruflokkur sé í neðra þrepi virðisaukaskattsins njóti hann sérstaks skattaafsláttar. Með sömu rökum má segja að matvörur, bækur og aðrar vörur í neðra þrepi njóti sérstakra ríkisstyrkja eða skattaafsláttar. Áhugamenn um skattheimtu, sem nú eru nokkrir í vinnu í stjórnarráðinu, gætu tekið þessa hugmyndafræði enn lengra og litið svo á að almennir launþegar, sem greiða um 40% skatt af tekjum sínum, njóti 60% skattaafsláttar.

Eins og fram kemur í umfjöllun Bjarna Ólafssonar hér í blaðinu í dag er meðalvirðisaukaskattur af seldum gistirýmum í Evrópu um 10,7%. Meðalvirðisaukaskattur almennt er um 21%. Fari svo að skattahækkanatillaga Oddnýjar verði samþykkt mun Ísland innheimta hæsta virðisaukaskatt af gistirými í Evrópu. Allt er þetta liður í því að slátra enn einni mjólkurkúnni.

Það má aldrei gleyma því að verðmæti sem framleidd eru í þjóðfélaginu eru eign þeirra sem þau framleiða. Hið opinbera tekur síðan hluta af þeim til sín og hótar valdbeitingu í formi sektargreiðslna og jafnvel fangelsisvistar ef greiðslur eru ekki inntar af hendi. Það er nauðsynlegt að horfa á skattheimtu frá þessu sjónarmiði, ekki frá sjónarmiði ríkisins.

Í gegnum þetta allt saman hefur fjármálaráðherra þó viðurkennt, enda ekki annað hægt, að lægri skattar hafa stuðlað að vexti greinarinnar. Hið sama á líka við kvikmyndaframleiðslu, svo dæmi sé tekið um grein sem notið hefur beinna skattaívilnana. Þetta sýnir aðeins eitt; lægri skattar skapa meiri umsvif, meiri veltu, aukinn vöxt og að lokum hagsæld fyrir alla.

Stjórnvöld hafa undanfarin misseri unnið náið með ferðaþjónustuaðilum í því að auka fjölda ferðamanna yfir vetrartímann enda eru þar mikil tækifæri til vaxtar eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað ítarlega um. Að leggja á borðið stórfellda skattahækkun á einn mikilvægasta lið ferðaþjónustunnar er rýtingur í bakið á greininni. Ríkisstjórnin ætti frekar að stefna að því að lækka skatta almennt og stuðla þannig að fyrrnefndum vexti atvinnulífsins, sem síðan mun skila sér í aukinni velferð. Allt mun þetta að lokum skila auknum tekjum í ríkissjóð. En á meðan fjármálaráðherra lítur þannig á að lækkun skatta sé „skattaafsláttur“ verður enginn vöxtur í neinu.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.