*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Týr
3. apríl 2020 18:02

Enginn hlustar á minnihlutann

Það er ekki á stjórnarandstöðuna að treysta um aðhald. Hún lagði fram enn fleiri tillögur um fjárveitingar til gæluverkefna.

Haraldur Guðjónsson

Í vikunni voru afgreidd fimm stjórnarfrumvörp vegna aðgerða og viðbragða stjórnvalda við mikilli niðursveiflu í efnahags- og atvinnulífi af völdum heimsfaraldursins. Sömuleiðis var samþykkt þingsályktunartillaga um viðbótarframkvæmdir ríkisins á þeim níu mánuðum sem eftir lifa af árinu var. Fé til framkvæmdanna var hækkað úr 15 milljörðum í tæpa 18 milljarða í meðförum þingsins.

                                                                               ***

Það má gera margvíslegar athugasemdir við þessar ráðagerðir. Margar þeirra voru raunar á dagskrá fyrir, en annars staðar var duglega bætt í. Ekki er að efa að það hefur sín áhrif á efnahagslífið þegar fram í sækir, en ljóst er að eitthvað mikið þarf að gerast þegar kórónuveiran er gengin hjá.

                                                                               ***

Týr hefur hins vegar sínar efasemdir um að þar eigi ríkisvaldið að vera aðalhreyfiaflið, sennilega væri gagnlegra að það viki meira úr vegi fyrir atvinnulífinu, en þar horfir Týr sérstaklega til lækkunar á sköttum og gjöldum. Það má gera með fleiri hætti en því sem atvinnulífinu finnst því koma best, t.d. með afnámi tryggingagjalds og tekjuskattsfríi, sem aðallega hefði það að markmiði að auðvelda óhjákvæmilega tilflutninga á vinnuafli.

                                                                               ***

En það mátti líka finna eitt og annað í þessum plönum, sem lyktar langar leiðir af kjördæmapoti og því að nú vilji menn nýta hættutímana sem best til þess að koma gömlum gæluverkefnum fram. Það á svo sem ekki aðeins við á Íslandi, sjá má svipuð vinnubrögð fjárveitingavaldsins í nær öllum nágrannaríkjum. En það verður ekki betra við það og sérstök ástæða til þess að varast það að neyðarráðstafanir festist í sessi eða verði viðtekin venja.

                                                                               ***

Það er ekki á hina gagnslausu stjórnarandstöðu að treysta um slíkt aðhald frekar en annað. Nei, hún fór bara í röð og lagði í sameiningu fram enn fleiri tillögur um fjárveitingar til gæluverkefna og uppáhaldshreppa, svona eins og þetta væri bara hið besta mál og kórónuveiran kærkomin!

                                                                               ***

Það var til allrar hamingju allt fellt (svo „leiðtogar“ stjórnarandstöðunnar komu hrínandi í fjölmiðla um að enginn vildi hlusta á sig), en hvernig væri nú að stjórnarandstaðan reyndi að koma að einhverju gagni og veita meirihlutanum aðhald? Það er að verða síðasti sjens hjá henni. Því ekki verður betur séð en að stjórnarflokkarnir séu að ná sér vel á strik og öðlast æ meiri stuðning fyrir vasklega framgöngu á viðsjárverðum tímum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.