*

föstudagur, 16. apríl 2021
Brynjar Örn Ólafsson
8. mars 2021 10:02

Enginn spáir hruni

Kaup valrétta fremur en hlutabréfa gerir að verkum að hámarkstap er þekkt og þá má tryggja eignasafn með kaupum á sölurétti.

Hugurinn leitar til annarra ávöxtunarkosta en bankabóka í ljósi lágra vaxta og mikillar ávöxtunar annarra eignaflokka. Líkt og fjallað var um í Peningamálum Seðlabankans í nóvember jókst sparnaður heimila úr 10% í liðlega 20% af ráðstöfunartekjum á miðju síðasta ári sem rekja má til minni neyslu vegna áhrifa kórónuveirunnar. Það svíður sáran að sjá 0,5% ávöxtun á bankabók undanfarið ár á meðan ávöxtun hlutabréfa hefur verið 50% á sama tíma (m.v. Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar, OMXI10). Mögulega svo að fýsilegt virðist að verja umtalsverðri upphæð í hlutabréfamarkaðinn með von um að fortíðarávöxtun endurtaki sig.

Myndin sýnir samspil verðhækkunar OMXI10 og lækkunar ávöxtunarkröfu óverðtryggðra íslenskra ríkisskuldabréfa til 5 ára samkvæmt KODIAK excel. Verð hlutabréfa er í hlutfalli við hagsveifluleiðréttan hagnað, sem er nytsamleg stærð á tímum áhrifa kórónuveirunnar á rekstur fyrirtækja. Hlutfallið lýsir hve dýrum dómi markaðsaðilar vilja kaupa hverja krónu hagnaðar og frá október 2018 til maí 2020 hækkaði það um fjórðung samhliða 4 prósenta lækkun kröfu ríkisbréfa. Á tæpu ári hefur hlutfallið svo hækkað um 40% en krafan stigið til marks um efnahagsbata. Í lok febrúar stóð hlutfallið í 49 samanborið við 35 í Bandaríkjunum en þar í landi hafa vextir á 5 ára ríkisbréf sömuleiðis hækkað undanfarið. Væntingar um verðbólgu í löndunum eru álíka eða um 3% næsta árið en aftur á móti eru væntir raunvextir hér á landi um tveimur prósentum hærri.

Við vatnamælingar á virkjuðum ám mæla sérfræðingar dýpt uppistöðulóna og rennsli áa. Tilgangur dýptarmælinga er meðal annars að kanna hver vatnshæðin er gagnvart hæð stíflu og meta stærðargráðu mögulegs flóðs ef hún brestur – en síður til að tímasetja flóð (bls. 179, Mandelbrot (2004)). Verð á móti hagnaði hefur samskonar tilgang og óumdeilt er að gildi þessa hlutlausa mælikvarða er hátt í sögulegu samhengi.

Óvíst er að þróun sparnaðar heimila verði með ámóta hætti ef „hefðbundið“ líf tekur við í kjölfar bólusetninga og neysla hverfur aftur til fyrra horfs. Þannig sýnir umfjöllun Peningamála í febrúar að sparnaður heimila lækkaði í 14% af ráðstöfunartekjum á seinni hluta síðasta árs. Þá eru mörkin ekki þekkt hvenær ávöxtunarkrafa ríkisbréfa er nógu há til að fjármagn flæði úr áhættumeiri eignum yfir í ríkisbréf. Í Bandaríkjunum er almennt talað um að slíkt hefjist nái krafan 3%.

Tilefni til varfærnislegra fjárfestinga í hlutabréfum gæti þó enn verið til staðar. Kaup valrétta fremur en hlutabréfa gerir að verkum að hámarkstap er þekkt (kostnaður réttarins) og þá má tryggja eignasafn með kaupum á sölurétti. Slíkt er ekki endilega einfalt eða ódýrt á íslenska markaðnum samanborið við erlenda markaði. Henti slíkt ekki er þarft að fylgjast vel með mörkuðum, til dæmis sölu stórra fag- eða stofnanafjárfesta og flöggunartilkynningum – flaggar mótaðili upp til samræmis? Ef ekki, er það vísbending um að dregið hafi úr áhættusækni kaupenda og miðlarar hafi þurft að dreifa hlutunum á fleiri hendur. Að auki ætti að halda tölfræði yfir þróun dýptar kauphliða sem sýnir hversu mikið magn er að baki kauptilboðum þar sem kauphlið íslenska markaðarins getur verið mjög kvik sem þrengir flóttaleiðir.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru við ritun hennar. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið ber ekki ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.