Hlutverk stjórnenda á vinnustöðum er margslungið og krefjandi. Þeir hafa á sinni könnu verkefni sem snúa að rekstri, skipulagi, verklagi og stefnumótun auk þess að sinna mannauðstengdum verkefnum. Til að mynda vinna þeir að því að hlúa að starfsandanum og takast á við erfið samskipti í starfsmannahópnum eins og áreitni- og eineltismál .

Stjórnendur eru í yfirburðastöðu til þess að geta haft jákvæð áhrif á líðan fólks í vinnu. Uppbyggilegir og styðjandi stjórnunarhættir eru grunnur þess að starfsfólk þrífist og líði vel í starfi sínu. Mikilvægt er að starfsfólk viti til hvers er ætlast af því og það fái skýrar leiðbeiningar og endurgjöf frá yfirmönnum sínum. Einnig að þeir hafi kjark til að stíga inn í viðkvæm og krefjandi starfsmannamál, þeir séu lausnamiðaðir en sópi ekki málum undir teppið og vonist til að þau leysist af sjálfu sér. Ef starfsfólk finnur það að stjórnendur hlusta og bregðast við erfiðum málum eru gefin þau skilaboð út í hópinn að líðan starfsmanna og starfsandinn skiptir máli á vinnustaðnum. Stundum reynist það snúið fyrir stjórnendur. Þeir hafa sína jákvæðu og neikvæðu eiginleika og getur orðið á í sínu hlutverki líkt og öðrum. Stjórnendur sem viðurkenna mistök, t.d. þegar þeir hafa seint gripið inn í tiltekið mál, hlaupið á sig eða að ákvörðun þeirra hafi ekki reynst góð njóta gjarnan meiri virðingar í starfi.

Mikilvægt er fyrir stjórnendur að vera í góðu jafnvægi til að geta sinnt hlutverki sínu sem best en álagsbundnir þættir starfsins geta reynt á. Millistjórnendur eru gjarnan undir miklu álagi, kröfur koma að ofan frá yfirmönnum og einnig frá undirmönnunum og eru þeir oft í þröngri stöðu og upplifa pressu í hlutverki sínu. Í öllum þáttum verkahringsins eru stjórnendur fyrirmyndir undirmanna sinna og geta sett tóninn í samskiptum á vinnustaðnum. Þegar stjórnendur nota skap sitt sem stjórntæki eða mismuna starfsfólki skerða þeir traust undirmanna sinna. Slæmir stjórnunarhættir eins og ógnarstjórnun eða óútreiknanlegur eða afskiptalaus stjórnunarstíll hafa neikvæð áhrif á líðan og starfsánægju starfsmanna, starfsmannaveltu og þar af leiðandi árangur vinnustaðarins.

Aukin vitund starfsfólks

Vitundarvakning hefur átt sér stað á undanförnum árum um andlega heilsu og á sama tíma hefur umræða og vitund aukist um rétt fólks til að líða vel í vinnunni. Fjölgun sérfræðinga sem sinna fræðsluog mannauðsmálum og áhersla á forvarnir og bættar viðbragðsáætlanir á vinnustöðum tengdar sálfélagslegum áhættuþáttum í starfi hefur haft jákvæð áhrif á þekkingu starfsmanna á hvað felst í heilbrigðu starfsumhverfi og faglegum stjórnunarháttum.

Það búa ekki allir stjórnendur svo vel að hafa fagaðila innan vinnustaðar sem þeir geta leitað til til stuðnings í starfinu. Ábyrgð stjórnenda er mikil og eru þeir oft bundnir trúnaði er varðar undirmenn sína og ýmislegt í starfseminni og því ekki alltaf mögulegt að ræða mál inni á vinnustaðnum. Það getur auk þess reynst snúið að halda í hlutleysi og jafnræði í krefjandi starfsmannamálum, ólíkir hagsmunir mætast jafnvel og óöryggi kemur upp um hvaða leið eða aðferð skuli nota. Mörgum stjórnendum hefur reynst vel að fá aðstoð og hlutlausa nálgun á krefjandi hlutverk sitt. Stjórnendur sem leita sér handleiðslu fá t.d. hjálp við úrlausn snúinnar stöðu. Aðrir fá leiðsögn um hvernig þeir geta nýtt styrkleika sína betur í starfi. Til að mynda getur ráðgjöf og stjórnunarhandleiðsla leitt til bættra stjórnunarhátta, aukinnar starfsánægju og vellíðunar starfsfólks. Hægt er að leita til vinnusálfræðinga , stjórnendaþjálfara og annarra sérfræðinga. Ýmis námskeið og fyrirlestrar innan endurmenntunar háskólanna hafa einnig reynst mörgum stjórnendum vel til að styrkja sig í hlutverkinu.

Höfundur er sálfræðingur hjá Lífi og sál sálfræði- og ráðgjafastofu.