Undanfarið hefur stöðugur barlómur heyrst í sveitarstjórnarmönnum út um allt land. Margir vilja kenna ríkisvaldinu um allar sínar ófarir, en rekstur flestra sveitarfélaga er afskaplega slakur á þessu ári samkvæmt milliuppgjörum.

Það má segja að Kópavogur sé eins og vin í eyðimörkinni í þessu sambandi. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi kom á Hringbraut fyrir skömmu. Þar sagði hún margt sem var eins og englasöngur í eyrum Óðins.

Hún sagði að sveitarfélögin þurfi að líta í eigin barm hvað varðar erfiða rekstrarstöðu og of algengt sé að horft sé til ríkisins með aukið fjármagn þegar illa árar í rekstrinum. Ekki sé hægt að horfa eingöngu til málaflokka sem færst hafa frá ríki til sveitarfélaga án þess að nægilegt fjármagn fylgi.

„Mér finnst málflutningur okkar of oft snúast um að horfa til ríkisins í þessum efnum. En ég get ekki betur séð en að rekstur sveitarfélaga hafi þanist út almennt.“

***

Dúlluverkefnin

Ásdís segir að verkefnið framundan verði að styrkja grunnþjónustuna og standa vörð um lögbundna þjónustu.

„Við þurfum að forgangsraða. Líta á reksturinn í heild sinni og skoða hvaða þjónustu við erum að veita“

„Auðvitað er freistandi að fara í alls konar dúlluverkefni en við getum ekki endalaust verið að seilast í vasa skattgreiðenda. Það á auðvitað bæði við um sveitarfélög og ríkið.“

***

Staðreyndin er nefnilega sú að mörg sveitarfélög hafa tapað sér í dúlluverkefnum sem oft eru ekki lögbundin verkefni þeirra. Að auki hafa sveitarfélögin mikið svigrúm í mörgum lögbundnum verkefna þeirra. Dæmi um það eru íþrótta- og æskulýðsmál og bókasöfn.

Sérstök lög eru um bókasöfn sem bera heitið bókasafnalög. Í 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

Almenningsbókasöfn eru menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir reknar af sveitarfélögum. Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.

Í 1. og 2. mgr. 18. gr. er fjallað um fjármögnun bókasafna.

Framlög til almenningsbókasafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags.
Framlög til bókasafna í skólum og stofnunum og sérfræðisafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun viðkomandi skóla, stofnana eða eigenda sérfræðibókasafna.

Sveitarfélögin hafa því algjörlega í hendi sér hversu mikil þjónusta þar fer fram.

Nema Reykjavík því þar er reksturinn í slíkri rjúkandi rúst að meirihlutinn getur einfaldlega ekki lagt til lækkun.

***

Aðrir látnir greiða fyrir þjónustuna

Reykjavíkurborg ætlar samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir næsta ár að greiða niður rekstur Borgarbókasafns Reykjavíkur um 1,4 milljarð króna. Notendur þjónustunnar greiða aðeins 49 milljónir króna. Það þarf enginn að segja Óðni að ekki sé tækifæri til að hagræða í rekstri bókasafna, innleiða nýja tækni – til dæmis hljóðbækur í auknum mæli og fækka þar með starfsfólki.

Sömu sögu er að segja af Sundlaugum Reykjavíkur. Kostnaðurinn við þær árið 2023 er áætlaður 3,7 milljarðar króna. Þar af greiða notendurnir; íbúarnir, íbúar annarra sveitarfélaga og annarra landa, aðeins 1,1 milljarð. Hvers vegna er Bláa lónið rekið með gríðarlegum hagnaði en sundlaugar í Reykjavík með gríðarlegu tapi? Að hluta til vegna þess að reksturinn er lélegur en einnig vegna þess að notendurnir borga alltof lágt verð og þar af leiðandi eru þeir sem ekki nýta sér þjónustuna látnir borga.

***

Skattalækkanir á höfuðborgarsvæðinu, nema í Reykjavík

Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa boðað að lækka álagningarstuðul fasteignagjalda til móts við gríðarlega hækkanir á fasteignamati, svo fasteignaskattarnir hækki ekki umfram verðlag.

Nema Reykjavík því þar er reksturinn í slíkri rjúkandi rúst að meirihlutinn getur einfaldlega ekki lagt til lækkun. Hugur okkar hlýtur að vera hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík, sem mun fara jafn hratt niður í fylgi, eins og fylgið fór upp, þegar íbúar Reykjavíkur átta sig á því borgin er komin á vonarvöl.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. nóvember 2022.