*

miðvikudagur, 20. október 2021
Óðinn
12. september 2017 13:31

Enn af fátækt og ójöfnuði

Fátækt er hægt að útrýma með viðskiptafrelsi og kapítalisma. Raunverulegum jöfnuði er hins vegar aðeins hægt að koma á með sósíalisma.

epa

Óðinn hefur nokkrum sinnum fjallað um þá ofuráherslu sem margur vinstrimaðurinn leggur á tekjujöfnuð og skiptingu tekna milli mismunandi hópa í þjóðfélaginu. Óðinn telur að rangt sé að einblína á tekjuskiptingu í þeim mæli sem gert er. Eins og grínistinn Louis CK sagði við dóttur sína þá er aðeins ein ástæða til að skoða matardiskinn hjá öðru fólki – til að athuga hvort það hafi nóg að borða, ekki til að athuga hvort meira sé á disknum þeirra en hjá þér sjálfum. Með öðrum orðum þá skiptir fátækt máli, en ekki jöfnuður.

               ***

Skipting tekna milli þeirra efnameiri og þeirra efnaminni hefur verið sífellt meira í umræðunni og verða yfirlýsingar þeirra sem um hana fjalla sífellt harkalegri. Ganga menn jafnvel svo langt að spá hruni vestrænnar menningar sökum aukinnar misskiptingar auðs og tekna. Aðeins sé tímaspursmál hvenær pöpullinn leggi frá sér iPhone-símana, slökkvi á snjallsjónvarpinu, leggi Toyota-bílnum og þrammi með heykvíslar um bæinn.

               ***

Afar ólíklegt er að mati Óðins að þessi dómsdagsspá rætist, enda er það ekki ójöfnuður sem veldur byltingum, heldur fátækt. Raunveruleg fátækt. Og hvað varðar fátækt þá hefur þróunin síðustu áratugi verið kraftaverki líkust. Aldrei hefur fleira fólk lyft sér upp úr fátækt en einmitt á þessum tíma.

               ***

Algild og afstæð fátækt

Áður en haldið er áfram er rétt að fjalla eilítið um hugtakanotkun. Fátækt er hægt að skilgreina á mismunandi vegu, en í einföldu máli má segja að þar takist á tveir skólar. Annars vegar þeir sem vilja miða við algilda fátækt – þ.e. reynt er að slá á hvað fólk þarf hafa milli handanna sér til framfærslu og þeir sem hafa tekjur undir ákveðnu marki teljast fátækir.

Hins vegar er afstæð fátækt, þar sem fátækt er skilgreind sem tekjur undir ákveðnu hlutfalli af meðaltekjum eða miðgildi tekna í viðkomandi landi. Þessi skilgreining á fátækt hefur í raun lítið með raunverulega fátækt að gera. Mælingar á afstæðri fátækt eru, samkvæmt þessari aðferðafræði, í raun mælingar á tekjujöfnuði.

               ***

Þegar horft er á algilda fátæktarmælikvarða þá hefur árangurinn á heimsvísu verið gríðarlegur. Fólki sem býr undir fátæktarmörkum hefur fækkað um meira en helming á síðustu þrjátíu árum í heiminum öllum. Á síðustu tuttugu árum hefur fátæku fólki fækkað um réttan helming.

               ***

Það er ekki aðeins á þessum mælikvarða sem lífskjör fólks hafa verið að batna. Mjög hefur dregið úr dánartíðni barna og ólæsi og mengun í ríkari löndum hefur minnkað. Á milli áranna 1990 og 2015 lækkaði hlutfall vannærðra barna í heiminum úr 25% í 14%. Fjórtán prósent er ennþá allt of hátt hlutfall, en það breytir samt sem áður ekki þeirri staðreynd að gríðarlegur fjöldi barna er betur staddur en hann hefði verið fyrir tuttugu og fimm árum.

               ***

Jöfnuður hefur aukist á heimsvísu

Margir halda að samhliða þessum mikla samdrætti í fjölda fátækra hafi ójöfnuður aukist á heimsvísu. Það er hins vegar rangt. Tekjujöfnuður hefur aukist á heimsvísu og má gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram að minnsta kosti til ársins 2035 eftir því sem fátækari ríki heims auka auð sinn hraðar en þau ríkari. Jöfnuður hefur vissulega minnkað í mörgum þróaðri ríkjum, en sú þróun bliknar í samanburði við það sem verið hefur að gerast á heimsvísu.

              ***

Ótrúlega fáir eru meðvitaðir um þessa þróun. Aðeins sex prósent Breta telja að fátækt fari minnkandi í heiminum og í Bandaríkjunum er þetta hlutfall um 8%. Óðinn hefur ekki séð niðurstöður slíkra kannana meðal Íslendinga, en hann getur sér til um að við séum jafn svartsýn og aðrir Vesturlandabúar.

               ***

„Góða fólkið“

Philip Booth, prófessor í fjármálum við St. Mary’s háskóla í Bretlandi, segir að margar ástæður séu fyrir þessari svartsýni. Það sé hluti af mannlegu eðli að hefja fortíðina á hærri stall en nútímann og þá tökum við frekar eftir (og munum) dramatískari augnablikum en stöðugri þróun yfir lengri tíma. Þetta skýrir af hverju „hrunið“ er ennþá jafn ráðandi í umræðunni hér á landi, þrátt fyrir að íslenska hagkerfið sé fyrir löngu búið að jafna sig á því sem gerðist á haustmánuðum 2008.

               ***

Booth segir einnig að fleiri sálfræðilegir þættir ráði för. Þeir sem gagnrýni stöðuna eins og hún er í dag virðast hafa siðferðið á sínu bandi, á meðan þeir sem eru sáttir við stöðuna virðast ekki hafa áhuga á umbótum. Á þessu nærast vinstrimenn og flokkar eins og Píratar.

Með því að hamra á því hversu skelfileg staðan er og hvað allir hafa það ömurlegt þá virðast þeir – í augum margra kjósenda – vera einhvern veginn betri en kaldlyndu hægrimennirnir sem reyna að benda þeim á að hlutirnir eru bara alls ekki svo slæmir og að þeir séu hægt og rólega að verða betri og betri.

               ***

Kína og Írland

Óðinn vill nefna tvö dæmi til að sýna betur hversu skökk þessi ofuráhersla á jöfnuð í raun og veru er.

               ***

Fyrst ber að nefna Kína. Árið 1981 lifðu um 88% Kínverja á minna en 1,9 dal á dag á verðlagi ársins 2011, en árið 2012 var hlutfallið komið í 6,5%. Meðaltekjur á mann í Kína voru 200 dalir á ári árið 1990, en voru orðnir 1.000 dalir árið 2000 og 5.000 dalir árið 2010. Þessa ótrúlegu þróun má þakka efnahagsumbótum í frelsisátt sem hófust seint á áttunda áratug síðustu aldar. Um 75% af fækkun fátækra í heiminum eru til komin vegna þessara umbóta í Kína.

               ***

Samhliða þessu hefur ójöfnuður aukist í Kína, enda má segja að fyrir umbótatímann hafi Kínverjar verið nokkuð jafnfátækir (ef horft er framhjá háttsettum meðlimum kommúnistaflokksins að sjálfsögðu). Eftir því sem kínverska þjóðin hefur efnast hafa sumir Kínverjar efnast hraðar en aðrir. Það þarf hins vegar afar sérstaka afstöðu til góðs og ills til að halda því fram að þróunin hafi verið slæm.

               ***

Það er í raun ekki erfitt að auka jöfnuð. Síðara dæmið skýrir það mjög vel. Eftir að fjármálakreppan hófst haustið 2008 varð algert hrun í írska hagkerfinu. Atvinnuleysi þrefaldaðist og fór í 14%. Laun voru lækkuð harkalega bæði í opinbera og einkageiranum og fátækt jókst hratt.

Árið 2009 var um þriðjungur Íra í vanskilum við veitufyrirtæki eða aðra grunnþjónustu. Á sama tíma minnkaði ójöfnuður samkvæmt Gini-stuðlinum vegna þess að tekjur hinna tekjuhæstu drógust saman. Rétt eins og í tilviki Kína þarf afar undarlega sýn á heiminn til að sjá þessa þróun í jákvæðu ljósi.

               ***

Það segir líka margt um hina afstæðu mælingu á fátækt að eftir því sem miðgildi launa í Kína hefur hækkað þá er í raun auðveldara að mælast fátækur þar í landi. Manneskja með 500 dali í árslaun árið 1990 í Kína hefði verið í hópi tekjuhærri einstaklinga, enda með 2,5-föld meðallaun, en hefði eflaust talist fátæk árið 2010, enda væru tekjur hennar þá aðeins um 10% af meðallaunum. Þetta er allt á föstu verðlagi, þannig að kaupmáttur manneskjunnar hefði ekki breyst mikið á tímabilinu, en flokkun hennar hefði hins vegar tekið miklum stakkaskiptum.

               ***

Að sama skapi hafa eflaust einhverjir Írar hætt að teljast „fátækir“ á árunum eftir hrunið einfaldlega vegna þess að miðgildi tekna þar í landi lækkaði. Þetta er fáránleg nálgun á raunverulegt vandamál.

               ***

Fátækt er raunverulega vandamálið

Fátækt er nefnilega vandamál og hún er vandamál sem okkur ber siðferðileg skylda til að leysa. Það gerum við með því að auka frelsi í viðskiptum, auka – frekar en að draga úr – hnattvæðingu og styrkja einkaeignarréttinn alls staðar í heiminum. Reynslan hefur sýnt að þetta er langbesta leiðin til að draga úr fátækt til framtíðar og í raun sú eina sem hefur skilað teljandi árangri á heimsvísu.

               ***

Í raun er sú ofuráhersla sem lögð er nú á jöfnuð til marks um þann mikla árangur sem þó hefur náðst í baráttunni við fátækt í heiminum. Vinstrimenn eiga afar erfitt með að kenna kapítalisma og frjálsum viðskiptum um „arðrán“ í þriðja heiminum, enda fækkar hratt fátæku fólki í þeim heimshluta.

Þess vegna þurfa vinstrimenn að finna sér annan djöful að berjast við. Ójöfnuður í vestrænum hagkerfum varð fyrir valinu. Munurinn á þeim kölska og raunverulegri fátækt er sá að fátækt er hægt að útrýma með viðskiptafrelsi og kapítalisma. Raunverulegum jöfnuði er hins vegar aðeins hægt að koma á með sósíalisma.

               ***

Jöfnuður hefur eflaust aukist töluvert í Venesúela undanfarna áratugi. Vert er að velta því fyrir sér hvort stefna þarlendra stjórnvalda hafi verið farin til fjár eður ei.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.