Ein elsta birtingarmynd af fyrirhyggju er að passa upp á útsæðið. Sá sem ekki á útsæði uppsker ekki að hausti. Svo einfalt er það. Það má yfirfæra útsæðið á ýmislegt í samtímanum. Meira að segja loftslagsmál. Við getum gripið til aðgerða í dag sem skila okkur miklum ávinningi á komandi árum. Við getum líka gripið til aðgerða sem munu hugsanlega skila ávinningi til skamms tíma en ekki til lengri tíma. Það má líkja því við að borða útsæðið. Þannig háttar til í sjávarútvegi að fjárfestingar í nýrri tækni munu skila sér hratt og örugglega í minni umhverfisáhrifum af fiskveiðum. Augljóst er að nefna ný og sparneytnari skip og umhverfisvænni kælimiðla. Vilji stjórnvöld sjá breytingar til batnaðar á kolefnisfótspori landsins er vís leið að gera fyrirtækjum kleift að fjárfesta. Ekki bara í sjávarútvegi.

Freisting stjórnmálamannsins er oft og tíðum sú að skattleggja sig út úr vanda. Þessi söngur hefur heyrst óþægilega oft í tengslum við loftslagsmálin. Ráðamenn hafa reyndar fallist á þá hugmynd að rétt sé að fella niður ákveðin gjöld á vistvænum bílum og er það vel. Margir hafa séð sér leik á borði og fjárfest í blendingum eða jafnvel hreinum rafmagnsbíl, vegna þess að verðið hefur verið viðráðanlegt. Þarna er augljóst dæmi um það sem skilar árangri til lengri tíma, þótt fórna verði einhverjum krónum í upphafi. Það má vænta töluverðs árangurs ef sambærilegri hugsun væri beitt vegna grænna fjárfestinga í sjávarútvegi. Eitt skip getur brennt olíu á við hundruð bíla og því er eftir miklu að slægjast við endurnýjun skipastóls. Stjórnvöld verða því að beita hyggjuviti þegar ákveðið er hvernig skuli fara með útsæðið.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.