Minnst var á eignarhald fjölmiðla hér um daginn og vöngum velt yfir því hvort og hvernig eigendavaldið smitaðist yfir í ritstjórnarefnið.

Í því samhengi var minnst sérstaklega á Fréttablaðið, hvernig eigendur þess hefðu skefjalaust beitt blaðinu í eiginhagsmunaskyni, bæði viðskiptaerindum og ýmsum snúningum öðrum, en þó ekki síst við málsvörn sína í sakamálum. – Og þá var alveg óminnst á hvernig starfsmönnum var haldið við efnið, en þar hafa bæði ritstjórar og óbreyttir mátt fjúka fyrir það eitt að auðsýna ekki næga undirgefni.

***

Enginn getur þó efast um eigendavaldið hvað þetta áhrærir; það er ekki hægt að pína fólk til þess að halda úti fjölmiðlum, sem eru því andsnúnir eða starfsmennirnir fara bara sínu fram. En reglan er einföld: Eigandi ræður ritstjóra og þeir koma sér saman um eðli miðilsins og ritstjórnarstefnu. Eigandinn skiptir sér ekki að öðru leyti að ritstjórninni.

Eða þannig á það að vera. En ef eigendurnir hegða sér öðru vísi: eru að skipta sér af fréttaskrifum, koma með „ábendingar“ um viðtalsefni, segja blaðamönnum fyrir verkum, eru með handlangara inni á ritstjórnum, ráða menn og reka eftir geðþótta o.s.frv., þá segir það sig sjálft að miðillinn er að þjóna hagsmunum eða dyntum eigendanna, fremur en að halda trúnað við almenning.

Þannig fjölmiðlar eru lélegir, óáreiðanlegir og ótrúverðugir. Og þegar þeir glata trúnaði almennings, þá verða þeir einnig lélegri fyrirtæki, þegar tekjurnar — hvort heldur er af auglýsingasölu eða áskrift —taka óhjákvæmilega að dragast saman.

Eins verður erfiðara fyrir þá að haldast á sæmilegum mannskap og talsvert dýrara að ráða almennilegt fólk, sem þekkir hvernig geðþótti eigendanna getur gert starfið óþolandi, gert út um það og jafnvel gert út af við starfsheiður viðkomandi.

En vilji eigendurnir reka fjölmiðil með þeim hætti og finni þeir fólk, sem vill vinna upp á þau býti, þá er ekkert við því að segja. Svo fremur sem almenningur kærir sig um miðilinn.

***

Þá er að vísu óræddur vandinn við frímiðla, sem dreift er án beins kostnaðar til neytenda.

Það bíður betri tíma, en samt er rétt að minnast þess sem Gunnar Smári Egilsson sagði um Fréttablaðið við stofnun þess, að það væri gestur á heimilum, kæmi óboðið í hús og þyrfti því að gæta sérstakrar hógværðar og tillitssemi gagnvart lesendum sínum.

Það er hárrétt athugað, alveg burtséð frá því hversu vel Fréttablaðinu tókst upp við að framfylgja þeim hegðunarreglum.

***

Þetta rifjast upp nú þegar Fréttatíminn er í dauðateygjunum. Það hafði komist á legg með aðhaldsemi í rekstri og hógværð í ritstjórnarstefnu, gefið út einu sinni í viku sem helgarlesning.

Þegar Gunnar Smári tók þar við ritstjórninni í árslok 2015 voru ráðnir nýir, dýrir starfsmenn og mikil áform uppi um vöxt og útvíkkun. Mögulega var það bara aukin útgáfutíðni á takmörkuðum auglýsingamarkaði sem varð blaðinu aldurtila. Fjölmiðlarýnir er þó frekar á því að það hafi verið breytingin á ritstjórnarstefnunni, sem reið baggamuninn.

Í stað hógværðar og tillitssemi fór þessi óbeðni gestur að sýna uppivöðslusemi með móraliseringum og pólitísku trúboði við lesendur. Svoleiðis blöð geta vel átt erindi, en ekki sem helgarblöð í frídreifingu til alls almennings. Nóg eru leiðindin samt.

***

Nú er það svo að það var ritstjórinn (og sósíalistaleiðtoginn!) Gunnar Smári, sem réði þessari stefnubreytingu, ekki eigendurnir. Eða jú, því Smári var stærsti eigandi útgáfunnar samhliða ritstjórastarfinu (sem ekki er óalgengt). En hann var ekki meirihlutaeigandi.

Fram hefur komið að aðrir eigendur – stórgrósserar og kapítalistar allt – hafi verið andsnúnir þessari ritstjórnarstefnu. Hún hafi raunar verið ástæða þess að þeir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson losuðu sig við sinn hlut í upphafi árs.

Hins vegar virðist sem þeir hafi haldið þeim skoðunum mjög fyrir sjálfa sig. Út á við sögðu þeir a.m.k. ekkert um það og fjölmiðlarýni skilst að hvorki þeir né aðrir eigendur hafi reynt að hafa minnstu áhrif á ritstjórnina, þó þeir hafi sennilega fært þetta í tal við Smára án árangurs.

En það má alveg spyrja hvort þeir hefðu ekki átt að beita eigendavaldinu. Hvort þeir hefðu ekki átt að taka í taumana, fækka útgáfudögum áður en í óefni var komið, banna trúboðið og/eða láta ritstjórana fjúka.

Þá væru hugsanlega ekki á annan tug starfsmanna blaðsins í algerri óvissu, margir ekki búnir að fá launin sín og allt í voða.

Þessi fjölmiðlarýni birtist í Viðskiptablaðinu 27. apríl 2017.