*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Huginn og muninn
10. júlí 2021 08:58

Enski boltinn á metfé?

Vænta má þess að Síminn hafi þurft að bjóða nokkuð hærra verð en síðast til að halda Viaplay frá réttinum enska boltanum á Íslandi.

Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Haraldur Guðjónsson

Ljóst er að Síminn með Orra Hauksson í brúnni hefur lagt mikið kapp á að halda í enska boltann. Félagið hafði betur í baráttu við Sýn og norrænu streymisveituna Viaplay um sýningarréttinn fram til ársins 2025. Margir væntu þess að Viaplay myndi hirða réttinn. Viaplay hefur að undanförnu sótt flesta þá sýningarrétti á íþróttum sem verið hafa á lausu á Íslandi, en margar þeirra hafa verið á Stöð 2 Sport um árabil. 

Viaplay er fyrir með sýningarétt á enska boltanum á Norðurlöndunum. Í vikunni tilkynnti Viaplay að félagið hefði einnig nælt sér í enska boltann í Hollandi, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum fram til ársins 2028.

Enski boltinn hefur átt stóran þátt í auknum vinsældum sjónvarpsþjónustu Símans, en félagið sagði frá því á sínum tíma að um 40% af heimilum landsins hefðu aðgang að enska boltanum í gegnum Símann.

Útboðið um enska boltann hér á landi fór í þrjár umferðir og vænta má að Síminn greiði þó nokkuð hærra verð en í síðasta útboði, sem fór fram árið 2018. Þá voru stjórnendur Sýnar, sem Heiðar Guðjónsson stýrir, súrir með niðurstöðuna, en sagt var að boð Sýnar hefði numið 1,1 milljarði króna fyrir þriggja ára sjónvarpsrétt.

Sýn kvartaði í kjölfarið til Samkeppniseftirlitsins vegna pakkatilboða Símans sem innihéldu enska boltann. Eftirlitið brást við með því að sekta Símann um 500 milljónir króna, þar sem félagið hefði brotið gegn sátt við eftirlitið. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektina í 200 milljónir króna og vænta má þess að dómstólar þurfi að lokum að skera úr um í málinu.

Hrafnarnir eru því enn spenntari fyrir baráttunni utan vallar en því sem gerist á vellinum

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.