*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Jóhannes Jóhannesson
19. júní 2021 13:34

Er 24% virðisaukaskattur að ýta undir skattsvik?

Ljóst er að þegar almenningur hafði kost á því að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af viðgerðum fólksbíla þá leitaði það frekar til fagaðila.

Haraldur Guðjónsson

Líkt og í bankahruninu 2008 þá fóru stjórnvöld af stað með verkefnið Allir vinna þegar heimsfaraldur vegna  COVID-19  skall á og fyrir tilstuðlan Bílgreinasambandsins var bílgreinin nú þátttakandi í verkefninu ólíkt því sem var 2008 og neytendur hafa því getað sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðgerðum á fólksbifreiðum sínum. Nú hafa um 19.700 beiðnir verið lagðar inn og um 360 milljónir endurgreiddar vegna viðgerða á fólksbifreiðum og á þeim eftir að fjölga þar sem átaki lýkur ekki fyrr en um næstu áramót.

Sé horft til atvinnuleysis þá er það mikið gleðiefni að atvinnuleysi í bílgreininni jókst tiltölulega lítið í þeim samdrætti sem varð vegna  COVID-19  ólíkt því sem var raunin í hruninu 2008 og um leið og atvinnuleysi jókst 2008 þá blómstraði svarta hagkerfið svokallaða enda leitaði fólk allra mögulegra leiða til að finna ódýrari lausnir í rekstri og viðhaldi, þar á meðal á bifreiðum.

Framþróun og tækni bifreiða er svo ör að það er vart hægt að fylgjast með og kallar það á mikla endurmenntun til að viðhalda þekkingu þeirra sem sinna viðgerðum og viðhaldi bifreiða, mikilvægi þekkingar og faglegra vinnubragða er lykilatriði til að tryggja öryggi í umferðinni. Ófagleg vinnubrögð gerð af vankunnáttu geta hreinlega stefnt lífum í hættu ásamt því að þeir sem ekki hafa leyfi til reksturs greiða því ekki virðisaukaskatt eða önnur opinber gjöld af sinni þjónustu og útseldri vinnu en þessu þarf að útrýma úr bílgreininni.

Þá er komið að spurningunni hvort 24% virðisaukaskattur af viðgerðum og viðhaldi bifreiða sé ekki of hár og til þess fallinn að reynt sé að komast hjá því að greiða skatt og hreinlega ýta undir svarta atvinnustarfsemi. Ætti skattprósenta hugsanlega af þessari þjónustu að vera 11% samkvæmt lægra skattþrepi virðisaukaskatts?

Þessa reynslu sem skapast hefur í því ástandi sem varð vegna COVID-19 og þau úrræði sem stjórnvöld settu á laggirnar ætti að nýta til lærdóms og að móta framtíðina. Sé horft til bílgreinar þá má draga þá ályktun að atvinnuleysi hafi ekki aukist mikið þrátt fyrir samdrátt á ýmsum sviðum og má það að miklu leyti þakka því að um leið og  Íslendingar  ferðuðust  innanlands þá jókst þörf á viðhaldi bifreiða og leitað var til fagaðila frekar en að ódýrustu lausninni. Það hefði ekki verið raunin ef ekki hefði verið um að ræða endurgreiðslu á virðisaukaskatti  vegna átaksins Allir vinna að mati Bílgreinasambandsins.

Öryggi í umferðinni er okkur öllum ofarlega í huga og það er erfitt að hugsa til þess að þegar kemur að viðhaldi bifreiða, sem flytja það sem er okkur dýrmætast, þá sé fólk að leita leiða til að framkvæma viðgerðir og viðhald á sem ódýrastan hátt og hlutfall skatts í formi virðisauka sé það hátt að það hefur áhrif á ákvörðunartöku vegna viðhalds og viðgerða á bifreiðum. Ekki liggja fyrir  áreiðanlegar  tölur um hversu miklar upphæðir eru greiddar  framhjá  skattkerfi í bílgreininni en leiða má líkur að því að sú upphæð skipti hundruðum milljóna á ári.

Ljóst er að þegar almenningur hafði kost á því að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af viðgerðum fólksbíla þá leitaði fólk eftir þjónustu hjá fagaðila sem um leið tryggði fagleg vinnubrögð, öryggi vegfaranda í umferðinni sem seint verður metin til fjár ásamt því að tryggja atvinnu. Þegar horft er til fyrrgreindra atriða þá ætti að vera ljóst að 24% virðisaukaskattur er of hár og hreinlega til þess fallinn að ýta neytendum í að leita annarra leiða, ódýrari en um leið áhættusamari leiða sem snerta okkur öll, líka þá sem greiða fyrir vinnu og þjónustu með virðisaukaskatti hjá fagaðilum með þekkingu og færni.  Bílgreinasambandið hvetur því stjórnvöld til að huga að því og skoða hvort það að færa þessa þjónustu í lægra skattþrep myndi ekki á endanum auka tekjur ríkisins þar sem svört atvinnustarfsemi myndi stórlega minnka og greiddur yrði skattur af fleiri verkum ásamt því að atvinna yrði enn frekar tryggð með tilheyrandi greiðslu tekjuskatts og neyslu.

En ekki síst með öryggi okkar allra í umferðinni að leiðarljósi því þar er okkar sameiginlegi vettvangur sem ekki er metinn til fjár en eins og staðan er í dag þá er 24% virðisaukaskattur að hafa bein áhrif á okkur og öryggi okkar.

Höfundur er staðgengill framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.