Við lifum í stafrænum heimi þar sem sveigjanleiki og aðlögunarhæfni er orðið hið nýja „norm“. Krafan um að fólk geti afgreitt sig sjálft hefur aukist samhliða því að krafa um aukinn hraða og bætta þjónustu eykst. Fólk gerir orðið kröfu á klæðskerasniðna þjónustu, hvar og hvenær sem er.

Stjórnendur í dag verða að taka mið af þessum öru breytingum, hafi þeir ekki gert það nú þegar, því sagan hefur sýnt sig að þau fyrirtæki sem aðlagast og taka þátt í að leiða breytingarnar, og fylgja þeim svo vel eftir, eru þau sem munu lifa af og munu jafnvel ná að skapa sér sérstöðu í þeirri gríðarlegu samkeppni sem nú ríkir í heiminum.

Eitt af því sem stjórnendur þurfa að gera, til að mæta þessari alþjóðlegu samkeppni, er að endurhugsa núverandi viðskiptamódel og reyna að finna nýjar leiðir til að þróast í takt við þarfir markaðarins. Oft leiðir þessi framtíðarsýn fyrirtæki í stafræna vegferð og vöruþróun þar sem slík þjónusta uppfyllir þarfir viðskiptavina, stuðlar að aukinni hagræðingu innan fyrirtækja og eykur þjónustustig.

Það eru nokkrar gagnlegar leiðir fyrir stjórnendur til að greina hvar tækifærin liggja. Þarfagreining er ein aðferð til að greina möguleg viðskiptatækifæri, hugarflugsfundir (e. brainstorming) með lykilaðilum innan fyrirtækisins og/eða viðskiptavinum er önnur leið og svo hafa sum fyrirtæki brugðið á það ráð að halda svokölluð hakkaþon til að fá nýjar hugmyndir að lausnum en hakkaþon er í raun nýsköpunarkeppni þar sem þverfagleg teymi vinna saman í afmarkaðan tíma við að finna lausnir á raunverulegum áskorunum sem lagðar eru fram af tilteknu fyrirtæki.

Það er hins vegar staðreynd að fyrirtæki eru misvel í stakk búin til að takast á við þær breytingar sem nefndar eru hér að ofan. Stærð fyrirtækja,  strúktúr, menning, tækniþekking og svo framvegis getur allt haft þau áhrif að fyrirtæki þurfi á aðstoð að halda í sinni stafrænu vegferð. Skilningur á stafrænum viðskiptum er grundvöllur árangursríkrar stefnu fyrir öll fyrirtæki. Það skiptir miklu máli að móta stafræna stefnu fyrirtækisins til framtíðar og forgangsraða verkefnum út frá því.

Þetta eru oft á tíðum kostnaðarsöm verkefni og því skiptir lykilmáli að farið sé í rétta verkefnið á hverjum tíma þannig að fyrirtæki geti markað sér þessa margoft nefndu sérstöðu. Fyrirtæki þurfa að vera tilbúin að hugsa hlutina upp á nýtt og prófa nýjar leiðir við þróun og framkvæmd stafrænna lausna.

Atburðir síðastliðinna mánaða hafa enn frekar ýtt stoðum undir nauðsyn þess að fyrirtæki búi yfir góðum stafrænum lausnum því krafan um að geta afgreitt sig heima á fjölmörgum sviðum hefur aldrei verið meiri en nú.

Það hefur sýnt sig að verslun í gegnum netið, hvort sem um er að ræða sölu á fatnaði, tækjum og tólum eða matvöru hefur aukist til muna undanfarna mánuði. Notkun stafrænna lausna hjá fjármálastofnunum og tryggingafélögum hefur einnig aukist með tilkomu nýrra sjálfsafgreiðslu lausna og svona mætti lengi telja. Notendur eru tilbúnir að hoppa á vagninn og nota þessar lausnir en er þitt fyrirtæki í stakk búið til að bjóða upp á þær?

Höfundur er ráðgjafi í stafrænni stefnumótun og vöruþróun fyrirtækja.