*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Huginn og muninn
13. júlí 2018 12:44

Er Benedikt búinn að fá nóg af pistlum?

Ekkert allt of fínlegri árás á Davíð Oddson í pistli Benedikts í Morgunblaðinu verður eflaust svarað í Reykjavíkurbréfi á næstunni.

Benedikt Jóhannesson er stofnandi og fyrrverandi formaður Viðreisnar og fyrrum fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Jóhannesson, hinn fallni stofnandi Viðreisnar, er víst ekki dauður úr öllum æðum, því hann skrifar enn pistla á miðopnu Morgunblaðsins um helstu hugðarefni sín. Af þeim síðasta má þó ráða að e.t.v. sé Bensi búinn að fá nóg af þeim líka.

Einu sinni sem oftar voru Evrópumálin umfjöllunarefnið, svona á yfirborðinu altjent. Á milli línanna var hins vegar ekkert alltof fínleg árás á Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, fyrir að harma ekki nógsamlega ólguna í Evrópu og vera ekki nógu mikill Evrópusambandssinni.

Til þess að undirstrika dásemdir Evrópusambandsins vitnaði Benedikt til orða Winstons heitins  Churchill, sem vitað er að Davíð hefur mikið dálæti á, um sameiningu Evrópuríkja.

Benedikt sleppti hinu hins vegar alveg, að geta þess að þó að Churchill hefði talið ríkjasamruna á meginlandinu, sérstaklega hvað varðaði samvinnu Þjóðverja og Frakka, ákjósanlega leið til þess að fyrirbyggja frekari hildarleiki í álfunni, þá undanskildi hann Bretland ævinlega í þeim efnum. Varla er að efa að lesa megi nánar um það í bráðlegu Reykjavíkurbréfi.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.