*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Guðjón Á. Guðjónsson
30. desember 2018 14:38

Er ferðaþjónustan alvöru?

Pólitískur óstöðugleiki hefur ekki hjálpað til við að móta skýra framtíðarsýn og enn síður skyndihugdettur í aðdraganda kosninga.

Haraldur Guðjónsson

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur vaxið hratt undanfarin ár og sjálfsagt óraði engan fyrir þessum mikla vexti þegar eldgos hófst í Eyjafjallajökli vorið 2010. Íslenskt samfélag var illa statt eftir einhverjar mestu efnahagshamfarir seinni tíma sem herjað hafa á eina þjóð með lamandi efnahagslegum áhrifum. Venjulegt fólk vissi ekki hvort fasteignin sem það bjó í var þeirra eða bankanna, atvinnuleysi var mikið, margir fluttu af landi brott í leit að vinnu og betra lífi á erlendri grund. Vonleysið var yfirgnæfandi. Bjargvætturinn var hinsvegar eldfjall á Suðausturlandi sem átti eftir að vera í öllum fréttum á öllum helstu fjölmiðlum heimsins á bjagaðri erlendri tungu, Eyjafjallajökull, sennilega mesta landkynning sem Ísland hefur fengið frá því að Hófí var valin ungfrú heimur árið 1985.

Áhrifin af gosinu voru mikil. Flugsamgöngur fóru úr skorðum, ekki bara hér á Íslandi heldur um alla Evrópu. Umfjöllun um Ísland var í öllum erlendum fjölmiðlum og athyglin á landinu mikil. Þessi fjölmiðlaumfjöllun var að mestu á neikvæðu nótunum enda mikið um tafir á flugáætlunum og pirringur ferðalanga beindist því að Íslandi. Þrátt fyrir neikvæða umfjöllun var þessi tímapunktur upphafið að miklum uppgangi ferðaþjónustunnar á Íslandi. Umfjöllun allra helstu erlendra fjölmiðla um eldgosið í Eyjafjallajökli beindi athyglinni að þessari mögnuðu náttúruparadís í norðri og kveikti áhuga ferðalanga alls staðar að úr heiminum ásamt uppgangi samfélagsmiðla. Það er því athyglisvert að skoða þróun ferðaþjónustunnar á Íslandi undanfarin 7-8 ár þrátt fyrir neikvæða byrjun.

Þessi mikli uppgangur greinarinnar hefur gert hana að stærstu atvinnugrein landsins sem skilað hefur þjóðarbúinu gríðarlegum tekjum svo ekki sé minnst á auknar tekjur hins opinbera. Ferðaþjónustan skilar tugum milljarða í ríkissjóð ár hvert. Í greininni vinna um 30 þúsund manns í fjölbreyttum og mismunandi störfum hjá litlum eða stórum fyrirtækjum, sumum rótgrónum, öðrum nýjum og síðast en ekki síst þáttur hennar stór í að efla efnahagslíf og fjölbreytni þess á landsbyggðinni. Um helmingur af öllum nýjum störfum frá 2011 (ca. 20 þús.), hefur orðið til í ferðaþjónustu og afleiddum greinum samkvæmt greiningu Íslandsbanka.  Þar að auki hefur hlutur ferðaþjónustunnar í gjaldeyristekjum þjóðarinnar vaxið úr 26% árið 2013 í yfir 42% árið 2017 og nú er svo komið að ferðaþjónustan skilar nánast því sama í gjaldeyristekjur og sjávarútvegur og stóriðja til samans. Ísland var enn í sárum eftir hrunið þegar vöxtur ferðaþjónustunnar byrjaði og óhætt að segja að þessi atvinnugrein hafi átt stærstan þátt í því að koma þjóðinni úr djúpri kreppu yfir í myndarlegt hagvaxtarskeið ásamt því að byggja upp hreinan gjaldeyrisforða fyrir Seðlabanka Íslands og gera honum kleift að opna landið fyrir frjálsum viðskiptum á ný. 

Tugprósenta vöxtur á hverju ári er ekki eðlilegur til lengri tíma litið enda fyrirséð að hægja mun á stækkun greinarinnar á næstu árum. Hinsvegar hefur þessi mikli vöxtur ferðaþjónustunnar á svo skömmum tíma haft töluverða vaxtarverki í för með sér, ekki bara innan greinarinnar sjálfrar heldur einnig hjá yfirvöldum sem hafa átt erfitt með að skilja mikilvægi greinarinnar og ekki síður að móta skýra framtíðarstefnu m.t.t. ferðaþjónustunnar sjálfrar og áhrif hennar á samfélagið allt. Gott dæmi um það er að enn er ekki til sérstakt ráðuneyti um þessa stærstu atvinnugrein þjóðarinnar þrátt fyrir að full ástæða sé til, af nógu er að taka.

Pólitískur óstöðugleiki og tíðar kosningar undanfarin ár hafa ekki hjálpað til við að móta skýra framtíðarsýn og enn síður alls kyns skyndihugdettur í aðdraganda kosninga. Aukin skattlagning og álögur á greinina virðast oftast vera eina hugmyndafræði þeirra sem með völdin fara (náttúrupassi, komugjöld o.fl), þrátt fyrir að styrking krónu og gríðarlegar launahækkanir, leiddar áfram af hinu opinbera, hafi dregið arðsemi greinarinnar verulega niður og skekkt samkeppnishæfni gagnvart öðrum þjóðum og okkar helstu keppinautum.

Nú þegar talsvert hefur blásið á móti og erfiðleikar ferðaþjónustunnar komið í ljós virðist sem mikilvægi hennar fyrir íslenskt samfélag hafi runnið upp fyrir ráðamönnum og því mikilvægt að skýr framtíðarstefna sé mótuð. Markmið þeirrar stefnu þarf að hlúa að greininni og byggja hana upp til framtíðar án aukinnar skattheimtu sem eingöngu dregur úr uppbyggingunni. Það höfum við áður gert í sjávarútveginum sem er fyrirmynd flestra annarra ríkja enda sjálfbær og ekki upp á hið opinbera komin. Mikilvægt er að samvinna ferðaþjónustunnar og stjórnvalda sé í fyrirrúmi í þeirri vinnu.

Jákvæð skref hafa verið stigin að undanförnu með stofnun stjórnstöðvar ferðamála, afnám hækkunar virðisaukaskatts úr 11% í 24% o.fl., en við eigum enn langt í land enda umfang ferðaþjónustunnar sem stærstu atvinnugreinar þjóðarinnar nýtilkomið og því mikilvægt að vanda til verka. Betur má ef duga skal.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hópbíla.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar en í því var ítarleg umfjöllun um ferðaþjónustuna. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst askrift@vb.is.

Stikkorð: ferðaþjónusta
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.