*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Óðinn
8. október 2018 12:20

Er fjölmiðlun styrkur í fjölmiðlastyrkjum?

Vandinn er sá að þetta örlæti á fjármuni skattgreiðenda virðist ekki hafa skilað sér sérlega vel.

Haraldur Guðjónsson

Vandræði fjölmiðla hafa verið til nokkurrar umfjöllunar liðnar vikur og raunar miklu lengur. Á fjölmiðlamarkaði – hér á Íslandi sem annars staðar – hafa staðið yfir mikil umbrot í rúmlega áratug, nýir miðlar hafa rutt sér rúms og margir hinna gömlu gefið upp öndina. Gríðarlegar tæknibreytingar og nýtt neyslumynstur hafa gerbreytt fjölmiðlun, svo mjög að menn óttast afleiðingar þess fyrir samfélagið og lýðræðið sjálft, sem sumir telja að eigi af ýmsum ástæðum undir högg að sækja þessi árin.

                                                                ***

Við þessu hafa menn viljað bregðast, en líkt og oftast hefur menn greint á um leiðirnar til þess. Flestir hafa þó verið þeirrar skoðunar að treysta verði stoðir hefðbundinnar og áreiðanlegrar fjölmiðlunar, freista þess að gera rekstrarumhverfi þeirra betra og um leið að stemma stigu við falsfréttum. Sú afstaða er reist á raunverulegum vanda, en einnig blandast þar inn í ýmsir aðrir hagsmunir, bæði fjárhagslegir og pólitískir. Svona í bland við hefðbundnar áhyggjur af því að heimur fari enn versnandi.

                                                                ***

Því verður ekki mótmælt að undanfarin ár hefur þrengt mjög að hefðbundnum fréttaflutningi, tekjur hinna hefðbundnu fjölmiðla hafa dregist mikið saman með þeirri afleiðingu að sumir þeirra hafa aflagst, en nær allir hafa þeir þurft að draga saman seglin með þeirri afleiðingu að fréttaflutningurinn getur orðið yfirborðskenndari og ekki jafnvandaður og menn vildu. Af þeim ástæðum óttast margir að upplýsingu almennings sé ógnað, en hún sé einmitt hið sérstaka hlutverk fjölmiðla í samfélaginu í bland við margrómað eftirlitshlutverk 4. stéttarinnar, sem sé virku og góðu lýðræðisþjóðfélagi bráðnauðsynlegt. Ekki síst auðvitað þegar vofa pópúlismans gengur ljósum logum yfir álfurnar, ólga á heimavelli og óvissa á alþjóðavettvangi hafi sjaldan verið meiri.

                                                                ***

Áður en fjallað er um hvað kunni að vera til ráða er þó rétt að reyna að komast að niðurstöðu um markmiðin, þannig að þau sé bæði ljós og almenn sátt um þau. Óðinn gengur út frá því, að frjáls og óháð, fjölbreytileg og virk miðlun frétta og þjóðmálaumræðu – bæði til upplýsingar almennings og aðhalds gagnvart stjórnvöldum og öðrum valdaöflum – sé nauðsynlegt til þess að frjálst lýðræðissamfélag fái þrifist. Svo nauðsynlegt að þar ræði um almannagæði, sem beri að verja og hlúa að.

                                                                ***

En það er engan veginn sama hvernig það er gert.

                                                                ***

Helsta vörn fjölmiðla felst í tjáningarfrelsinu, að fjölmiðlar þurfi ekki að eiga erindi sitt og lífvænleik undir neinum nema almenningi – lesendum, áheyrendum og áhorfendum. Um það er ekki mikill ágreiningur, í orði að minnsta kosti, en meira um það síðar. En það er hvernig hlúð skuli að fjölmiðlunum, sem er snúnara. Hvert er hlutverk ríkisvaldsins í því, hverjar ef nokkrar eru skyldur skattgreiðenda hvað það áhrærir, og hvernig er gagnkvæmum skyldum fjölmiðlanna háttað?

                                                                ***

Hér á Íslandi hefur reglubinding fjölmiðla aukist mikið á umliðnum árum, þó vissulega hafi einnig komið í ljós að þeir fara mjög misvel að lögum og reglum í þeim efnum. Margt af því má gagnrýna, en á móti má nefna gildar röksemdir um að regluverkið sé of mikið og of íþyngjandi, að hið opinbera gangi of langt í framkvæmd þess, nokkuð handahófskennt, og jafnvel þannig að tala megi um íhlutun í ritstjórnarstefnu fjölmiðla. Sem aftur ógnar tjáningarfrelsinu.

                                                                ***

Nýlega kynnti Lilja B. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, áform sín (sem væntanlega hafa blessun ríkisstjórnarflokkanna allra) um verulegar breytingar á fjölmiðlaumhverfi, sem á sér nokkurn aðdraganda þó að ráðherrann virðist hafa valið leiðirnar nokkuð eftir eigin höfði. Í stuttu máli felast þær helst í því að koma skuli á niðurgreiðslum til eiginlegra fréttamiðla, auk þess sem Ríkisútvarpinu verða settar einhverjar skorður í tekjuöflun. Undirtektirnar hafa verið fremur hófstilltar, stóru miðlarnir hafa tekið þeim vel en varlega, þessir minni mögulega af óhóflegri bjartsýni. Viðskiptablaðið eitt hefur beinlínis lýst sig andsnúið þeim.

                                                                ***

Óðinn getur ekki neitað því, að hann er frekar uggandi yfir þessum tillögum líka. Fyrst og síðast vegna þess að honum geðjast aðeins mátulega að því að allir fréttamiðlar á Íslandi verði háðir velvild fjárveitingavaldsins, að allir fréttamiðlar séu með óbeinum hætti ríkismiðlar. En einnig vegna þess að hann hefur ríkar efasemdir um að þessar ráðagerðir muni nokkru breyta til batnaðar um stöðu fjölmiðla.

                                                                ***

Nú er það ekki nýtt í mannkynssögunni að stjórnvöld styðji fjölmiðla. Fyrir því er rík hefð á Norðurlöndum og af tillögum Lilju virðist ljóst að hún sækir nokkra fyrirmynd þangað. Eða aftur til fyrri aldar hér á Íslandi, því opinberir styrkir til fjölmiðla tíðkuðust hér fram á 8. áratug liðinnar aldar. En það er þá líka vert að minnast þess að það var einmitt eftir að ríkisstyrkirnir lögðust af, sem íslenskir fréttamiðlar tóku stærsta þroskastökkið, flokksblöðin lognuðust út af og það var á sama tíma sem rekstur íslenskra fjölmiðla var með besta móti.

                                                                ***

Opinber stuðningur við fjölmiðla þekkist víða og er með ýmsu móti, bæði með beinum og óbeinum hætti. Óbeinn stuðningur er algengastur, hið opinbera kaupir (oft lögbundnar) auglýsingar í þeim, prentað mál fær afslátt á dreifingu hjá opinberum póstþjónustum og hið opinbera kaupir áskriftir ríflega. Eins þekkist mjög víða að fjölmiðlar búi við lágan eða engan virðisaukaskatt (líkt og fyrirheit voru gefin um í stjórnarsáttmálanum í fyrra), sums staðar eru stakir rekstrarþættir – ritstjórn, framleiðsla eða dreifing – styrktir eða niðurgreiddir, stundum í bland við byggðasjónarmið, sum staðar tengt tilteknu efni (t.d. rannsóknarblaðamennsku, neytendafréttum og ámóta) en oftar virðast styrkirnir þó (vafalaust af stakri tilviljun) koma sér sérstaklega vel fyrir miðla sem tengjast helstu stjórnmálaflokkum eða fylgja þeim að málum. Sums staðar hafa menn jafnvel valið að styrkja fjölmiðlun án þess að láta útgáfurnar eða sjálfa fjölmiðlana njóta þess beint og veita blaðamönnum þess í stað afslátt á tekjuskatti. Líkt og sjómannaafslátturinn sem hér tíðkaðist um áratugaskeið. Hann kom sjómönnum vitaskuld vel, en niðurgreiddi um leið vinnuaflið fyrir útgerðirnar. Það er ekki vitlausari leið en aðrar til þess að láta skattgreiðendur styðja við fjölmiðlun í landinu, en einhvern veginn dregur Óðinn í efa að slík áform myndu mælast vel fyrir hjá alþýðu manna.

                                                                ***

Og ekkert sem bendir til þess að það sé líklegra til þess að skjóta styrkum stoðum undir fjölmiðlun en beinu styrkirnir.

                                                                ***

Það er hins vegar vafalaust rétt að líta til reynslu frænda okkar á Norðurlöndum að þessu leyti. Þar er sterk og vönduð stjórnsýsla, en meiru skiptir þó að þar hafa opinberir styrkir til fjölmiðla tíðkast lengur og verið með stórtækara móti en annars staðar, svo mjög að í þessum fræðum er talað um norræna módelið í fjölmiðlastyrkjum.

                                                                ***

Það módel má rekja til ýmissa sögulegra ástæðna. Blöðin þar voru lengst af mjög tengd stjórnmálaflokkum og svo er enn, þó tengslin séu engan veginn jafnskýr og áður fyrr. Það hefur hins vegar gerst áður að menn hafi áhyggjur af rekstri fjölmiðla, blaðanna sérstaklega, og það er til þess sem rekja má hina norrænu fjölmiðlastyrki. Sem á sinn hátt voru óbeinir styrkir til helstu stjórnmálaflokka. Þetta færðist sérstaklega í vöxt á 8. áratugnum og fram á hinn 9., þegar mörg norræn blöð lögðu upp laupana, en um það var rætt sem sérstakt samfélagslegt vandamál, sem samfélagið yrði að taka á. Nú var það ekki svo að dagblöð á Norðurlöndum ættu í sérstökum vanda umfram blöð í öðrum löndum, þar sló víða í bakseglin á þessum árum, en það var á Norðurlöndum, sem flokksblöðin voru sterkust, og það var líka þar, sem stjórnmálaflokkarnir áttu auðveldast með að ná saman um það þjóðþrifamál að bjarga blöðunum sínum. Og aftur. Og aftur.

                                                                ***

Vandinn er hins vegar sá að þetta örlæti á fjármuni skattgreiðenda virðist ekki hafa skilað sér sérlega vel. Lestur dagblaða hefur ekki síður minnkað á Norðurlöndum en annars staðar, nýjar kynslóðir hafa ekki tileinkað sér dagblaðalestur þar frekar en annars staðar, og blaðadauði þekkist ekki síður á Norðurlöndum en annars staðar í hinum vestræna heimi. Öðru nær.

                                                                ***

Þegar litið er á norræna fjölmiðlastyrki með raunsæjum augum, með tilkostnað og ávinning skattgreiðenda í huga, verður ekki séð að þeir standist hefðbundin viðmið um fjárveitingar hins opinbera. Hvorki kostnaðar- og nytjagreiningu, markvirkni framfærsludreifingar, hagræna hvata og hvað þeir kalla þetta allt inni í fjármálaráðuneyti. Þrátt fyrir að norræna módelið um fjölmiðlastyrki hafi verið rekið af mikilli rausn um hálfrar aldar skeið, liggja ekki fyrir neinar rannsóknir á skilvirkni þeirra. Vegna þess að norræna módelið hefur frá öndverðu byggst á óskhyggju og góðum ásetningi, en ekki því að gera úr garði stoðkerfi, sem nær raunverulegum og mælanlegum markmiðum.

                                                                ***

Það er því ekki til eftirbreytni. Ekki frekar en afturhvarf til styrkjablætis og sjóðasukks liðinnar aldar.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is