Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í umræðuþættinum Silfri Egils þann 22. maí síðastliðinn að einhvers konar gjaldeyrishöft væru óhjákvæmileg í framtíðinni nema Íslendingar ákveði að taka upp aðra mynt. Er það svo?

Höftin hafa ekkert að gera með stærð myntsvæðisins

Það er misskilningur að gjaldeyrishöftin á Íslandi hafi eitthvað að gera með smæð myntsvæðisins. Það eru a.m.k. tvö sjálfstæð myntsvæði í heiminum, sem eru mun minni en Ísland, þar sem notast er við verðbólgumarkmið án gjaldeyrishafta. Þetta eru eyjurnar Vanuatu (fólksfjöldi 240 þúsund) og Samoa (fólksfjöldi 180 þúsund) í suður Kyrrahafi en bæði ríkin eru sjálfstæð – Vanuato frá 1980 en Samoa frá 1962. Þannig að smæð myntkerfisins er ekki alvarlegt vandamál og kallar ekki á höft í sjálfu sér. Gjaldeyrishöftin hafa hins vegar allt að gera með hvernig hagkerfinu er stjórnað og hvers konar efnahagslegar afleiðingar lög og reglugerðir hafa.

Margir Íslendingar sem styðja upptöku evru í blindni taka ekki til greina að kerfið sem íslenska krónan er notuð innan geti verið vandamálið en ekki öfugt. Í huga þessara einstaklinga er orsakasamhengið aðeins og ætíð í aðra áttina; íslenska krónan hefur neikvæð áhrif á kerfið. Þetta er þröngsýni eða hrein afneitun á staðreyndum. Því lagaumhverfið og efnahagslegar ákvarðanir hafa einnig áhrif á gjaldmiðilinn.

Höft á Íslandi, skeinuhætt lög og slæm hagfræði

Íslendingar hafa nær ætíð lifað innan einhvers konar hafta. Eiginlegur gjaldeyrismarkaður var ekki stofnaður á Íslandi fyrr en 1993 og frjáls flutningur fjármagns varð algjör árið eftir. 14 árum síðar þurfti að reisa höftin á nýjan leik vegna gegndarlausrar söfnunar erlendra sem innlendra skulda. Sú skuldasöfnun hafði ekkert með gjaldmiðilinn að gera heldur flótta íslenskra aðila frá íslenskri verðtryggingu og háum langtímavöxtum sem hið síðarnefnda er einkum afleiðing laga um lífeyriskerfið. Þeim lögum, líkt og lögum um verðtryggingu, má breyta með einu pennastriki.

Þá hjálpaði ekki til að á Íslandi hefur verið notast við hagfræðikenningar sem horfa framhjá eða afneita öllum hugsanlegum áhrifum skulda á hagkerfið; fjármálakerfið er meðhöndlað eins og utanaðkomandi aðili sem engin innri áhrif hefur á hagkerfið heldur getur aðeins verið uppspretta „ytri“ áfalla. Meðal annars vegna þessara hagfræðikenninga var skuldasöfnun Íslendinga jafnvel talin „eðlileg“, „hagkvæm“ og „miðað við markaðsaðstæður“ svo opinberir aðilar ættu ekki að skipta sér of mikið af henni. Sömu hagfræðikenningar eru í dag að gera sitt besta við að rústa fimmtu tilrauninni til að reka sameiginlega myntstefnu innan Evrópu.

Evra er bíll án kaskótryggingar

Ég tek það skýrt fram að ég er ekki mótfallinn upptöku erlends gjaldmiðils sé það gert á réttum forsendum og skýringum en ekki endurteknum loforðum um efnahagslegt himnaríki þar sem allt blómstrar. Í grein í Viðskiptablaðinu í mars síðastliðnum bar ég evruna saman við að eiga bíl án kaskótryggingar. Ef tekin er upp evra skulu Íslendingar átta sig á því að það leyfist enginn glannaakstur í formi óðaskuldsetningar einkaeða opinberra aðila, pólitískra fjárfestinga sem engum arði skila fyrir þjóðarbúið, halla á ríkisrekstri o.fl. Í tilviki þess að notast áfram við krónuna má „redda“ slíkum efnahagslegum fásinnum með gengisfellingum eins og alltaf hefur verið gert síðustu 90 ár. Þess vegna er íslenska krónan ígildi efnahagslegrar kaskótryggingar. Og sú kaskótrygging hefur síendurtekið verið misnotuð.

Ef Íslendingar sætta sig við að „keyra varlega“ þegar kemur að efnahagsmálum er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp evru. Má jafnvel gæla við þá hugmynd að upptakan væri af hinu góða frekar en hitt, sérstaklega ef upptaka evru eða annars erlends gjaldmiðils neyddi Íslendinga til að átta sig á að þeir yrðu að „keyra varlega“ þegar kæmi að efnahagsmálum. Augljóslega yrði að taka lífeyriskerfið í gegn og stokka upp verðtryggingu væri erlendur gjaldmiðill tekinn upp en bæði þarf raunar að gera hvort heldur sem er eigi fjármálakerfið ekki að þurfa stuðning gjaldeyrishafta.

Krónan er gjaldmiðill, ekki pólitískt verkfæri

Sannleikurinn er sá að íslensku krónunni hefur aldrei verið gefinn möguleiki á að vera gjaldmiðill eins og þeir eiga að vera: geymsla verðmæta og trygg ávísun á visst magn vara eða þjónustu langt fram í tímann. Allt frá 1918 hefur íslenska krónan verið misnotuð í pólitískum og efnahagslegum tilgangi til skamms tíma í senn með þeim stórglæsilega árangri að virði hennar sem gjaldmiðill hefur fallið 2200 sinnum hraðar en þeirrar dönsku. Óvandaðar og beinlínis efnahagslega skaðlegar ráðstafanir á borð við verðtryggingu húsnæðislána og of háa ávöxtunarkröfu hjá lífeyriskerfinu hafa svo bæst við og gert illt verra.

Vandamálið við íslensku krónuna er ekki smæð hennar. Vandamálið við íslensku krónuna er það lagaumhverfi sem Íslendingar ætla henni að halda verðgildi sínu í. Og það er okkar verk að laga það lagaumhverfi. En þangað til það gerist hefur Össur Skarphéðinsson alveg hárrétt fyrir sér: íslenska krónan þarf stuðning gjaldeyrishafta í því laga- og reglugerðarumhverfi sem ríkir á Íslandi.