Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn um hugmyndir um stofnun hers. Slík hugmynd hefur skotið reglulega upp kollinum um langt skeið . Líklega var hvað mesta alvaran í þeim efnum árið 1785 þegar allir helstu ráðamenn þjóðarinnar voru þeirrar skoðunnar.

Björn Bjarnason, þá nýorðinn menntamálaráðherra, setti fram hugmyndir sínar í varnarmálum haustið 1995. Hann hefur ítrekað hana nokkrum sinnum síðan.

Arnór Sigurjónsson, fyrrum skrifstofustjóri á varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, gaf út bók í byrjun mars og útfærir stofnun hers á Íslandi. Nefnist hún Íslensk­ur her – breytt­ur heim­ur, nýr veru­leiki. Kostnaðurinn við her Arnórs yrði um 66 milljarðar á ári.

Bæði Björn og Arnór telja að stjórnvöld hafi ekki svarað þeirri spurningu hvernig eigi að haga vörnum Íslands.

Hér á eftir er brot úr pistli Óðins frá því í síðustu viku en áskrifendur geta lesið hann í heild sinni hér.

Hvað er þetta annað?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var spurð út í bók Arnórs og hugmyndir hans um að stofna her af fréttastofu Ríkisútvarpsins 5. mars. Svaraði hún á þessa leið:

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, segir að leita þurfi leiða til að Ísland verði verðugri bandamenn og að það sé gert með öðrum leiðum en að byggja upp fámennan her. Öll lönd hafi aukið útgjöld til öryggis- og varnarmála, Ísland eigi að gera það líka og varnartengd útgjöld hafi nú þegar verið aukin.
„Fengi ég frekara fjármagn til að ráðstafa myndi ég ekki ráðstafa því í að byggja upp her heldur í önnur verkefni,“ segir Þórdís.

Í fréttinni sagði jafnframt:

Þórdís segir enga alvöru umræðu hafa farið fram um að erlendur her komi aftur til Íslands, þó umsvif á Keflavíkurflugvelli hafi vissulega aukist. Kafbátaeftirlit hafi líka aukist hér við land eftir innrás Rússa í Krímsskaga árið 2014.
„Við sjáum að það er meiri áhersla á austurhluta Evrópu af augljósum ástæðum. Þannig að þetta snýst bara allt um eins og ég segi að vera í þéttu samtali og þétta enn frekar svona samstarf og hvernig við mátum okkur inn í það og við tökum því mjög alvarlega.“

Formaður utanríkismálanefndar, Bjarni Jónsson, sagði sama dag við Ríkisútvarpið að fyrir stofnun hers væru engin gild rök. Milljarðarnir sem færu í herinn væru betur nýttir annars staðar.

Það datt auðvitað ekki nokkrum fréttamanni á ríkisfréttastofunni að spyrja utanríkisráðherrann og formann utanríkisnefndarinnar hvað þetta annað væri.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 29. mars 2022. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.