Góður viðskiptavinur sendi mér línu fyrir um viku þar sem hann tjáði mér að hann væri ekki búinn að standa sig sem skyldi í líkamsræktinni, þ.e. ekki náð að mæta á æfingar né senda inn matardagbók líkt og hann er vanur að gera í hverri viku. Hann er búinn að ná frábærum árangri á liðnum árum og heilbrigt líferni nú orðið honum lífsstíll. Honum var mikið niðri fyrir og samviskan ekki að vinna með honum.

Ég benti honum á að það er ekkert nema eðlilegt að á næstu 50 árum sem hann kemur til með að stunda líkamsrækt og heilbrigt líferni, að það komi álagspunktar þar sem hann nær ekki að æfa eða halda mataræði eins og prógrammið segir til um. Vinnuálag, ferðalög, óvæntar uppákomur, páskafrí, jólafrí, sumarfrí og margt fleira eru breytur sem hafa áhrif á lífsmunstur okkar og því skiptir mestu máli að vinna með þær aðstæður sem við búum við hverju sinni. Vitandi að ég sé að fara erlendis í tveggja vikna sumarfrí eftir mánuð fær mig til að nýta tímann vel fram að brottför.

Ég er meðvitaður um mataræðið og bæti við æfingum. Sama geri ég þegar ég kem heim aftur. Meðan á dvöl minni stendur erlendis þá er ég meðvitaður um að öll hreyfing er góð. Skokk í 20 mín eða létt æfing á hótelherberginu með armbeygjum, hnébeygjum og uppsetum kemur blóðinu af stað og fyllir líkamann af endorfíni. Æfingin þarf ekki að vera klukkutími. Það er ekki síst fyrir hugann og andlega líðan að ná æfingu þótt stutt sé. Þannig erum við líka mun líklegri til að halda jafnvægi í mataræði. Okkar fyrstu mistök eru að telja okkur trú um að það taki því ekki að æfa ef klukkutíma er ekki náð.

Heilbrigt líferni er lífsstíll. Njótum þess að láta okkur líða vel og lifum í sátt og samlyndi við samvisku okkar.