*

föstudagur, 19. júlí 2019
Gísli Freyr Valdórsson
6. febrúar 2013 09:47

Er sigur Árna Páls sigur hægri kratanna?

Það er erfitt verkefni sem bíður nýs formanns Samfylkingarinnar. Hann hefur þó nokkuð sterkt umboð til að stýra flokknum til betri vegar.

Haraldur Guðjónsson

Árni Páll Árnason vann nokkuð afgerandi sigur í formannskosningu á landsfundi Samfylkingarinnar um helgina. Árni Páll fékk um 62% atkvæða á meðan mótframbjóðandi hans, Guðbjartur Hannesson, fékk um 38%. Þá var Katrín Júlíusdóttir kjörinn varaformaður með um 59% atkvæða og bar þar sigur úr býtum gegn Oddnýju G. Harðardóttur sem hlaut 41% atkvæða.

Í framhaldi af því að nýrri forystu í flokknum, brotthvarfi Jóhönnu, landsfundinum um helgina og stöðu Samfylkingarinnar almennt er vert að velta upp nokkrum atriðum. Það er alltaf mikil athygli sem fylgir nýjum formanni úr hlaði en þrátt fyrir að hafa staðið í kosningabaráttu nær látlaust í fjóra mánuði er slagurinn rétt að byrja hjá hinum nýkjörna formanni.

Í júní 2011 skrifaði ég pistlaröð hér á vef Viðskiptablaðsins þar sem ég fjallaði um leiðtogakreppuna í íslenskum stjórnmálum. Í pistli mínum um Samfylkinguna sagði ég að erfitt væri að sjá fyrir sér Árna Pál sem formann flokksins í náinni framtíð. Ég var auðvitað ekki einn á þeirri skoðun þá. Komið hefur á daginn að ég hafði rangt fyrir mér.  

Slæm arfleið Jóhönnu

Þetta eru merkileg tímamót hjá Samfylkingunni. Síðastliðinn föstudag voru liðin fjögur ár frá því að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra. Sama dag birtist nýr Þjóðarpúls frá Capacent, en samkvæmt honum mælist flokkurinn nú aðeins með 16% fylgi á landsvísu (eftir að hafa fengið tæplega 30% fylgi í kosningunum vorið 2009) og tapar þar með helming sinna þingmanna. Kannanir á trausti sýna glögglega að traust til Jóhönnu hefur meira og minna leitað niður á við frá því að hún tók við og það sama má segja um fylgi flokksins fyrir utan einstaka uppsveiflur í skoðanakönnunum sem þó hafa dugað skammt.

Hér var ég búinn að skrifa langan kafla um stjórnunarstíl Jóhönnu, hvernig hún lét keyra umdeild og stór mál í gegnum þingið í bullandi ósátt við allt og alla og hvernig hún hefur ítrekað stofnað til ófriðar og átaka. En við skulum láta það bíða betri tíma. Nú eru taldir niður þeir dagar sem hún á eftir í embætti forsætisráðherra.

Árni Páll dregur línu í sandinn á milli sín og Jóhönnu

Árni Páll dró algjöra línu í sandinn á milli sín og Jóhönnu um leið og tilkynnt hafði verið um úrslitin í formannskjörinu. Í þakkarræðu sinni þakkaði hann Jóhönnu fyrir vel unnin störf, en hann var varla búinn að sleppa orðinu þegar hann sagði að Samfylkingin þyrfti að hætta því sem hann kallaði stríðsrekstri og að flokkurinn hefði háð of margar baráttur á kjörtímabilinu án árangurs.

Nú þarf að hafa í huga að sigur Árna Páls er um leið ósigur Jóhönnu og hennar helstu samstarfsmanna. Hún studdi Guðbjart í formannskjörinu og beitti sér gegn því að Árni Páll yrði kjörinn. Það er ekki á hverjum degi sem menn vinna sigur með rúmlega 60% fylgi með formann, varaformann, þingflokksformann og marga kjörna fulltrúa flokksins á móti sér. Einhverjir telja að hann hafi gefið skotleyfi á Jóhönnu með fyrri ummælum sínum. Það er þó erfitt að sjá hvernig sú kenning gengur upp en oft er nauðsynlegt fyrir nýjan leiðtoga að distensera sig frá fyrri leiðtogum. Það á sérstaklega við í þessu tilviki.

Upprisa Árna Páls væri í raun efni í sér pistil. Honum var sem kunnugt er sparkað út úr ríkisstjórn um þar síðustu áramót. Jóhanna þurfi þó að hafa töluvert fyrir því að bola honum út og á flokksráðsfundi sem haldinn var á Hilton Nordica sauð upp úr á næst síðasta degi ársins 2011. Það var ekki fyrr en Árni Páll stillti sjálfur til friðar að málið leystist og daginn eftir var hann kominn út úr ríkisstjórninni. Það var þó, eftir á að hyggja, það besta sem fyrir hann gat komið.

Kynslóðaskipti

Áramótatímarit Viðskiptablaðsins kom út daginn fyrir fyrrnefndan flokksráðsfund. Þar birtust fræg ummæli Össurar Skarphéðinssonar (sem ég kalla stundum æðsta prests Samfylkingarinnar) um að hann teldi að Samfylkingin þyrfti að endurnýja bæði forystu sína og hugmyndafræði fyrir næstu kosningar og tefla fram „ungum en reyndum leiðtoga“ eins og hann orðaði það. Þetta var upphafið að endalokum stjórnmálaferils Jóhönnu Sigurðardóttur. Mikill er máttur Össurar innan flokksins og meiri en margur gerir sér grein fyrir.

Árni Páll tapaði orrustunni en hann vann stríðið að lokum. Þó svo að hann hafi ekki viðurkennt það á sínum tíma, þá fylgir því alltaf ákveðin niðurlæging að vera settur út úr ríkisstjórn gegn eigin vilja. Þannig er bara pólitíkin. Það má þó segja honum til tekna að í stað þess að sleikja sárin of lengi þá byrjaði hann að undirbúa næstu baráttu. Hann gat auðvitað ekki vitað þá að það yrði honum til happs að sitja ekki í þessari óvinsælu ríkisstjórn, en nýtti sér það til fulls, lagði upp með sitt eigið agenda, talað frjálst og tekið annan vinkil á málin en stjórnarráðið gerði. Hann hóf strax að skrifa greinar í tugavís, halda málefnafundi og þar fram eftir götunum. Allt skilaði þetta sér síðasta laugardag.

Eru breytingarnar í orði eða á borði?

Árni Páll hefur talað mikið fyrir því að breyta stjórnmálunum, breyta orðræðunni og brjóta það sem hann kallaði „hávaðaglamur og hatur“ sem einkenni orðræðuna eins og hann orðaði það í samtali við VB Sjónvarp um helgina.

Allt hljómar þetta vel. En það er eitt að tala vel og nota réttu orðin, en annað að koma því í verk. Almenningur er auðvitað búinn að fá sig fullsaddan af orðræðunni á Alþingi og það er kallað eftir breyttum vinnubrögðum. Það útskýrir m.a. annars miklar vinsældir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur svo dæmi sé tekið, en hún er líklega sá stjórnmálamaður sem talað hefur hvað mest fyrir því að breyta vinnubrögðum í stjórnmálum. Það má líka taka fram að hún er líka sá stjórnmálamaður sem hefur komið þeim breytingum í verk eins og sýndi sig þegar hún stjórnaði borginni á mjög erfiðum tíma á árunum 2008-10. Það mun reyna á Árna Pál í þessu hlutverki næstu vikur og enn meira eftir kosningar, hvort sem Samfylkingin verður í ríkisstjórn eða ekki.

Miðað við hvernig Árni Páll hefur talað þá þarf hann að fjarlægja sig eins mikið og hægt er frá ríkisstjórninni. Að öllu óbreyttu eru framundan mikil átök um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og enn meiri átök um stjórnarskrármálið (hvoru tveggja gælumál Jóhönnu). Þetta eru auðvitað mál sem brenna heitt á heitustu stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar og spunameistara ríkisstjórnarinnar klæjar í fingurna að geta sakað stjórnarandstöðuna um málþóf og fleira í þeim dúr.

Ég myndi þó ætla að almenningur hefði meiri áhuga á því að fá frið frá átökum á þinginu enda er fjárhagsleg afkoma heimilanna þar sem brennur helst á fólki þessa dagana. Venjulegt launafólk á erfitt með að ná endum saman og fólk hefur væntanlega meiri áhuga á því að láta heimilisbókhaldið ganga upp en því sem er að gerast niður í þingi.

Flókin staða

Það sem flækir stöðuna er að Árni Páll situr ekki í ríkisstjórn. Það verður þó ekki lagt í þennan leiðangur nema með hans samþykki og þó svo að Jóhanna sé enn starfandi forsætisráðherra situr hún nú í umboði hans.

Árni Páll hefur því um tvennt að velja. Hann getur spilað út leiðtogaspilinu, samið við stjórnarandstöðuna um stjórnarskrármálið (og hugsanlega um kvótamálið) og komið málinu í einhvern farveg sem sátt ríkir um (sem myndi væntanlega þýða að menn sammælast um að taka málið upp að nýju eftir kosningar en á betri grundvelli). Hinn valkosturinn er að hella sér út í slaginn alla leið og keyra áfram á jarðýtutaktík Jóhönnu. Þá eru það líka skilaboð til almennings um að þrátt fyrir nýja forystu hafi í raun lítið breyst.

Það er reyndar til þriðji kosturinn. Árni Páll getur farið fram á það að þing verði rofið og að kosningum verði flýtt. Þannig getur hann nýtt þann vind sem nú blæs í bakið á honum til að auka fylgi flokksins. Hann er búinn að vera í kosningabaráttu síðustu fjóra mánuði og er því búinn að hita vel upp og getur án fyrirvara haldið henni áfram.

Punkturinn er þessi. Árni Páll á eftir að sýna að hann standi fyrir þær breytingar sem hann boðar. Til að gæta sanngirnis þá er hann bara búinn að vera formaður í fimm daga og er nú væntanlega að undirbúa næstu skref um leið og sigurvíman rennur af honum.

Að faðma óvinina

Það var mikið fjallað um það fyrir formannskjörið hvaða þingmenn og aðrir kjörnir fulltrúar styddu Árna Pál og hverjir styddu Guðbjart (og um leið valkost Jóhönnu). Dagur B. Eggertsson, fráfarandi varaformaður flokksins , var einn þeirra sem beittu sér fyrir Guðbjart og fór ekkert í felur með það. Hann líkti Árna Pál við sportbíl og gerði honum upp skoðanir í umræðuþætti í sjónvarpi Ríkisins á meðan hann líkti Guðbjarti við öruggan Volvo. Niðurstaðan var sú að kjósendur í formannskjörnu völdu sér sportbílinn.

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður, studdi Guðbjart opinberlega en hún varð sem kunnugt er einnig undir í varaformannskjöri á laugardaginn. Eins og fram kom í stuttri fréttaskýringu hér á vef Viðskiptablaðsins á laugardaginn hafði landsdómsmálið mikil áhrif á val landsfundarfulltrúa en afstaða hennar í formannskjörinu hafði einnig nokkur áhrif. Katrín Júlíusdóttir hafði vit á því að lýsa ekki yfir stuðningi við annan formannsframbjóðandann.

Magnús Orri Schram, sem skv. nýjasta Þjóðarpúlsinum er dottinn af þingi, beitti sér fyrir hönd Guðbjarts, væntanlega í þeirri von að tap myndi veikja stöðu Árna Páls það mikið að hann myndi íhuga það að draga sig út úr stjórnmálum. Þeir koma sem kunnugt er úr sama kjördæmi en Magnús Orri skipar þriðja sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Eins kaldhæðnislegt og það hljómar þá mun Árni Páll draga Magnús Orra með sér inn á þing fari svo að fylgi hins nýja formanns aukist í kjördæminu.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir reyndi fram á síðasta dag að láta orða sig við hugsanlegt varaframboð en gengur löskuð út af landsfundi. Hún reyndi með eftirminnilegum hætti að klekkja á Össuri Skarphéðinssyni í prófkjöri flokksins í Reykjavík í nóvember og stór hluti flokksmanna kann henni litlar þakkir fyrir.

En innanflokkapólitík er flókin og það er ekki allra að skilja hana eða velta henni fyrir sér yfirleitt. Það er líka virðingarvert, eftir tilvikum, að þora að taka afstöðu í formannsslag innan stjórnmálaflokka þegar maður á mikið undir sjálfur. Það er auðvitað verra að hafa stutt þann sem tapaði, en þar reynir líka á nýjan formann og hæfileika hans til að taka utan um það fólk og fá það í lið með sér.

Sigur hægri kratanna?

Í fyrrnefndu viðtali í áramótatímariti Viðskiptablaðsins sagði Össur að hægri kratarnir þyrftu að fá að blómstra innan flokksins ætlaði hann sér að ná árangri. Í sömu andrá sagði Össur að hægri kratarnir hefðu verið bældir niður.

Árna Páll hefur verið legið á hálsi að vera of hægri sinnaður og andstæðingar hans innan flokksins hafa óspart notað það gegn honum. Nú get ég ekki sagt að mér finnist Árni Páll vera sérstaklega hægri sinnaður í þeim skilningi, en kannski er það orðið þannig í flokki Jóhönnu að hver sá sem ekki fari í endalaus stríð við atvinnulífið sé hægri maður.

Þarna sker Samfylkingin sig nokkuð úr þegar horft er til systurflokka hennar á norðurlöndum, þá sérstaklega Verkamannaflokkinn í Noregi. Nærrænu jafnaðarmannaflokkarnir eru allt auðvitað ekkert annað en vinstri flokkar, vilja háa skatta, mikil ríkisafskipti o.s.frv. En þeir gera sér líka grein fyrir því að það þarf að vera einhver til staða í hagkerfinu til að greiða háa skatta. Þess vegna hafa þeir, svo langt sem það nær, stutt vel við bakið á atvinnulífinu og einkageiranum. Í það minnsta að því marki að þeir líta á sig sem stjórnálaflokka sem vilja öflugt atvinnulíf – til að greiða fyrir öflugt (og að mínu mati ofnotað) velferðarkerfi.

Samfylkingin hefur í raun alla burði til að verða þannig flokkur, sé það vilji hennar á annað borð. Það mun þó taka nýjan formann einhvern tíma að sannfæra stóran hluta flokksins um að allt sem miður fer í heiminum sé ekki Davíð Oddssyni, frjálshyggjunni eða „hruninu“ að kenna. Um leið og Árni Páll nefnir setninguna „Við megum ekki gleyma því að hér varð hrun!“ er hann fallinn á prófinu.

Árni Páll Árnason er auðvitað ekki eini stjórnmálamaðurinn sem þarf að samhæfa öflugt atvinnulíf og öflugt velferðarkerfi. Það er líka stefna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. En það mun reyna á leiðtogahæfileika hans og baráttan byrjar innan frá.

Táknræn mynd. Fráfarandi formaður gengur af sviðinu og nýkjörinn formaður tekur sviðið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.