*

mánudagur, 19. apríl 2021
Diljá Rudólfsdóttir
9. mars 2021 07:46

Er þín snjallvæðing snjöll eða heimsk?

Ákveðinn misskilningur ríkir um að snjallvæðing og stafræn þróun séu eitt og hið sama. Getur þetta leitt af sér ómarkvissa forgangsröðun.

Fyrirtæki leggja mikla áherslu á snjallvæðingu í stefnum sínum þessa stundina og er hún oft nefnd í sama andardrætti og stafræn þróun. Allir eru að snjallvæða og allir eru að þróa stafrænt. Er það ekki bara frábært?

Þegar ég flutti aftur heim til Íslands síðasta haust eftir rúman áratug í Bretlandi var ég mjög spennt að sjá gróskuna í tæknigeiranum hér heima, og sérstaklega þá skemmtilegu umræðu sem er að eiga sér stað um snjall- og sjálfvirknivæðingu. Ég hef hins vegar tekið eftir því að ákveðinn misskilningur ríkir um að snjallvæðing og stafræn þróun séu eitt og hið sama, eða því sem næst. Þetta getur leitt af sér ómarkvissa forgangsröðun og stefnumótun þar sem ekki er sameiginlegur skilningur á því hvað snjallvæðing felur í sér og hvernig sé best að beita henni.

Snjallvæðing er stafræn, það er rétt. En stafræn þróun er þó ekki alltaf snjöll.

Stafræn þróun snýst um að gera ferla aðgengilega á stafrænu formi, og oftar en ekki sjálfvirknivæða þá. Slík vinna lækkar rekstrarkostnað og frelsar fólk úr viðjum skrifræðis.

Snjallvæðing snýst um að kenna tölvu að taka ákvarðanir út frá þeim gögnum sem hún hefur haldbær, alveg eins og manneskja gerir, en margfalt hraðar. Með þessu næst framför í nýsköpun, þjónustu og tækniþróun á hraða sem væri algjörlega ómögulegur án gervigreindar og snjallrar tækni.

Tökum nokkur dæmi:

  • Stafræn þróun: Að sækja um nýtt kreditkort í banka-appi frekar en í útibúi.
  • Snjallvæðing: Nýja kreditkortið er sjálfkrafa fryst þegar þú verslar í Reykjavík einn daginn og Buenos Aires 12 tímum seinna.
  • Stafræn þróun: Lesið er rafrænt af rafmagnsmælum heimilis frekar en að senda álesara á heimilið.
  • Snjallvæðing: Gögn úr sömu mælum eru notuð til að greina notkun rafmagns á heimilinu og senda viðskiptavininum sjálfvirk skilaboð um hvernig hann geti sparað sér rafmagnskostnað.
  • Stafræn þróun: Heilsuúr mælir hvíldarpúls einstaklings og skráir hann daglega í app.  
  • Snjallvæðing: Úrið notar þessi gögn um hvíldarpúls til að láta einstaklinginn vita að heilsu hans gæti verið að hraka.

Í stafrænni þróun eru ferlar skoðaðir með það að markmiði að einfalda og sjálfvirknivæða þá. Ferlar og eyðublöð sem eru komin á stafrænt form eru aðgengilegri og þurfa oft minna mannafl til að viðhalda, en þessi þróun er þó ekki í eðli sínu snjöll.

Snjallvæðing er ekki það sama og stafræn þróun. Í snjallvæðingu skoðum við víðtæk gögn, og þessi gögn eru það sem snjallvæðing stendur og fellur með. Gögnin ein og sér segja þó tölvunni ekkert. Henni þarf fyrst að vera kennt, af manneskju, hvernig hún á að taka ákvarðanir og út frá hvaða forsendum.

Tölva veit ekki fyrr en við höfum kennt henni að það er grunsamlegt að versla á Íslandi einn daginn og Argentínu þann næsta. Þegar hún hefur lært það þá getur hún notað þá vitneskju til að taka ákvarðanir um þúsundir færslna á augnabliki. Þetta er snjallvæðing.

Með flóknara vélnámi getur tölvan síðan byrjað að greina ýmis mynstur í gögnunum sjálf og byrjað að taka eigin ákvarðanir - eitthvað sem getur mislukkast. En það er efni í aðra grein.

Án góðra gagnasafna er engin snjallvæðing. Tölvan tekur ákvarðanir út frá gögnum, svo röng gögn leiða til rangra ákvarðana. Það er því mikilvægt að fyrirtæki setji gögn og gæði þeirra í algjöran forgang ef þau ætla sér ekki að missa af lestinni.

Leyfið mér að endurtaka: Án góðra gagna er engin snjallvæðing. Að langa til að snjallvæða er ekki nóg.

Hættum að eyða orkunni í hina fullkomnu framtíðarsýn og byrjum að gera tilraunir hjá okkar eigin fyrirtækjum með okkar eigin gögn. Góð gögn og nokkrir góðir starfsmenn geta gert gríðarlega mikið fyrir fyrirtæki þegar kemur að snjallvæðingu. Það þarf ekki að gera allt í einu, en það þarf að byrja einhvers staðar. Og góð byrjun er að vera með sameiginlegan skilning á hvað snjallvæðing er og hvað hún er ekki. Án þess eru fyrirtæki ólíkleg til að ná árangri í raunverulegri, snjallri snjallvæðingu.

Höfundur er forstöðumaður snjallvæðingar og stafrænnar þróunar hjá Veitum.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.