*

þriðjudagur, 21. september 2021
Óðinn
12. maí 2021 07:02

Er til nóg?

Vandinn eftir heimsfaraldurinn er ekki laun fólks heldur launaleysi þess vegna atvinnuleysis.

Haraldur Guðjónsson

Alþýðusamband Ísland hóf kosningaherferð sína fyrir alþingiskosningar á baráttudegi verkalýðsins. Yfirskriftin er „Það er nóg til“. 

Þetta er misskilningur. Það er ekki til nóg. Það verður aldrei til nóg. 

En það er ósköp eðlilegt að allir vilji bæta líf sitt og síns fólks. Hærri laun þýða að hægt er að kaupa stærri íbúð, betri bíla, betra hjól, fara í betra sumarfrí, spara fyrir áföllum og svo framvegis.

                                          ***

Hugmyndin að slagorðinu er byggð á misskilningi. Í myndbandi sem birt var 1. maí segir Drífa Snædal, forseti ASÍ: 

„Þegar harðnar á dalnum innan heimilis eru viðbrögðin ekki þannig að heimilisfaðirinn fái meira að borða en aðrir minna, nei, því sem er til skiptanna er deilt með sanngjörnum hætti milli heimilisfólksins. Þegar gesti ber að garði þá er gefið það sem hægt er af gestrisni og gjafmildi, gjarnan með orðunum „það er nóg til“. 

Þetta er allt annað mál. Það eru nefnilega takmörk fyrir því hvað hægt er að borða mikið, þó að vissulega borði sumir meira en aðrir. Það þarf enginn að svelta á Íslandi enda er velferðar- og bótakerfið á Íslandi þannig úr garði gert. Og það sveltur enginn á Íslandi nema sá hinn sami leggi mikið á sig með óreglu og óreiðu. Það er svo annað mál hvort hægt sé að hjálpa slíku fólki betur en gert er í dag. En það er ekki það sem forseti ASÍ er að tala um.

                                          ***

Græðgi eða réttlæti 

Aldrei hefur verið til launþegi sem vill ekki hærri laun og aldrei hefur verið til fjárfestir sem ekki vill efnast meira. Eða tapa minna. Fjárfestar eru sagðir gráðugir. Vilji þeir meira en ef þeir eru launamenn þá segja launþegahreyfingarnar að launþeginn eigi að fá eðlilegan skerf af kökunni. Það sé ekki græðgi heldur réttlæti. 

En berum aðeins þessa tvo menn saman – og munum að bæði karlar og konur eru menn. Staða þeirra er mjög ólík þó að framlag þeirra beggja sé mjög mikilvægt til fyrir efnahagslega velsæld í landinu.

                                          ***

Áhætta fjárfesta 

Fjárfestirinn hættir fjármunum sínum þegar hann ræðst í fjárfestingu. Ef illa gengur þá tapar hann peningunum sem hann lagði í þetta. Ríkið skiptir sér ekkert af því og á alls ekki að bæta tapið. Það eru sjaldnar sagðar sögur af því þegar fjárfestar tapa en hagnast. En við þekkjum fjölmörg dæmi. 

Eitt stórt gjaldþrot sem ekki fór framhjá neinum er gjaldþrot Wow air. Þar tapaði fjárfestirinn Skúli Mogensen 3-4 milljörðum króna á fjárfestingu sinni í félaginu. Það er hins vegar enginn vafi á því að Wow air skilaði hundruð manna vel launuðum störfum og háum skatttekjum í ríkissjóð, bæði beint og óbeint. 

Ef fjárfestirinn hagnast þá greiðir hann tekjuskatt. Alla jafna eru fjárfestingar gerðar í gegnum einkahlutafélög eða hlutafélög. Þá er tekjuskatturinn 20%. En til þess að fjárfestirinn njóti þessara fjármuna þarf hann að greiða sér arð og þá þarf hann aftur að greiða 22% fjármagnstekjuskatt. Þá hefur hann greitt 37,6% hagnaðarins í ríkissjóð. Undantekningin á þessu er hlutabréfaviðskipti þar sem fjárfestirinn greiðir sama hlutfall í skatt þrátt fyrir að viðskiptin séu gerð í gegnum hlutafélag.

                                          ***

Launþeginn er vel varinn 

Launþeginn tekur enga áhættu á rekstri félagsins aðra en þá að hugsanlega missa vinnuna ef hann stendur sig illa eða ef fyrirtækið stendur sig illa. Hann er hins vegar vel varinn. Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist launakröfur sem eru allt að tæpar tvær milljónir vegna þriggja mánaða.

Atvinnuleysistryggingasjóður ábyrgist greiðslur um vangoldin laun og bætur vegna slita á ráðningarsamningi, fyrst tekjutengdar og svo í kringum lágmarkslaun. Launþeginn greiðir 31-46% í tekjuskatt eftir tekjum, en hlutfallið er lægra vegna persónuafsláttarins. Það eru því fáir launþegar, aðeins þeir sem eru með himinháar tekjur, sem greiða hærra hlutfall tekna sinna í tekjuskatt en fjárfestirinn.

                                          ***

Óðinn er þrátt fyrir það þeirrar skoðunar að tekjuskattur og útsvar á launamenn sé allt of hátt og það er einkennilegt að forystumenn launþega velti því í það minnsta ekki fyrir sér hvort þjónusta sem hið opinbera veitir sé í takt við stórvaxandi ríkisumsvif og hvort fara megi betur með fjármuni skattgreiðendanna.

Því miður er það svo að nútíma jafnaðarmenn og sósíalistar virðast ekki hafa nokkurn áhuga á því að fara vel með skattféð. Því er sóað á hverjum degi og það verður alltaf fátíðara og fátíðara að sjá Sjálfstæðismennina taka til varna fyrir vinnandi fólk sem greiðir skatta. 

Í myndbandinu telur Drífa ýmislegt til en stefið er almennt það, eins og hjá öðrum þeim sem finnst að aðrir eiga að borga, að hækka eigi skatta á þá efnameiri og tekjuhærri.

Eins og áður segir þá greiða fjárfestar að jafnaði hærri tekjuskatta en launamenn á sama tíma og þessir fjárfestar eru allir launamenn, því þeim er skylt að reikna sér endurgjald í störfum sínum, þar sem þeir greiða einnig tekjuskatt. Er einhver sanngirni í því að hækka þessar skattgreiðslur á fjárfesta?

                                          ***

Há laun fyrir færri eða störf fyrir fleiri 

Afleiðingin er sú að færri og færri taka þá áhættu sem felst í að stofna fyrirtæki eða fjárfesta í fyrirtækjum sem aftur veldur því að færri störf verða til innanlands. 

Í myndbandinu segir Drífa: 

„Nú ómar söngurinn um ofalið launafólk og greinilegt að sérhagsmunaöflin ætla að kenna launum fólks um allt sem miður fer í heimsfaraldri og djúpri kreppu. Þá er gott að spyrja: hverjir eru í raun ofaldir í íslensku samfélagi? Svarið er meðal annars að finna í skattskrá ríkisskattstjóra, í greiningum Hagstofunnar og í sumum tilvikum á aflandseyjum.“ 

Vandinn eftir heimsfaraldurinn er ekki laun fólks heldur launaleysi þess vegna atvinnuleysis. Það er staðreynd að það mun taka mun lengri tíma að vinna bug á atvinnuleysi ef fyrirtækin ráða ekki við þau laun sem samið hefur verið um. Verkalýðshreyfingin verður því að spyrja sig hvort hún vilji, há laun fyrir færri eða störf fyrir fleiri.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.