Sumarið 2018 urðu þáttaskil í bandarískum skattarétti þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp dóm sinn í máli Suður- Dakota gegn Wayfair . Dómurinn kvað á um að fylkjum innan Bandaríkjanna væri heimilt að krefja fyrirtæki um að þau innheimtu og greiddu söluskatt, burtséð frá því hvort fyrirtækin væru með starfsstöð innan fylkisins eður ei. Niðurstaða Wayfair málsins undirstrikar mikilvægi þess að fyrirtæki séu meðvituð um staðbundna skattskyldu sem og skattskyldu í einstaka fylkjum leitist þau eftir að hefja starfsemi í Bandaríkjunum.

Forsagan

Til viðbótar við alríkistekjuskatta eru fyrirtæki með starfsemi í Bandaríkjunum skyldug til að greiða margvíslega skatta til fylkja Bandaríkjanna sem og aðra staðbundna skatta. Því nánast öll fylki, og sum staðbundin stjórnvöld svo sem í New York borg og Washington , leggja skatta á fyrirtæki. Í ljósi þess að fylkin eru ekki sjálfstæðir aðilar að tvísköttunarsamningum sem Bandaríkin gera við önnur ríki taka reglur samninganna ekki til skattlagningar fylkjanna.

Bandaríkin eru ekki með virðisaukaskattskerfi eins og við þekkjum það. Þess í stað leggja nánast öll fylki og staðbundin stjórnvöld á söluskatta og notkunarskatta. Söluskattur er lagður á sölu til endanlegra notenda vöru og þjónustu á meðan notkunar-skattur er lagður á við innflutning vöru til ríkis sem ekki hefur sætt álagningu söluskatts.

Tekjuskattur fylkja

Tekjuskattur fylkja Bandaríkjanna tekur til fyrirtækja sem eru stofnuð og starfa samkvæmt lögum þess tiltekna fylkis sem og þeirra fyrirtækja sem starfrækja starfsemi innan fylkisins, hafa tengsl við það fylki, eða svokallað „ nexus “, eiga þar eignir eða eru að öðru leyti með starfsstöðvar þar. Til dæmis, ef þú stofnaðir fyrirtæki í Kaliforníu og starfræktir þar skrifstofu en sala fyrirtækisins ætti sér stað bæði í Kaliforníu og New York þá væru tekjur fyrirtækisins skattlagðar bæði í Kaliforníu og New York .

Skattstofn til skattlagningar innan fylkja Bandaríkjanna, er reiknaður af brúttó tekjum eða þá að alríkis skattstofn er notaður sem útgangspunktur. Skattstofninn er því næst leiðréttur með viðbótum, frádráttum og öðrum breytingum á tilteknum atriðum sem meðhöndluð eru ólíkt við skattalagningu fylkja heldur en við alríkisskattlagningu (t.d. afskriftir). Atriðin sem háð eru leiðréttingunni eru breytileg milli fylkja. Þannig leiðréttum skattstofni er skipt niður á fylkin samkvæmt tiltekinni reikningsaðferð sem byggir á eignum, launagreiðslum og sölu félagsins sem rekja má til hvers fylkis.

Söluskattur

Í Washington borg og 45 fylkjum Bandaríkjanna til viðbótar er söluskattskerfi við lýði. Söluskatturinn leggst á söluverð og er því greiddur af viðskiptavininum. Seljandanum er skylt að greiða álagðan söluskatt til skattyfirvalda í viðkomandi fylki. Söluskattur skal innheimtur frá viðskiptavininum í heimafylki fyrirtækisins og hverju því fylki sem fyrirtækið er með tengsl við og hefur söluskattskyldu í. Fyrirtæki hefur „ nexus “, og þá söluskattskyldu, í öðru fylki ef eitthvað af eftirfarandi á við: starfsstöð í fylkinu (t.d. vöruskemmu), starfsmenn á launaskrá, félagið geymir þar birgðir, ef það sendir þangað vörur, ef þar eru tengdir aðilar eða ef þar er tímabundin sala (t.d. vegna vörusýningar). Hvert og eitt þessara atriða er talið nægjanlegt til að mynda tengsl, þ.e. „ nexus “, við það fylki.

Það er hér sem Wayfair -málið breytti leikreglum söluskattskerfisins . Í kjölfar dómsins er ofangreind upptalning um myndun tengsla við fylki ekki einu atriðin sem ákvarða söluskattskyldu fyrirtækja í netviðskiptum. Wayfair - málið veitti fylkjum vald til að leggja söluskatt á viðskiptavini í fylkinu burtséð frá því hvort fyrirtæki hefði myndað eitthvert samband eða tengsl við fylkið. Breytingin tók gildi 1. júlí 2018. Þegar söluskattskylda er komin á milli fyrirtækis og fylkis, er fyrirtækinu skylt að afla söluskattsleyfis áður en söluskattur er innheimtur frá viðskiptavininum. Þegar fylki veitir slíkt leyfi eru veittar upplýsingar um skilatímabil og gjalddaga.

Notkunar-skattur

Í þeim tilvikum þegar söluskattur hefur ekki áður verið lagður á vöru er notkunar-skattur lagður á notkun, geymslu eða neyslu á vöru innan fylkis, eða umdæmis staðbundinnar skattlagningar. Notkunar- skatturinn er lagður á kaup frá söluaðilum utan fylkis, sem eigi er skylt að innheimta skatt af sölu innan þess fylkis. Notkunarskatturinn tryggir að sambærilegur skattur leggst á alla sölu hvort sem hún fer fram innan fylkisins eður ei. Notkunar-skatturinn, ólíkt söluskatti, er innheimtur án aðkomu seljandans, þ.e. að viðskiptavinurinn þarf sjálfur að útbúa skilagrein og greiða skattinn, á meðan söluskatturinn innheimtist af seljandanum á kostnað viðskiptavinarins og er að lokum skilað af seljandanum til skattyfirvalda tiltekins fylkis.

Áhrif á þitt félag

Ef útrás til Bandaríkjanna er fyrirhuguð hjá þínu félagi er afar mikilvægt að þekkja reglur um staðbundna skattlagningu og skattlagningu fylkja Bandaríkjanna, sem koma til viðbótar við skattlagningu alríkisins. Í þessu felst að huga ber vel að því innan lögsögu hvaða fylkis fyrirtæki er stofnað, hvar það skal staðsett (starfsmenn, birgðir, tölvukerfi, o.s.frv.) og hvar viðskiptavinir fyrirtækisins eru staðsettir. Hvert og eitt fylki Bandaríkjanna er með sínar eigin reglur um tekjuskatt, sölu- og notkunar-skatt. Það er því mikilvægt að afla sér nákvæmra upplýsinga um skattareglur áður en til viðskipta er stofnað innan Bandaríkjanna eða innan nýs fylkis.

Ása Kristín Óskarsdóttir er lögmaður og Veena Parrikar er hagfræðingur hjá KPMG Lögmönnum.